
Markaðsviðskipti
Framkvæmd peningastefnu Seðlabankans er í höndum markaðsviðskipta bankans ásamt annarri innlendri markaðsstarfsemi, eftirliti með mörkuðum og þátttöku á þeim eftir því sem þurfa þykir.
Seðlabankinn hefur eftirlit með millibankamarkaði með gjaldeyri og millibankamarkaði með krónur (REIBOR). Seðlabankinn grípur inn á millibankamarkaði með gjaldeyri og kaupir eða selur krónur fyrir evrur. Daglega skráir Seðlabankinn opinbert viðmiðunargengi íslensku krónunnar og vexti á krónumarkaði. Seðlabankinn hefur áhrif á vexti á millibankamarkaði með krónur þegar hann setur vexti í viðskiptum við fjármálafyrirtæki.
Seðlabankinn er aðili að viðskiptakerfi Nasdaq OMX og fylgist með skipulögðum verðbréfamarkaði án þess að hafa eftirlit með honum. Seðlabankinn getur átt viðskipti á eftirmarkaði með skuldabréf, telji hann það þjóna markmiðum sínum.
Sýna allt
Markaðir
Millibankamarkaður með gjaldeyri
Gengi íslensku krónunnar er ákvarðað á millibankamarkaði með gjaldeyri (gjaldeyrismarkaður). Markaðurinn er opinn milli kl. 9:15 og 16 hvern viðskiptadag. Rétt til þátttöku á gjaldeyrismarkaði hafa þrjú fjármálafyrirtæki og gegna þau hlutverki viðskiptavaka en auk þeirra er Seðlabanki Íslands einnig þátttakandi. Um gjaldeyrismarkaðinn gilda reglur sem Seðlabanki Íslands setur, nr. 1098 frá 3. desember 2008.
Gjaldeyrismarkaður myndar verð á íslensku krónunni gagnvart evru. Viðskiptavakar skuldbinda sig til að setja fram kaup- og sölutilboð. Tilboðin eru birt í upplýsingakerfi Reuters og eingöngu markaðsaðilar hafa aðgang að þeim. Seðlabankinn heldur utan um veltu á markaðnum og birtir í hagtölum.
Seðlabankinn skráir gengi íslensku krónunnar gagnvart erlendum myntum klukkan 10:45 hvern viðskiptadag. Skráningin er augnabliksmynd af markaðnum á þeim tíma sem skráð er.
Nánar má lesa um gjaldeyrismarkaðinn í grein í 3. tbl. Peningamála frá 2001.Helstu punktar um millibankamarkað með gjaldeyri.
- Opnunartími markaðarins: virkir dagar 9:15-16:00.
- Fjármálafyrirtæki eru viðskiptavakar á markaðnum.
- Viðskiptagjaldmiðill er evra.
- Lágmarksviðskiptafjárhæð er í reglum um gjaldeyrismarkað en núna eru tilboð ein milljón evra í hvert sinn.
- Munur á kaup- og sölutilboðum má mest vera 100 aurar samkvæmt reglum, en viðskiptavakar geta samið um þrengra bil. Bilið nú 20 aurar.
- Seðlabanki Íslands:
-
Er aðili að markaðnum.
-
Er ekki viðskiptavaki og þarf því ekki að halda úti virkum kaup- og sölutilboðum.
-
Getur átt viðskipti við viðskiptavaka hvenær sem er á opnunartíma markaðarins.
-
Sinnir eftirlitshlutverki.
-
Millibankamarkaður með krónur
Millibankamarkaður með krónur (krónumarkaður) er markaður fyrir ótryggð skammtíma inn- og útlán á milli lánastofnana. Markaður var settur á laggirnar í júní 1998. Hann starfar á grundvelli reglna um viðskipti á millibankamarkaði með krónur nr. 805/2009, sem Seðlabankinn setti í samstarfi við markaðsaðila.
