logo-for-printing

Takmarkanir á fasteignalánum

Ef ójafnvægi á fasteignamarkaði ógnar fjármálastöðugleika má beita hámarki á veðsetningarhlutfall og takmörkunum á lánsfjárhæð eða greiðslubyrði miðað við tekjur, til að draga úr líkum á áföllum og milda áhrif af hugsanlegu áfalli. Markmið með beitingu slíkra þjóðhagsvarúðartækja geta verið tvíþætt: Í fyrsta lagi að draga úr óhóflegum útlánavexti og milda þannig uppsöfnun áhættu í uppgangi fjármálasveiflunnar, en lægri útlánavöxtur getur haft óbein áhrif á fasteignaverð til lækkunar. Í öðru lagi að varðveita eða treysta viðnámsþrótt heimila gagnvart verðlækkun á fasteignamarkaði í framtíðinni og draga um leið úr væntum útlánatöpum lánveitenda.
Í VII. kafla laga um fasteignalán til neytenda nr. 118/2016 er Seðlabanka Íslands veitt heimild að undangengnu samþykki fjármálastöðugleikanefndar til þess að setja reglur um hámarks veðsetningarhlutföll fasteignalána til neytenda. Í sama kafla er einnig veitt sambærileg heimild til þess að setja reglur sem takmarka fasteignalán til neytenda í hlutfalli við tekjur lántaka.

 

Virkar takmarkanir á fasteignalánum til neytenda

Settar hafa verið reglur sem hámarka leyfilegt veðsetningarhlutfall nýrra fasteignalána í samræmi við 1. mgr. 25. gr. laga um fasteignalán til neytenda nr. 118/2016. Í samræmi við 2. mgr. 25. gr. laga nr. 118/2016 veita þær reglur aukið svigrúm vegna lána til fjármögnunar kaupa á fyrstu fasteign. Reglur um hámark veðsetningarhlutfalls fasteignalána til neytenda verða endurskoðaðar reglulega með hliðsjón af þróun á íbúða- og fasteignalánamarkaði.

 

Takmarkanir Almennt Fyrstu kaupendur
Hámark veðsetningarhlutfalls 80% af markaðsverði fasteignar* 90% af markaðsverði fasteignar*

* Virði fasteignar samkvæmt kaupsamningi eða samþykktu kauptilboði. Liggi kaupsamningur eða samþykkt kauptilboð ekki fyrir skal notast við fasteignamat eða brunabótamat Þjóðskrár Íslands eða verðmat löggilts fasteignasala, í samræmi við útlánareglur lánveitanda.

 

Reglum um hámark veðsetningarhlutfalls fasteignalána var breytt 30. júní 2021

Reglur um hámarks veðsetningarhlutfalls fasteignalána til neytenda

Yfirlýsing fjármálastöðugleikanefndar 30. júní 2021

 

Reglur um hámark veðsetningarhlutfalls fasteignalána voru fyrst settar 18. júlí 2017

Reglur um hámark veðsetningarhlutfalls fasteignalána til neytenda (ekki í gildi)
Greinargerð með reglum um hámark veðsetningarhlutfalls fasteignalána til neytenda
Leiðbeiningar Fjármálaeftirlitsins um framkvæmd reglna um hámark veðsetningarhlutfalls fasteignalána til neytenda
Álit fjármálastöðugleikaráðs