logo-for-printing

Skilameðferð

Markmið skilameðferðar

Allar ákvarðanir skilavalds Seðlabanka Íslands eru teknar í ljósi markmiða laga um skilameðferð (e. resolution objectives). Umrædd markmið er undirstaðan við mat á því til hvaða úrræða verður gripið og hvaða skilastefna er heppilegust fyrir fjármálafyrirtæki hér á landi. Markmiðsákvæði laganna er samsett úr fimm þáttum skv. 1. gr. laganna : Að varðveita fjármálastöðugleika og lágmarka neikvæðar afleiðingar fjármálaáfalla með því að vernda tryggðar innstæður og fjárfesta, eignir viðskiptavina og nauðsynlega starfsemi fyrirtækja og lágmarka hættu á að veita þurfi fjárframlög úr ríkissjóði. Þeir fimm þættir sem markmiðsákvæði laganna felur í sér leiða til þess að skilavaldi Seðlabanka Íslands er ætlað að:

  1. Vernda nauðsynlega starfsemi fjármálafyrirtækja, þ.e. tryggja samfellu slíkrar starfsemi,
  2. varðveita fjármálastöðugleika og lágmarka neikvæðar afleiðingar fjármálaáfalla, þ.m.t. að takmarka smitáhrif og viðhalda markaðsaga,
  3. lágmarka hættu á að veita þurfi fjárframlög úr ríkissjóði,
  4. vernda tryggðar innstæður og fjárfesta, og
  5. vernda eignir viðskiptavina.

Með nauðsynlegri starfsemi samkvæmt fyrsta markmiðinu er átt við starfsemi, þjónustu eða rekstur sem er svo mikilvæg fyrir raunhagkerfið eða fjármálastöðugleika að veruleg hætta yrði á röskun efnahagsstarfsemi eða stöðugleika ef henni yrði hætt vegna þess hversu umfangsmikil hún er, vegna markaðshlutdeildar hennar, tengsla við aðra starfsemi, flækjustigs eða starfsemi yfir landamæri enda sé sambærileg starfsemi, þjónusta eða rekstur ekki í boði (e. substitutability). Til að ná fram ofangreindum markmiðum er skilavaldinu ætlað að lágmarka kostnað sem hlýst af skilameðferð og forðast virðistap (e. destruction of value) nema slíkt sé nauðsynlegt til að ná fram einhverjum af markmiðunum. Hluti af markmiðinu um að lágmarka neikvæðar afleiðingar fjármálaáfalla felur í sér að skilavaldi er ætlað að vinna gegn freistnivanda (e. moral hazard). Freistnivandi getur enda komið niður á markaðsaga þar sem fyrirtæki og fjárfestar verða áhættusæknari ef þeir treysta því að hið opinbera komi þeim til bjargar ef eitthvað bjátar á.

 

Skilyrði skilameðferðar

Til viðbótar við markmið laga um skilameðferð þurfa þrjú skilyrði öll að vera fyrir hendi til þess að skilavaldi Seðlabanka Íslands sé heimilt að grípa til aðgerða og beita þeim úrræðum sem skilameðferð felur í sér. Fyrsta skilyrðið er að fjármálaeftirlit Seðlabanka Íslands hafi, að höfðu samráði við skilavaldið, tekið ákvörðun um að fjármálafyrirtæki sé á fallanda fæti. Í því felst að talið er að fyrirtækið geti ekki staðið við skuldbindingar sínar eða að verulegar líkur séu á því að það geti ekki staðið við þær.

Að fenginni tilkynningu um að fyrirtæki sé á fallanda fæti ákveður skilavald Seðlabanka Íslands hvort nauðsynlegt sé að grípa til skilaaðgerðar gagnvart fyrirtækinu til að ná markmiðum laganna. Við slíka ákvörðun gengur skilavaldið úr skugga um að fyrir hendi séu síðari tvö skilyrðin fyrir því að skilavaldi Seðlabanka Íslands sé heimilt að grípa til aðgerða og beita skilaúrræðum. Annað skilyrðið er að skilavaldið þarf að hafa réttmæta ástæðu til að ætla að aðkoma einkaaðila eða aðrar opinberar aðgerðir, þ.m.t. tímanleg inngrip af hálfu fjármálaeftirlits Seðlabanka Íslands, komi ekki í veg fyrir fall fyrirtækis innan ásættanlegs tíma. Síðasta skilyrðið er að skilameðferð þarf að mati skilavalds að vera nauðsynleg vegna almannahagsmuna (e. public interest assessment). Endanleg ákvörðun Seðlabankans um skilameðferð er tekin að undangengnu samþykki fjármála- og efnahagsráðherra.