logo-for-printing

Laust fé og stöðug fjármögnun

Samkvæmt 3. mgr. 117. gr. b laga nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki, gefur Seðlabanki Íslands annars vegar út reglur um laust fé og hins vegar reglur um stöðuga fjármögnun. Í reglunum er heimilt að kveða á um lágmark og meðaltal lauss fjár og lágmark stöðugrar fjármögnunar í íslenskum krónum og erlendum gjaldmiðlum, samanber nánari skýringar hér á eftir, og í þeim má ákveða að mismunandi ákvæði gildi um einstaka flokka fjármálafyrirtækja.

Laust fé 

Reglur nr. 1520/2022, um lausafjárhlutfall lánastofnana, tóku gildi hinn 1. janúar 2023 og komu í stað eldri reglna nr. 266/2017. Reglurnar eru settar með heimild í 82. tölul. 2. mgr. og 3. mgr. 117. gr. b laga nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki. Með reglunum er innleitt gildandi evrópskt regluverk á þessu sviði, nánar tiltekið framseld reglugerð framkvæmdastjórnar (ESB) 2015/61. og breytingar sem hafa verið gerðar á henni.

Markmiðið með lausafjárreglunum er að draga úr lausafjáráhættu lánastofnana með því að stuðla að því að þær eigi ávallt laust fé til að mæta skuldbindingum við álagsaðstæður á tilteknu tímabili. Með reglugerð (ESB) 2015/61 eru þannig gerðar kröfur um að lánastofnanir hafi tiltækar auðseljanlegar hágæða lausafjáreignir, eins og þær eru nánar afmarkaðar í reglugerðinni, ekki aðeins til að geta staðið skil á skuldbindingum á gjalddaga heldur einnig mögulegu útflæði sem verður til dæmis vegna úttekta innlána, minni möguleika á fjármögnun fyrir lánastofnanir eða aukinna krafna um tryggingar eða annað sem krefst fjárútláta lánastofnunar við álagsaðstæður næstu 30 daga. Lausafjárhlutfallið er reiknað í samræmi við eftirfarandi jöfnu:

 

Lausafjárhlutfall (%) = Lausafjárforði / Nettó útflæði lausafjár næstu 30 daga

 

Með reglum nr. 1520/2022, um lausafjárhlutfall lánastofnana, er reglugerð (ESB) 2015/61 og síðari breytingar á henni, innleiddar í heild sinni með tilvísun, sbr. 4. gr. reglnanna. Auk þessa er að finna ákvæði um sérstakar kröfur um lausafjárhlutfall, sbr. 3. gr. reglnanna. Samkvæmt reglugerð (ESB) 2015/61 ber lánastofnunum skylda til að skila skýrslum og viðhalda 100% lausafjárhlutfalli í öllum gjaldmiðlum samtals auk þess sem þær skulu hafa eftirlit með hlutfalli í einstökum gjaldmiðlum þar sem heildarskuldbindingar eru jafnar eða umfram 5% af heildarskuldum lánastofnunar (e. significant currency). Samkvæmt reglunum bera lánastofnanir jafnframt almenna skyldu til að tryggja að gjaldmiðlasamsetning lausafjáreigna þeirra sé í samræmi við gjaldmiðlasamsetningu nettó útflæðis þeirra að teknu tilliti til vægis skv. reglunum. Þá er að finna heimild fyrir Seðlabankann til að krefjast þess að lánastofnanir lágmarki gjaldmiðlamisræmi með því að takmarka hlutfall nettó útflæðis lausafjár í tilteknum gjaldmiðli sem mæta má á álagstíma með lausafjáreignum í öðru gjaldmiðli. Slíkar takmarkanir gilda aðeins fyrir reikningsskilagjaldmiðil eða gjaldmiðil yfir framangreindum viðmiðunarmörkum.

Í reglum um lausafjárhlutfall lánastofnana er gerð krafa um að lánastofnanir uppfylli að lágmarki 50% lausafjárhlutfall í íslenskum krónum, sbr. 1. mgr. 3. gr. reglnanna. Einnig er gerð krafa um að lánastofnanir uppfylli að lágmarki 80% lausafjárhlutfall í evru, ef skuldbindingar í evrum nema 10% eða meira af heildarskuldbindingum viðkomandi lánastofnunar, sbr. 2. mgr. 3. gr. reglnanna.
Reglurnar taka til móðurfélags og samstæðu þar sem lánastofnun er móðurfélag í henni. Lánastofnunum er skylt að senda Seðlabankanum a.m.k. mánaðarlega skýrslu um upplýsingar sem liggja til grundvallar útreikningi á lausafjárhlutfallinu á því formi sem kveðið er á um í reglugerð framkvæmdastjórnar (ESB) 2021/451, sbr. reglur nr. 1163/2022, um gagnaskil fjármálafyrirtækja. Skýrslum um laust fé skal skilað til Seðlabankans fyrir fimmtánda dag hvers mánaðar vegna móðurfélags og samstæðu. Lausafjárkröfur taka til 30 daga lausafjárhlutfalls og skulu uppfylltar á hverjum tíma. Komi til þess að lánastofnun sé, eða fyrirsjáanlegt er að hún verði, innan næstu sex mánaða, undir lágmarkskröfum samkvæmt reglunum skal hún án tafar tilkynna Seðlabankanum um það með skriflegum hætti þar sem ástæður þess eru tilgreindar með fullnægjandi hætti. Viðkomandi lánastofnun skal enn fremur leggja fram tímasetta áætlun um hvernig hún hyggst ná lágmarki lausafjárhlutfalls samkvæmt reglunum.

