logo-for-printing

Þjóðhagsvarúð

Þjóðhagsvarúð snýr að því að varðveita stöðugleika fjármálakerfisins í heild, með því að takmarka kerfisáhættu. Meginmarkmið þjóðhagsvarúðar er að auka stöðugleika, styrkja viðnámsþrótt og lágmarka þannig hættuna á fjármálaáföllum. Til að ná markmiði um þjóðhagsvarúð getur Seðlabanki Íslands beitt þjóðhagsvarúðartækjum. Þar á meðal eru reglur um eiginfjárauka á fjármálafyrirtæki, gjaldeyrisjöfnuð, laust fé og stöðuga fjármögnun og reglur sem takmarka áhættutöku skuldara, svo sem takmarkanir á veðsetningarhlutföllum og heildarfjárhæð eða greiðslubyrði fasteignalána til neytenda í hlutfalli við tekjur. Fjármálastöðugleikanefnd fer með ákvörðunarvald um beitingu þjóðhagsvarúðartækja. Nefndin byggir ákvarðanir sínar á greiningu á stöðu fjármálakerfisins, fjármálamarkaða, hagkerfisins í heild, kerfisáhættu og viðnámsþrótti gagnvart mögulegum áföllum. Þá framkvæmir Seðlabanki Íslands einnig álagspróf til að meta viðnámsþrótt og sviðsmyndagreiningu af helstu áhættuþáttum.