logo-for-printing

Fjármagnshöft

Fjármagnshöft voru innleidd á Íslandi haustið 2008 í kjölfar fjármálaáfalls sem Ísland varð fyrir. Höftin fólust í því að gripið var til ákveðinna hafta á útflæði gjaldeyris frá landinu. Þessum fjármagnshöftum var að öllu leyti aflétt með gildistöku laga nr. 70/2021, um gjaldeyrismál og eru nú ekki í gildi nokkrar takmarkanir á gjaldeyrisviðskiptum, greiðslum á milli landa eða fjármagnshreyfingum á milli landa.


Fjármagnshöft á Íslandi 2008-2021

Fjármagnshöft voru innleidd í nóvember 2008 í kjölfar þess að Ísland varð fyrir barðinu á óvenju umfangsmikilli bankakreppu í byrjun október 2008 . Til þess að bregðast við þessum neyðaraðstæðum greip Seðlabankinn hinn 10. október til þess sem kallað var „tímabundin temprun á útflæði gjaldeyris“ með tilmælum til innlánsstofnana. Fljótt var ljóst að slíkt dugði ekki til þess að bregðast við þeim aðstæðum sem höfðu skapast og þannig fór að hinn 28. nóvember 2008 veitti Alþingi Seðlabanka Íslands auknar heimildir til þess að takmarka gjaldeyrisviðskipti og fjármagnshreyfingar á milli landa með bráðabirgðaákvæði í lögum um gjaldeyrismál nr. 87/1992. Sama dag setti Seðlabankinn reglur nr. 1082/2008, um gjaldeyrismál á grundvelli þessarar heimildar sem takmörkuðu mjög fjármagnshreyfingar og gjaldeyrisviðskipti sem ekki tengdust viðskiptum með vöru og þjónustu. Með því má segja að komin hafi verið á fjármagnshöft á Íslandi. Þessi fjármagnshöft tóku nokkrum breytingum á árunum á eftir, fyrst um sinn með endurskoðuðum reglum Seðlabankans en síðar með breytingum á lögum um gjaldeyrismál. Allt frá því að fjármagnshöftum var komið á leituðust stjórnvöld við að skapa þær aðstæður að hægt yrði að aflétta þeim. Fjármagnshöftin voru svo afnumin í skrefum á árunum 2015-2021: áætlun stjórnvalda um losun fjármagnshafta í skrefum var kynnt sumarið 2015, nauðasamningar fallinna fjármálafyrirtækja voru samþykktir í upphafi árs 2016, og losun fjármagnshafta á heimili og fyrirtæki átti sér stað í lok árs 2016 og á fyrri hluta árs 2017, en aflandskrónueigendur þurftu að bíða fram að upphafi árs 2019. Þegar ný lög um gjaldeyrismál tóku gildi sumarið 2021 voru svo síðustu leifar fjármagnshaftanna endanlega úr sögunni.

 

Alþjóðlegar skuldbindingar

Kveðið er á um meginregluna um frjálst fjármagnsflæði í 40. og 41. gr. EES-samningsins. Í 43. gr. EES-samningsins er að finna heimildir til undanþágu frá frjálsum flutningum fjármagns eins og þeim er lýst í 40. gr. Nánar tiltekið er í 2. mgr. 43. gr. EES-samningsins kveðið á um að í tilvikum þar sem fjármagnsflutningar leiða til röskunar á starfsemi fjármagnsmarkaðar í EFTA-ríki geti hlutaðeigandi ríki gripið til verndarráðstafana á viðkomandi sviði. Enn fremur segir í 4. mgr. sömu greinar að ef EFTA-ríki eigi í örðugleikum með greiðslujöfnuð eða alvarleg hætta sé á að örðugleikar skapist, hvort sem það stafar af heildarójafnvægi í greiðslujöfnuði eða því hvaða gjaldmiðli það hefur yfir að ráða, geti hlutaðeigandi ríki gripið til verndarráðstafana, einkum ef örðugleikarnir eru til þess fallnir að stofna framkvæmd EES-samningsins í hættu.

Þær takmarkanir á fjármagnsflutningum sem gripið var til hér á landi voru studdar með vísan til þessara ákvæða og voru þær taldar fullnægja skilyrðum ákvæðisins, sbr. ráðgefandi álit EFTA-dómstólsins vegna máls E-3/11 frá 14. desember 2011.


Eldri lög og reglur tengd fjármagnshöftum

Hér er að finna ýmsar upplýsingar um þær breytingar sem gerðar voru á fjármagnshöftum á tímabilinu 2008-2021, svo sem eldri reglur, lagafrumvörp og breytingalög.

Sýna allt