Auk lausafjárskýrslna skal skila innstæðuyfirliti og viðbótar lausafjárskýrslum (e. AMM) til upplýsinga. Auk þessa skal veita allar þær upplýsingar sem Seðlabankinn telur nauðsynlegar til að geta betur metið lausafjárstöðu lánastofnunar eða framkvæmt álagspróf. Skýrslunum er skilað á XBRL-formi í gegnum gagnaskilakerfi Seðlabankans.

Reglur og skýrsluskil

 

Lausafjárhlutfall Lánastofnun
Lausafjárhlutfall fyrir alla gjaldmiðla samtals 100%
Lausafjárhlutfall fyrir evrur fyrir lánastofnanir þar sem skuldbindingar í evrum nema 10% eða meira af heildarskuldbindingum viðkomandi lánastofnunar 80%
Lausafjárhlutfall fyrir íslenskar krónur 50%

 

Stöðug fjármögnun

Reglur nr. 750/2021, um hlutfall stöðugrar fjármögnunar lánastofnana, tóku gildi hinn 28. júní 2021, og komu í stað eldri reglna nr. 1032/2014. Reglurnar eru settar með heimild í 3. mgr. 117. gr. b laga nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki. Reglur um hlutfall stöðugrar fjármögnunar byggja alfarið á ákvæðum reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2019/876 (CRR II) er lúta að kröfum um stöðuga fjármögnun (e. net stable funding ratio, NSFR).

Reglur um hlutfall stöðugrar fjármögnunar miða að því að takmarka tímamisræmi á milli eigna og skulda lánastofnana og að hve miklu leyti lánastofnanir reiða sig á óstöðuga skammtímafjármögnun til að fjármagna langtímaeignir að þessu leyti. Hlutfall stöðugrar fjármögnunar er reiknað sem hlutfall tiltækrar stöðugrar fjármögnunar (e. available stable funding) af nauðsynlegri stöðugri fjármögnun (e. required stable funding):

 

Hlutfall stöðugrar fjármögnunar (%) = Tiltæk fjármögnun / Nauðsynleg stöðug fjármögnun

 

Nauðsynleg stöðug fjármögnun eru eignir innan og utan efnahagsreiknings margfaldaðar með viðeigandi vægi og reiknast sem hærri fjárhæð eftir því sem stærra hlutfall eignasafnsins er til langs tíma eða talið illseljanlegt. Þannig hefur útlánasafnið til að mynda mismunandi vægi eftir tímalengd og tegund útlána. Því hærri sem nauðsynleg fjármögnun verður því meiri tiltæka stöðuga fjármögnun þarf sem telst t.d. vera eigið fé, skuldir með lengri eftirstöðvatíma en ár og önnur langtímafjármögnun.

Samkvæmt reglunum bera lánastofnanir skyldu til að skila skýrslum og viðhalda 100% hlutfalli stöðugrar fjármögnunar í öllum gjaldmiðlum samtals auk þess sem þær skulu hafa eftirlit með hlutfalli í einstökum gjaldmiðlum þar sem heildarskuldbindingar eru jafnar eða umfram 5% af heildarskuldum lánastofnunar (e. significant currency). Samkvæmt reglunum bera lánastofnanir jafnframt almenna skyldu til að tryggja að gjaldmiðlasamsetning fjármögnunar sé í samræmi við gjaldmiðlasamsetningu eigna þeirra að teknu tilliti til vægis skv. reglunum. Þá er að finna heimild fyrir Seðlabankann til að krefjast þess að lánastofnanir lágmarki gjaldmiðlamisræmi með því að takmarka hlutfall nauðsynlegrar stöðugrar fjármögnunar í tilteknum gjaldmiðli sem mæta má með tiltækri stöðugri fjármögnun í öðrum gjaldmiðli. Slíkar takmarkanir gilda aðeins fyrir reikningsskilagjaldmiðil eða gjaldmiðil yfir framangreindum viðmiðunarmörkum.

Reglurnar taka til móðurfélags og samstæðu þar sem lánastofnun er móðurfélag í henni. Lánastofnanir skulu skila Seðlabankanum a.m.k. ársfjórðungslega skýrslum um stöðuga fjármögnun á því formi sem kveðið er á um í reglugerð framkvæmdastjórnar (ESB) 2021/451, sbr. reglur nr. 1163/2022, um gagnaskil fjármálafyrirtækja. Komi til þess að lánastofnun sé, eða fyrirsjáanlegt er að hún verði, undir lágmarki reglnanna skal hún án tafar tilkynna Seðlabankanum um það með skriflegum hætti þar sem ástæður þess eru tilgreindar með fullnægjandi hætti. Viðkomandi lánastofnun skal enn fremur leggja fram tímasetta áætlun um hvernig hún hyggst ná lágmarki hlutfalls stöðugrar fjármögnunar samkvæmt reglunum.

Auk þess skal veita allar þær upplýsingar sem Seðlabankinn telur nauðsynlegar til að geta betur metið fjármögnunaráhættu lánastofnunar. Skýrslunum er skilað á XBRL-formi í gegnum gagnaskilakerfi Seðlabankans.


Reglur, sniðmát og leiðbeiningar

 

Stöðug fjármögnun Lánastofnanir
Hlutfall stöðugrar fjármögnunar í öllum gjaldmiðlum samtals 100%