Hlutverk Seðlabankans er þó eingöngu að skipuleggja markaðinn og starfrækja. Seðlabankinn er ekki aðili að markaðnum, þar sem bankanum er ekki heimilt að veita lán án trygginga. Krónumarkaður gengur einnig undir nafninu REIBOR markaður og vextir sem skráðir eru á markaðnum kallaðir REIBOR vextir. REIBOR er stytting á Reykjavík interbank offered rate.
-
Opnunartími markaðarins: virkir dagar 9:15-16:00.
-
Fjármálafyrirtæki eru aðilar á markaðnum.
-
Markaðsaðilar eru fjórir;
-
Arion banki hf.,
-
Íslandsbanki hf.
-
Landsbankinn hf.
-
Kvika banki hf.
-
-
Markaðsaðilar semja um lánalínur sín á milli.
-
Markaðsaðilum er skylt að gefa upp bindandi inn- og útlánstilboð í eftirfarandi tímalengdir, yfir nótt (ON), vika (SW), einn mánuður (1M), þrír mánuðir (3M), sex mánuðir (6M), níu mánuðir (9M) og tólf mánuðir (1Y).
-
Markaðsaðilar skuldbinda sig til að uppfæra reglulega skuldbindandi vaxtatilboð á inn- og útlánum á millibankamarkaði, þó eigi sjaldnar en á 10 mínúta fresti.
-
-
Hámark vaxtabil milli inn- og útlána í tilboðum markaðsaðila til eins mánaðar eða lengri tíma er 100 punktar. Ekki er skilgreint hámarksvaxtabil í tilboðum með styttri tímalengdum.
-
Seðlabanki Íslands:
-
Er ekki aðili að markaðnum.
-
Sinnir eftirlitshlutverki og heldur utan um viðskipti á markaðinum sem birtar eru í hagtölum.
-
Skráir daglega vexti á millibankamarkaðinum með krónur fyrir tímalengdir frá yfir nótt að 12 mánuðum. Skráningin fer fram kl. 11:15 og er birt á heimasíðu Seðlabankans skömmu síðar.
Nánari upplýsingar um veltu á millibankamarkaði má finna á heimasíðu Seðlabankans
Markaðsaðgerðir Seðlabankans og stjórntækin
Markmiðið með framkvæmd peningastefnunnar
Markmiðið með framkvæmd peningastefnunnar er að styðja við stefnuna í peningamálum og tryggja stöðugt verðlag. Til þess að svo megi verða ákvarðar Seðlabankinn vexti í viðskiptum sínum við fjármálafyrirtæki og stýrir því magni lausafjár sem hann ýmist býður að láni eða tekur að láni í vikulegum markaðsviðskiptum. Með aðgerðum sínum hefur bankinn áhrif á skammtímavexti á millibankamarkaði með krónur og skammtímavextir hafa síðan áhrif á vexti til lengri tíma. Peningastefnunefnd ákvarðar vexti í viðskiptum Seðlabankans.
Reglur um viðskipti fjármálafyrirtækja við Seðlabankann
Seðlabankinn setur reglur um viðskipti fjármálafyrirtækja við Seðlabankann, og eru nú gildi reglur nr. 553 frá 26. júní 2009. Reglurnar segja meðal annars til um hverjir geta verið mótaðilar í viðskiptum við Seðlabankann, hvers konar viðskipti og hvaða veð. Seðlabankinn metur hvaða bréf eru hæf í viðskiptum við bankann og eru reglurnar endurskoðaðar eftir þörfum.
Mótaðilar í viðskiptum við Seðlabankann
Mótaðilar í viðskiptum við Seðlabankann eru viðskiptabankar, sparisjóðir og lánafyrirtæki. Einnig geta útibú erlendra fjármálafyrirtækja sem starfa hér á landi verið í viðskiptum við Seðlabankann. Þrátt fyrir að fjármálafyrirtæki geti tekið þátt í viðskiptum í Seðlabankanum er það undir hverju og einu fyrirtæki komið hvort þau nýta sér það.
