logo-for-printing

Þjóðhagsvarúð

Þjóðhagsvarúð er heildar- eða kerfiseftirlit sem felst í að líta eftir fjármálakerfinu í heild, samspili eininganna sem mynda það og tengslum þess við aðra þætti hagkerfisins. Umgjörð þjóðhagsvarúðar á Íslandi var lögfest með lögum nr. 66, um fjármálastöðugleikaráð, sem samþykkt voru í maí 2014. Umgjörðin samanstendur af fjármálastöðugleikaráði og kerfisáhættunefnd. Saman eru þau formlegur samstarfsvettvangur stjórnvalda um fjármálastöðugleika.

 

Fjármálastöðugleikaráð

Í fjármálastöðugleikaráði sitja fjármála- og efnahagsráðherra, sem er formaður, seðlabankastjóri og forstjóri Fjármálaeftirlitsins. Ráðið heldur að jafnaði fjóra fundi á ári og miðar við að þeir séu innan tveggja vikna frá fundi kerfisáhættunefndar. Fjármálastöðugleikaráð skal gera Alþingi grein fyrir störfum sínum a.m.k. einu sinni á ári og halda ríkisstjórn upplýstri um störf sín og viðbúnað stjórnvalda við sérstakar aðstæður. Umsýsla nefndarinnar er í höndum fjármála- og efnahagsráðuneytisins.

Fjármálastöðugleikaráð getur sent þar til bærum stjórnvöldum tilmæli um aðgerðir, aðrar en beitingu stjórntækja Seðlabanka Íslands í peningamálum, sem eru taldar nauðsynlegar á hverjum tíma til að efla og varðveita fjármálastöðugleika. Ráðið nýtir fyrirliggjandi gögn, mat og tillögur kerfisáhættunefndar, til að meta þau atriði sem kunna að hafa óæskileg áhrif á fjármálastöðugleika, skilgreina aðgerðir til að vinna gegn þeim í formi tilmæla til viðeigandi stjórnvalds. Fjármálastöðugleikaráð skal opinberlega birta tilmæli sín og rökstuðning fyrir þeim, nema þegar birting er talin hafa neikvæð áhrif á fjármálastöðugleika. Fari stjórnvald ekki eftir tilmælum ráðsins skal það skila til ráðsins skriflegum rökstuðningi fyrir afstöðu sinni.

Fjármálastöðugleikaráð setur sér starfsreglur og mótar opinbera stefnu um fjármálastöðugleika í samræmi við 3. og 4. gr. laga nr. 66 um fjármálastöðugleikaráð. Í opinberri stefnu eru sett fram sex millimarkmið sem styðja við fjármálastöðugleika:

  1.  Að vinna gegn óhóflegum útlánavexti, skuldsetningu og ójafnvægi á eignamörkuðum.
  2. Að vinna gegn óhóflegu gjalddagamisræmi og lausafjárskorti, sér í lagi í erlendum gjaldmiðlum.
  3. Að vinna gegn beinni og óbeinni áhættu af skuldbindingum vegna samþjöppunar og krosseignatengsla.
  4. Að vinna gegn áhrifum neikvæðra hvata og freistnivanda, einkum stofnana sem teljast kerfislega mikilvægar.
  5. Að vinna gegn óæskilegum áhrifum af óhóflegu fjármagnsflæði til og frá landinu sem getur magnað hagsveifluna.
  6. Að vinna gegn smitáhættu og öðrum veikleikum í fjármálainnviðum.

Nánari upplýsingar um fjármálastöðugleikaráð eru aðgengilegar á heimasíðu þess: Fjármálastöðugleikaráð

Kerfisáhættunefnd

Kerfisáhættunefnd starfar fyrir fjármálastöðugleikaráð. Í henni sitja seðlabankastjóri, sem er formaður, forstjóri Fjármálaeftirlitsins, sem er varaformaður, aðstoðarseðlabankastjóri, aðstoðarforstjóri Fjármálaeftirlitsins og utanaðkomandi sérfræðingur skipaður af ráðherra. Kerfisáhættunefnd kemur saman að minnsta kosti fjórum sinnum á ári en oftar ef þörf er á. Umsýsla nefndarinnar er í umsjá Seðlabanka Íslands. Nefndin setur sér starfsreglur sem fjármálastöðugleikaráð staðfestir, í samræmi við 7. gr. laga nr. 66 um fjármálastöðugleikaráð: Starfsreglur fyrir kerfisáhættunefnd

Kerfisáhættunefnd leggur mat á ástand og horfur í fjármálakerfinu, kerfisáhættu og fjármálastöðugleika fyrir fjármálastöðugleikaráð. Matið byggist á greiningarvinnu Seðlabanka Íslands og Fjármálaeftirlitsins. Kerfisáhættunefnd tekur mið af opinberri stefnu um fjármálastöðugleika í vinnu sinni. 

 Mynd: Fyrirkomulag fjármálastöðugleikaráðs og kerfisáhættunefndar.

 

Þjóðhagsvarúðaraðgerðir

Bendi greiningar fjármálastöðugleikaráðs til þess að fjármálastöðugleika sé ógnað skal ráðið gefa út tilmæli um viðeigandi aðgerðir. Aðgerðir sem fjármálastöðugleikaráð getur skilgreint nánar eru til dæmis eiginfjáraukar, reglur um útlán fjármálafyrirtækja, og reglur til að sporna við óhóflegum sveiflum í fjármagnsflæði.

Fjármálastöðugleikaráð hefur birt viðmið um ákvörðun um kerfislega mikilvæga eftirlitsskylda aðila og staðfest kerfislegt mikilvægi fjögurra eftirlitsskyldra aðila á Íslandi: Landsbankans hf., Arion banka hf., Íslandsbanka hf. og Íbúðalánasjóðs.
Fjármálaeftirlitið hefur virkjað eftirfarandi eiginfjárauka að fengnum tilmælum frá fjármálastöðugleikaráði: Ákvarðanir um eiginfjárauka

Eiginfjáraukar og gildistaka þeirra:

Eiginfjárauki Tilmæli FSR Ákvörðun FME Gildi Gildistaka
Eiginfjárauki vegna kerfisáhættu, KMB* 22.01.2016 01.03.2016 3,00% 01.04.2016
Eiginfjárauki vegna kerfisáhættu, aðrar innlánastofnanir 22.01.2016 13.04.2018 01.03.2016 15.05.2018 2,00% 3,00% 01.01.2018 01.01.2020
Eiginfjárauki vegna kerfislegs mikilvægis 22.01.2016 01.03.2016 2,00% 01.04.2016
Sveiflujöfnunarauki 13.04.2018 19.12.2018 15.05.2018 01.02.2019 1,75% 2,00% 15.05.2019 01.02.2020
Verndunarauki 2,50% 01.01.2017
*Arion banki, Íslandsbanki, Landsbankinn