Markaðskönnun
Þegar kemur að framkvæmd framsýnnar peningastefnu og rannsóknum skiptir höfuðmáli að hafa góðan mælikvarða á verðbólguvæntingar. Þar skipta væntingar aðila á fjármálamarkaði miklu. Til að öðlast betri sýn á þær hóf Seðlabankinn í ársbyrjun 2012 að framkvæma ársfjórðungslega könnun á væntingum markaðsaðila til ýmissa hagstærða, þ.m.t. verðbólgu og vaxta.
Könnunin er send út til um það bil 35 aðila á fjármálamarkaði: rekstrarfélaga, greiningardeilda, lífeyrissjóða, verðbréfafyrirtækja, fyrirtækja með starfsleyfi til eignastýringar og tryggingafélaga. Niðurstöður könnunarinnar nýtast Seðlabankanum við framkvæmd peningastefnunnar og í rannsóknum. Niðurstöðurnar eru einnig aðgengilegar markaðsaðilum og almenningi á heimasíðu bankans.
Sjá niðurstöður væntingakönnunar hér:
Væntingar markaðsaðila - þriðji ársfjórðungur 2024. Birt 16. ágúst 2024.
Eldri spurningar og sértækar spurningar. Birt 2. maí 2024.
Birtingardagar væntingakönnunar markaðsaðila árið 2024 eru:
31. janúar 2024
2. maí 2024
16. ágúst 2024
13. nóvember 2024
Birting er kl. 09:00.
Uppsetning væntingakönnunar
Væntingakönnun markaðsaðila skiptist í þrjá hluta. Í fyrsta hlutanum er spurt um væntingar til skamms og meðallangs tíma og í öðrum hluta um væntingar til lengri tíma. Spurt er um væntingar til ársverðbólgu, gengis evru gagnvart krónu, veðlánavaxta SÍ, nafnvaxta og raunvaxta. Í þriðja hlutanum er spurt um álit á taumhaldi peningastefnu Seðlabankans. Einnig geta verið viðbótarspurningar í lok könnunarinnar. Þær eru ekki bundnar við ákveðið efni heldur snúa þær að málefnum sem Seðlabankinn telur mikilvæg fyrir rannsóknir og framkvæmd peningastefnunnar á hverjum tíma.
Framkvæmd væntingakönnunar
Væntingakönnun Seðlabankans er framkvæmd fjórum sinnum á ári, fyrir hverja útgáfu Peningamála eða um miðjan hvern ársfjórðung. Könnunin er rafræn. Að jafnaði er hún send út á mánudegi og rennur svarfrestur út í lok dags á miðvikudegi. Með stuttum svartíma er reynt að koma í veg fyrir að nýjar upplýsingar séu birtar meðan á svarfrestinum stendur og þannig tryggt að allir þátttakendur séu að svara út frá sambærilegum upplýsingum. Farið er með svör einstakra þátttakenda sem trúnaðarmál.
Niðurstöður könnunarinnar eru birtar á vef Seðlabankans samkvæmt birtingaráætlun. Þær innihalda meðaltal og miðgildi svara við hverri spurningu könnunarinnar auk staðalfráviks svara. Niðurstöðurnar eiga því að geta gefið glögga mynd af væntingum markaðsaðila.
Frekari upplýsingar um markmið og framkvæmd væntingakönnunar markaðsaðila má finna í ritinu Upplýsingarit.