Daglán og viðskiptareikningar
Daglán eru lán sem mótaðilar í viðskiptum við Seðlabankann geta sótt um að eigin frumkvæði að því gefnu að þeir geti lagt fram veð sem Seðlabankinn metur hæf. Daglán eru lán til næsta viðskiptadags og eru vextir daglána óhagstæðir og hærri en í öðrum lánsviðskiptum. Vextir daglána mynda þak fyrir vexti til einnar nætur á millibankamarkaði. Hægt er að sækja um daglán til þess að tryggja að staða á reikningum í bankanum sé jákvæð í lok dags og einnig til að uppfyllingar bindiskyldu.
Reglur nr. 540 frá 18. júní 2007 um viðskiptareikninga við Seðlabanka Íslands segja til um hverjir mega eiga viðskiptareikning í Seðlabankanum. Þeir sem eiga reikninga geta lagt inn á og tekið út af þeim að eigin ósk. Seðlabankinn greiðir viðskiptareikningsvexti á alla innstæðu á viðskiptareikningi. Yfirdráttur yfir nótt á viðskiptareikningi, eða öðrum reikningum hjá Seðlabankanum, er óheimill. Vextir viðskiptareikninga mynda gólf fyrir vexti til einnar nætur á millibankamarkaði.
Daglán og innstæður á viðskiptareikningum kallast reglubundin fyrirgreiðsla (e. standing facility).
Markaðsaðgerðir og stýring lauss fjár
Seðlabanki Íslands hefur einn viðskiptadag í viku, miðvikudag, þar sem hann býður mótaðilum að taka þátt í markaðsaðgerðum. Tilgangur markaðsaðgerða er að stýra magni lauss fjár í umferð á hverjum tíma hjá mótaðilum bankans og hafa þannig áhrif á á vexti á millibankamarkaði. Markmið aðgerða Seðlabankans er að vextir á millibankamarkaði með krónur séu sem næstir meginvöxtum Seðlabankans eins og þeir eru skilgreindir hverju sinni. Seðlabankinn getur átt viðskipti oftar en vikulega telji bankinn ástæðu til.
Aðstæður á markaði ráða því hvort Seðlabankinn býður fjármálafyrirtækjum að taka lán hjá bankanum eða að binda krónur á innlánsreikningi í umsamin tíma. Seðlabankinn hefur þá meginreglu að bjóða ekki útlán og innlán á sama tíma.
Lausafjárstaða fjármálafyrirtækja getur breyst mikið milli daga og eru hreyfingar ríkissjóðs ein aðalástæða þess. Launagreiðslur um mánaðamót fjölga krónum í umferð og greiðsla staðgreiðslu og virðisauka og annarra skatta og skyldna til ríkissjóðs fækkar krónum sem eru í umferð í bankakerfinu.
Stjórntæki
Stjórntæki Seðlabankans eru þær aðgerðir eða viðskipti sem geta haft áhrif á hegðun mótaðila hans að gefnu ákveðnu markmiði. Þegar talað er um stjórntæki Seðlabankans er oftast talað um þau viðskipti sem bankinn á ásamt bindiskyldu. Stundum eru einstök stjórntæki ekki notuð svo árum skiptir en eru engu að síður til taks ef á þarf að halda.
