logo-for-printing

Gjaldeyrisforði

Samkvæmt lögum nr. 92/2019 varðveitir Seðlabanki Íslands gjaldeyrisforða og stýrir honum í samræmi við markmið sín og hlutverk sem seðlabanki. Í gjaldeyrisforða eru erlendar eignir Seðlabankans í erlendum gjaldmiðlum: innstæður í erlendum bönkum, skuldabréfaeign, sérstök dráttarréttindi og inneign hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum, gull og aðrar erlendar eignir.

Gjaldeyrisforði Seðlabanka Íslands hefur ferns konar hlutverk: Í fyrsta lagi að draga úr áhrifum sveiflna í greiðslujöfnuði landsins, með hliðsjón af stefnu bankans í peninga- og gengismálum. Í öðru lagi að draga úr líkum á að fjármagnshreyfingar til og frá landinu raski fjármálastöðugleika. Í þriðja lagi er forðinn þáttur í eigna- og skuldastýringu ríkissjóðs og Seðlabankans með það að markmiði að íslenska ríkið geti staðið skil á erlendum skuldum sínum, greitt erlend útgjöld og staðið við aðrar alþjóðlegar skuldbindingar. Í fjórða lagi er gjaldeyrisforði öryggissjóður sem hægt er að grípa til ef stór og óvænt áföll eiga sér stað sem setja strik í gjaldeyrisöflun. 

Starfsreglur um varðveislu gjaldeyrisforða eru settar með vísan til 3. mgr. 3. gr. og 1. mgr. 30. gr. laga nr. 92/2019. Reglurnar eru settar af seðlabankastjóra og varaseðlabankastjórum. Fjárhagsáhætturáð Seðlabankans er þeim til ráðgjafar um varðveislu gjaldeyrisforða auk þess að annast eftirlit með að farið sé að starfsreglum þessum. Í starfsreglunum er fjallað um helstu atriði varðandi varðveislu gjaldeyrisforða, m.a. um tilgang, skipulag, heimilar fjárfestingar og ytri mörk ásættanlegrar áhættu.


Nánar er fjallað um gjaldeyrisforða í ársskýrslum bankans.

Hér má sjá nánari upplýsingar um stöðu gjaldeyrisforða.