logo-for-printing

MREL-kröfur

Með hliðsjón af skilaáætlun fyrirtækis, þ.m.t. þeirri skilastefnu sem verður fyrir valinu, tekur skilavaldið ákvörðun um MREL-kröfur hvers fyrirtækis. MREL-kröfur fela í sér að fjármálafyrirtæki hafi yfir að ráða fjármagni sem tryggja að hægt verði að endurfjármagna fjármálafyrirtækið eða niðurfæra skuldir eða skuldbindingar eða umbreyta þeim í eigið fé, ef til falls kemur. Þeim fjármálafyrirtækjum sem ekki uppfylla skilyrði skilameðferðar fara í hefðbundna slitameðferð í samræmi við lög um fjármálafyrirtæki og verður einungs gert að uppfylla almennar eiginfjárkröfur fjármálafyrirtækja.

MREL-kröfum er þannig ætlað að tryggja að hægt verði að beita eftirgjöf, þannig að í stað þess að fallin fjármálafyrirtæki verði endurfjármögnuð með ríkisaðstoð (e. bail-out) verði fjármagni lánardrottna þeirra varið til þess (e. bail-in). Krafan hefur einnig annað markmið, sem er að sjá til þess að tapþol (e. loss absorbency) fjármálafyrirtækja sé fullnægjandi.

Ekkert einhlítt svar er við því hve samanlögð fjárhæð, sem af MREL-kröfum leiðir, verður há fyrir fjármálafyrirtæki hér á landi. Forskriftir að þeim reiknireglum (e. calibration) sem gilda um MREL-kröfur eru nokkrar (nefna má í því samhengi bæði þær leiðbeiningar og aðferðafræði sem Skilavald Evrópusambandsins (e. Single Resolution Board) hefur mótað, en einnig tæknilega staðla Evrópska bankaeftirlitsins um viðmið og aðferðafræði vegna MREL sem gefnir hafa verið út sem reglugerð (ESB) 2016/1450) og útfærslur aðildarríkja innan EES á því hverjar MREL-kröfur eru í hverju ríki fyrir sig hafa verið ólíkar. Ástæðan er m.a. sú að ákveðið svigrúm er byggt inn í löggjöfina, sem helgast af því að krafan á að taka mið af starfsemi hvers fjármálafyrirtækis sem í hlut á og þeim úrræðum sem ákveðið verður að grípa til samkvæmt skilaáætlun. Umræddar hæfar skuldbindingar eru einungis hluti af skuldbindingum fjármálafyrirtækis, þ.e. þær sem uppfylla tvö meginskilyrði: i) að til þeirra teljist einungis fjármagnsgerningar sem ekki falla undir eiginfjárliði eiginfjárgrunns samkvæmt lögum um fjármálafyrirtæki og ii) að þær séu ekki undanþegnar eftirgjöf eða að skilavaldið hafi ekki sérstaklega undanþegið þær frá eftirgjöf í samræmi við ákvæði þar að lútandi í lögum um skilameðferð.

Til viðbótar þessum meginskilyrðum þurfa hæfar skuldbindingar að teljast fullgildar (e. qualified) til að uppfylla öll skilyrði að geta talist til MREL-krafna. Í því felst að þær þurfa að vera útgefnar og innborgaðar að fullu og mega ekki vera skuldbindingar gagnvart fyrirtækinu sjálfu eða tryggðar af eða með ábyrgð fyrirtækisins. Þær mega ekki heldur vera fjármagnaðar af fyrirtækinu beint eða óbeint. Eftirstöðvatími hæfrar skuldbindingar skal að lágmarki vera eitt ár. Þá mega skuldbindingarnar ekki koma til vegna afleiðna, tryggðra innstæðna eða tryggingarhæfra innstæðna örfélaga, lítilla eða meðalstórra félaga.