Bundin innlán til 7 daga
Á miðvikudögum býður Seðlabankinn bundin innlán til 7 daga. Vextir innlánana eru 0,25 prósentum hærri en vextir á viðskiptareikningum. Innlánin eru bundin í 7 daga og ekki innleysanleg á tímabilinu. Bundin innlán má nota sem veð til tryggingar í greiðslukerfum og daglánum. Seðlabankinn tilkynnir eftir lokun markaða á þriðjudögum hvaða fjárhæð er í boði næsta dag. Mótaðilar sem vilja taka þátt í útboðinu bjóða í fjárhæð en hámarkstilboð er 60% af heildarfjárhæð. Ef tilboð eru hærri en heildarfjárhæð sem er í boði er skorið hlutfallslega niður, hjá öllum. Bundin innlán til 7 daga hafa verið boðin út vikulega síðan í maí 2014.Bundin innlán til mánaðar
Fyrsta miðvikudag hvers mánaðar býður Seðlabankinn einnig út bundin innlán til eins mánaðar. Framkvæmdin er að mestu leyti eins og ef um 7 daga bundið innlán er að ræða. Mótaðilar Seðlabankans geta sent inn tilboð til Seðlabankans óski þeir eftir því að taka þátt í útboðum á bundnum innlánum. Seðlabankinn tilkynnir mótaðilum bankans útboðsfjárhæð og hámarks tilboðsfjárhæð. Þátttakendur í útboðinu bjóða í vexti og fjárhæð. Allir þátttakendur í útboðinu fá úthlutað fjárhæðum á sömu vöxtum sem samþykktir eru í hverju útboði, tilboðum með hærri vöxtum en samþykktum er hafnað. Bundin innlán til eins mánaðar hafa verið boðin út síðan í júní 2014.Bindiskylda
Seðlabankinn leggur bindiskyldu á mótaðila bankans. Um bindiskyldu gilda Lög og reglur frá 30. september 2015. Bindiskylda er uppfyllt á bindiskyldureikningi fjármálafyrirtækis hjá Seðlabankanum, þó getur bindiskyld lánastofnun óskað eftir því að uppfylla bindiskyldu sína hjá þriðja aðila. Bindiskyldutímabilið er frá 21. hvers mánaðar til 20. næsta mánaðar. Fjármálafyrirtæki þurfa að hafa að meðaltali ákveðna fjárhæð á dag yfir bindiskyldutímabilið en geta að öðru leyti stýrt hversu hratt bindiskyldan er uppfyllt. Meðaltalsuppfylling leyfir fjármálafyrirtækjum að aðlaga uppfyllingu bindiskyldu að skammtímabreytingum á eigin greiðsluflæði. Það breytir þó ekki því að yfir bindiskyldutímabilið þarf að lágmarki að vera ákveðin fjárhæð á reikningi í Seðlabankanum sem fyrirtæki hefðu án bindiskyldunnar getað ráðstafað með öðrum hætti. Þetta myndar þrýsting til hækkunar á millibankavöxtum.Bindiskylda er 2,0% af bindiskyldugrunni. Bindiskyldugrunnur er samtala innlána fjármálafyrirtækis sem hafa eftirstöðvartíma til 2 ára eða skemur og eigin útgáfa skuldabréfa með eftirstöðvatíma til 2 ára eða skemur. Heildarbindiskylda fjármálafyrirtækja er birt á heimasíðu Seðlabankans við upphaf nýs bindiskyldutímabils.
