logo-for-printing

Laust fé og stöðug fjármögnun

Í samræmi við ákvæði 12. gr. laga um Seðlabanka Íslands, nr. 36/2001 með síðari breytingum, gefur Seðlabankinn annars vegar út reglur um lausafjárhlutfall o.fl. nr. 266/2017 og hins vegar reglur um fjármögnunarhlutfall í erlendum gjaldmiðlum nr. 1032/2014.

Laust fé 

Reglur um lausafjárhlutfall lánastofnana nr. 266/2017 tóku gildi hinn 31. mars 2017 og koma í stað eldri reglna nr. 1031/2014. Reglurnar eru settar á grundvelli 12. gr. laga um Seðlabanka Íslands, nr. 36/2001 með síðari breytingum, þar sem meðal annars er kveðið á um heimild Seðlabankans til að setja reglur um lágmark eða meðaltal lauss fjár lánastofnana.

Markmiðið með lausafjárreglunum er eins og áður að draga úr lausafjáráhættu lánastofnana með því að stuðla að því að þær eigi ávallt laust fé til að mæta skuldbindingum við álagsaðstæður á tilteknu tímabili.

Lausafjárreglurnar eru byggðar á alþjóðlegum staðli Basel-nefndarinnar um bankaeftirlit eins og fyrri reglur Seðlabankans frá árinu 2013. Nýju reglurnar hafa ekki mikil áhrif á lausafjárkröfur sem gerðar eru til banka. Þær miða hins vegar að því að innleiða sömu skilgreiningar og framsetningu og hafa tekið gildi í Evrópusambandinu og eru að mestu leyti samhljóða reglum ESB. Í nýjum reglum Seðlabankans eru þó áfram gerðar sérstakar kröfur um lágmark lausafjárhlutfalls fyrir erlenda gjaldmiðla sem ekki er að finna í lausafjárreglum Evrópusambandsins.

Reglurnar taka til móðurfélags og samstæðu þar sem lánastofnun er móðurfélag í henni. Lánastofnunum er skylt að senda Seðlabankanum mánaðarlega skýrslu um upplýsingar sem liggja til grundvallar útreikningi á lausafjárhlutfallinu. Skýrslum um laust fé skal skilað til Seðlabankans fyrir fimmtánda dag hvers mánaðar vegna móðurfélags og samstæðu og er bankanum heimilt að beita dagsektum við vanrækslu á skýrsluskilum. Lausafjárkröfur samkvæmt reglum taka til 30 daga lausafjárhlutfalls ásamt þróun þess hlutfalls. Komi til þess að lánastofnun sé, eða fyrirsjáanlegt er að hún verði, innan næstu sex mánaða, undir lágmarki reglnanna skal hún án tafar tilkynna Seðlabankanum um það með skriflegum hætti þar sem ástæður þess eru tilgreindar með fullnægjandi hætti. Viðkomandi lánastofnun skal enn fremur leggja fram tímasetta áætlun um hvernig hún hyggst ná lágmarki lausafjárhlutfalls samkvæmt reglunum. Auk lausafjárskýrslna skal skila innstæðuyfirliti og viðbótar lausafjárskýrslum (e. AMM) til upplýsinga. Sjái Seðlabankinn ástæðu til skal auk þess veita allar þær upplýsingar sem Seðlabankinn telur nauðsynlegar til að geta betur metið lausafjárstöðu lánastofnunar eða framkvæmt álagspróf. Skýrslunum er skilað á XBRL formi.

Reglur og skýrsluskil

 

Lausafjárhlutfall Lánastofnun Lánastofnun þar sem vegið útflæði í erlendum gjaldmiðlum er undir 5 ma.kr.
Lausafjárhlutfall fyrir alla gjaldmiðla samtals 100% 100%
Lausafjárhlutfall fyrir erlenda gjaldmiðla samtals 100% Vegið innflæði í erlendum gjaldmiðlum umfram vegið útflæði í erlendum gjaldmiðlum
Lausafjárhlutfall fyrir íslenskar krónur 50% 50%

 

Stöðug fjármögnun

Reglur um fjármögnunarhlutfall í erlendum gjaldmiðlum nr. 1032/2014 tóku gildi hinn 1. desember 2014. Fjármögnunarhlutfallinu er ætlað að tryggja lágmark stöðugrar fjármögnunar í erlendum gjaldmiðlum til eins árs og takmarkar því að hve miklu leyti viðskiptabankar geta reitt sig á óstöðuga skammtímafjármögnun til þess að fjármagna langtímaútlán í erlendum gjaldmiðlum. Reglur um fjármögnunarhlutföll draga úr svokölluðu gjalddagamisræmi og að hve miklu leyti bankar reiða sig á óstöðuga skammtímafjármögnun til að fjármagna langtímaeignir sem geta verið torseljanlegar.

Tímaumbreyting milli eigna og skulda er mikilvægt framlag banka til efnahagslífsins en hún er um leið áhættusöm. Með lausafjármiðlun til bankakerfisins og sem lánveitandi til þrautavara geta seðlabankar dregið úr kerfisáhættu sem fylgir tímaumbreytingu. Geta seðlabanka til þess að veita þrautavaralán í erlendum gjaldmiðlum er hins vegar takmörkuð. Því er óæskilegt að innlendir bankar taki áhættu sem byggir á þeirri forsendu að Seðlabankinn geti lánað þeim gjaldeyri ef í harðbakkann slær. Í aðdraganda fjármálaáfallsins árið 2008 jókst tímamisvægi eigna og skulda stóru viðskiptabankanna umtalsvert. Bankarnir reiddu sig í auknum mæli á erlenda skammtímafjármögnun eins og skammtímaveðlán og söfnun erlendra innlána sem leiddi til vaxandi endurfjármögnunaráhættu í erlendum gjaldmiðlum. Reglur um stöðuga fjármögnun ættu að torvelda óæskilega þróun á borð við þá sem átti sér stað í aðdraganda fjármálaáfallsins.

Í ljósi reynslunnar telur Seðlabankinn mikilvægt að draga úr áhættu sem kann að myndast vegna óhóflegs tímamisræmis milli eigna og skulda viðskiptabanka með því að takmarka tímamisræmi í erlendum gjaldmiðlum sérstaklega. Er það sérlega brýnt í aðdraganda losunar fjármagnshafta. Fjármögnunarhlutfall sem Seðlabankinn hefur innleitt í erlendum gjaldmiðlum byggir á grunni reglna Basel-nefndarinnar um stöðuga fjármögnun (Net Stable Funding Ratio, skammstafað NSFR).

Reglur, sniðmát og leiðbeiningar

 

Stöðug fjármögnun Viðskiptabankar
Stöðug fjármögnun í erlendum gjaldmiðlum 100%