logo-for-printing

23. febrúar 2022

Frekari upplýsingar um ákvörðun Seðlabanka Slóvakíu vegna brota NOVIS

Bygging Seðlabanka Íslands

Fjármálaeftirlit Seðlabanka Íslands (Fjármálaeftirlitið) vísar til fyrri frétta sem birst hafa um ákvarðanir Seðlabanka Slóvakíu (Národná banka Slovenska, NBS) varðandi NOVIS Versicherungsgesellschaft, NOVIS Compagnia di Assicurazioni, NOVIS Poisťovňa a.s. (NOVIS), nú síðast 26. janúar 2022 þar sem sagt var frá nýrri ákvörðun NBS frá 14. janúar 2022 vegna brota vátryggingafélagsins NOVIS. NBS hefur nú birt frekari upplýsingar um úrbótakröfur samkvæmt fyrrgreindri ákvörðun.

NBS gerir í ákvörðun sinni úrbótakröfur í þremur liðum. Eins og kom fram í síðustu frétt voru NOVIS settar tímabundnar takmarkanir varðandi frjálsa ráðstöfun á eignum félagsins sem og allar ráðstafanir sem geta rýrt verðgildi eigna, sbr. liður þrjú í úrbótakröfunum. Nú hefur NBS birt upplýsingar um fyrsta lið úrbótakrafnanna sem felur í sér kröfu til NOVIS um að hækka vátryggingaskuld félagsins. Gildistími ákvörðunar um hækkun vátryggingaskuldar er frá árslokum 2021 til ársloka 2022. Í þessum lið úrbótakrafnanna kemur fram að NOVIS geti, að fengnu samþykki NBS, sótt um að nota aðrar forsendur til útreiknings vátryggingaskuldar.

Nánari upplýsingar um framangreindar úrbótakröfur er að finna í ákvörðun NBS.

Seðlabankinn hefur tekið saman uppfærðar upplýsingar til íslenskra neytenda vegna stöðu NOVIS í ljósi ákvörðunar NBS og þeirra upplýsinga sem hafa verið birtar opinberlega.

Nánari upplýsingar og fyrri fréttir

Hvað er vátryggingaskuld?
Vátryggingaskuld er skuldbinding vátryggingafélaga vegna gerðra vátryggingarsamninga. Hún er mat á væntanlegum kostnaði vátryggingafélags við greiðslu bóta sem það hefur lofað að greiða tjónþolum eða vátryggingartökum.

Hvað er gjaldþol?
Það fjármagn sem vátryggingafélag þarf að hafa til að mæta tapi sem leiðir af atburðum sem leiða til óhagstæðrar afkomu af rekstri vátrygginga, fjárfestinga eða annarra þátta í rekstri vátryggingafélags.

Hvað er gjaldþolskrafa?
Gjaldþolskrafa er mælikvarði yfir alla áhættu vátryggingafélags til þess að áætla mögulegt tap þess til næstu 12 mánaða m.v. 99,5% öryggisstig. Gjaldþolskrafa er reiknuð eftir staðalreglu eða eigin líkani og tekur tillit til þess hvort rekstur vátryggingafélags sé áhættusamur m.t.t. þeirrar starfsemi sem félagið stundar, fjárfestinga og fleiri þátta.

Fyrri fréttir Fjármálaeftirlitsins um málefni NOVIS

Fyrri fréttatilkynningar sem NBS hefur birt vegna mála NOVIS

Til baka