Viðskipti á gjaldeyrismarkaði
Viðskiptum á gjaldeyrismarkaði er einungis beitt, samkvæmt yfirlýsingunni um verðbólgumarkmið frá 2001, telji Seðlabankinn það nauðsynlegt til þess að stuðla að verðbólgumarkmiði sínu eða telji hann að gengissveiflur geti teflt stöðugleika fjármálakerfisins í tvísýnu. Í maí 2013 boðaði peningastefnunefnd að Seðlabankinn myndi í auknum mæli eiga viðskipti á gjaldeyrismarkaði og hefur bankinn verið virkur á gjaldeyrismarkaði síðan. Með viðskiptum á gjaldeyrismarkaði á Seðlabankinn viðskipti við viðskiptavaka á markaðnum. Kaupi Seðlabankinn erlendan gjaldeyri fjölgar krónum hjá viðskiptavökum en fækkar selji Seðlabankinn þeim gjaldeyri. Tíð gjaldeyriskaup hafa því áhrif á markaðsaðgerðir bankans. Seðlabankinn birtir veltu á millibankamarkaði með gjaldeyri hér.Önnur stjórntæki
Seðlabankinn getur nýtt sér fleiri stjórntæki en koma fram hér að framan og má helst nefna:- Veðlán til 7 daga voru lengi vel meginstjórntæki Seðlabankans og vextir þeirra eru í miðju vaxtagangsins. Seðlabankinn getur veitt lán bæði til skemmri og lengri tíma en öll lán sem Seðlabankinn veitir eru veðlán enda má bankinn ekki lána nema gegn veði í bréfum sem bankinn metur hæf. http://sedlabanki.is/peningastefna/markadsvidskipti-til-studnings-peningastefnu/vedhaef-verdbref/
- Endurhverf viðskipti (e. repurchase agreements, repó) eru samningar á milli tveggja aðila um kaup eða sölu verðbréfa, sem eru þau sömu og bankinn metur hæf sem trygging í lánsviðskiptum. Samningurinn er með gjalddaga að umsömdum tíma liðnum og gengur þá til baka. Seðlabankinn hefur ekki átt slík viðskipti.
- Innstæðubréf eru bréf sem Seðlabankinn getur gefið út og selt mótaðilum sínum. Slík bréf eru gefin út rafrænt af verðbréfaskráningu. Kjör bréfanna eru ákvörðuð hverju sinni. Innstæðubréf hafa verið gefin út bæði fyrir haustið 2008 og eftir.
- Samkvæmt 8. gr. laga um Seðlabankann 36/2001 getur Seðlabankinn keypt eða selt ríkistryggð verðbréf eða önnur trygg verðbréf á eftirmarkaði til að ná markmiðum sínum í peningamálum.
Seðlabankinn og ríkissjóður
Í lögum um Seðlabankann kemur fram að Seðlabankinn er viðskiptabanki ríkissjóðs. Ríkissjóður og ýmsar ríkisstofnanir geta átt viðskiptareikninga hjá Seðlabankanum. Vextir á viðskiptareikningum ríkisstofnanna eru þeir sömu og á viðskiptareikninga fjármálafyrirtækja hjá Seðlabankanum. Ríkissjóði er óheimilt að vera með yfirdrátt í Seðlabankanum.
Veðhæf verðbréf
Hér má finna lista yfir þau verðbréf sem Seðlabankinn hefur metið hæf til tryggingar í viðskiptum við bankann skv. reglum nr. 553/2009 um viðskipti fjármálafyrirtækja við Seðlabanka Íslands:
Hér má finna lista yfir þau verðbréf sem Seðlabankinn hefur metið hæf til tryggingar uppgjöri vegna þátttöku í greiðslukerfum skv. reglum nr. 703/2009 um stórgreiðslukerfi Seðlabanka Íslands:
Við mat á verðmæti verðbréfa sem fjárhagslegrar tryggingarráðstöfunar vegna viðskipta við Seðlabankann skal nota frádrag frá viðmiðunarverði skv. meðfylgjandi töflu:
Frádrag frá viðmiðunarverði < 2ár 2ár < 5 ár
5 ár < Verðbréf gefin út af ríkissjóði 1%
3%
5%
Ríkisvíxlar 1%
3%
5%
Verðbréf með ríkisábyrgð 1%
3%
5%
Bundin innlán Seðlabankans 0%
0%
0%
Önnur verðbréf 2%
5%
7%
Frádrag í daglánum er alltaf 10% af markaðsverðmæti undirliggjandi trygginga. Ef nauðsyn krefur, t.d. vegna markaðsaðstæðna, getur Seðlabankinn beitt frekara frádragi. Seðlabankinn áskilur sér rétt til að hafna umsókn um viðskipti náist ekki samkomulag um verðmat trygginga.