logo-for-printing

Gjaldeyrisforði

Samkvæmt lögum nr. 36/2001 varðveitir Seðlabanki Íslands gjaldeyrisforða og stýrir honum í samræmi við markmið sín og hlutverk sem seðlabanki. Eignir í gjaldeyrisforða eru erlendar eignir Seðlabankans í erlendum gjaldmiðlum og sérstökum dráttarréttindum, inneign hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum, gullforði og annar gjaldeyrisforði.

Gjaldeyrisforði Seðlabanka Íslands takmarkar og dregur úr áhrifum af ytri áhættu tengdri breytingum á aðgangi að erlendu lánsfé og sveiflum í fjármagnsstreymi til og frá landinu. Forðinn gerir bankanum kleift að aðstoða Ríkissjóð Íslands við að mæta þörfum fyrir erlendan gjaldeyri og standa við erlendar lánsskuldbindingar. Gjaldeyrisforði skapar þá tiltrú á mörkuðum að landið geti staðið við erlendar skuldbindingar sínar. Þá má nota gjaldeyrisforða til að styðja peningastefnuna.

Starfsreglur um varðveislu gjaldeyrisforða eru settar af seðlabankastjóra og staðfestar af bankaráði á grundvelli 1. mgr. 20. gr. laga nr. 36/2001. Reglurnar setja ytri mörk á ásættanlega fjárhaglega áhættu bankans vegna gjaldeyrisforða. Í þeim er einnig kveðið á um ábyrgð og verkaskiptingu varðandi varðveislu gjaldeyrisforðans og tilgreindar þær meginreglur sem gilda um mat fjárhagslegrar áhættu, hvernig áhætta er mæld, greind og hvernig henni er stýrt.

Nánar er fjallað um gjaldeyrisforða í ársskýrslum bankans.

Hér má sjá nánari upplýsingar um stöðu gjaldeyrisforða.