logo-for-printing

Fjármagnshöft

Innleiðing fjármagnshafta

Fjármagnshöft voru innleidd í nóvember 2008 í kjölfar þess að Ísland varð fyrir barðinu á óvenju umfangsmikilli bankakreppu í október 2008. Minnkandi tiltrú á íslenskum fjáreignum sem fylgdi í kjölfarið skapaði hættu á stórfelldu útstreymi fjármagns með afar háskalegum afleiðingum fyrir gengi krónunnar sem þegar hafði lækkað. Mikið útstreymi fjármagns (strax og í kjölfarið) hefði getað valdið enn stórfelldari gengislækkun krónunnar og meiri verðbólgu en raun varð á. Þar sem efnahagsreikningar heimila og fyrirtækja einkenndust bæði af mikilli skuldsetningu og háu hlutfalli lána í erlendum gjaldmiðlum og verðtryggðum lánum hefði þetta getað hrundið af stað mikilli hrinu vanskila með óhagstæðum afleiðingum fyrir þjóðarbúskapinn. Vegna þessa greip Seðlabanki Íslands til aðgerða hinn 10. október 2008 sem miðuðu að því að hefta tímabundið útflæði gjaldeyris. Í ljósi hinnar miklu áhættu fyrir þjóðarbúskapinn var talið að þrátt fyrir að fjármagnshöft væru óheppileg væru þau óhjákvæmilegur þáttur aðgerða er miðuðu að því að stuðla að stöðugleika krónunnar þegar millibankamarkaður með erlendan gjaldmiðil var opnaður á ný í byrjun desember 2008.

 

Grundvöllur fjármagnshafta

Kveðið er á um meginregluna um frjálst fjármagnsflæði í 40. og 41. gr. EES-samningsins. Takmarkanir á fjármagnsflutningum sem gripið var til hér á landi hafa verið studdar með vísan til ákvæðis 43. gr. EES-samningsins sem veitir samningsaðilum heimild til slíks reynist það nauðsynlegt til að bregðast við ýmiss konar erfiðleikum eða röskun á fjármagnsmarkaði viðkomandi aðildarríkis.

Í 43. gr. EES-samningsins er að finna heimildir til undanþágu frá frjálsum flutningum fjármagns eins og þeim er lýst í 40. gr. EES-samningsins. Í 2. mgr. 43. gr. EES-samningsins er kveðið á um að í tilvikum þar sem fjármagnsflutningar leiði til röskunar á starfsemi fjármagnsmarkaðar í EFTA-ríki geti hlutaðeigandi ríki gripið til verndarráðstafana á viðkomandi sviði. Enn fremur segir í 4. mgr. sömu greinar að ef EFTA-ríki eigi í örðugleikum með greiðslujöfnuð eða alvarleg hætta sé á að örðugleikar skapist, hvort sem það stafar af heildarójafnvægi í greiðslujöfnuði eða því hvaða gjaldmiðli það hefur yfir að ráða, geti hlutaðeigandi ríki gripið til verndarráðstafana, einkum ef örðugleikarnir eru til þess fallnir að stofna framkvæmd EES-samningsins í hættu.

Með dómi EFTA-dómstólsins í máli E-3/11, sem kveðinn var upp hinn 14. desember 2011, veitti EFTA-dómstóllinn ráðgefandi álit um spurningar sem honum bárust frá Héraðsdómi Reykjavíkur um túlkun 43. gr. EES-samningsins, þar sem heimild er veitt til að víkja frá reglum um frjálst flæði fjármagns. Var niðurstaðan sú að efnisleg skilyrði fyrir því að grípa til verndarráðstafana samkvæmt 2. og 4. mgr. 43. gr. EES-samningsins væru uppfyllt og þær íslenskar reglur um takmörkun fjármagnsflutninga sem áttu undir í því máli væru í samræmi við EES-samninginn.

 

Skýrslur og áætlanir um losun og afnám fjármagnshafta: 

Hinn 23. október 2019 birti fjármála- og efnahagsráðherra greinargerð um framgang áætlunar um losun fjármagnshafta á heimasíðu ráðuneytisins. Hér má nálgast þessa skýrslu fjármála- og efnahagsráðherra. 

Fyrri greinargerðir má finna hér.

 

Hvað er takmarkað

Með reglum nr. 200/2017, um gjaldeyrismál, sem tóku gildi 14. mars 2017, voru takmarkanir á fjármagnshreyfingum á milli landa í innlendum og erlendum gjaldeyri og gjaldeyrisviðskiptum að mestu leyti felldar niður. Frá þeim tíma hafa heimili og fyrirtæki því almennt ekki verið bundin af takmörkunum sem lög um gjaldeyrismál kveða á um. Þessi síða hefur að geyma umfjöllun um þær takmarkanir sem eru til staðar.

 

Sýna allt

  • Fjármagnshreyfingar á milli landa í innlendum gjaldeyri í ákveðnu tilviki

  • Afleiðuviðskipti í öðrum tilgangi en til áhættuvarna

  • Gjaldeyrisviðskipti án milligöngu fjármálafyrirtækis

Undanþágur

Gjaldeyriseftirlitið varð að sérstöku sviði innan Seðlabankans á árinu 2009. Á árinu 2012 var gjaldeyriseftirlitinu skipt í þrjár deildir, undanþágudeild, eftirlitsdeild og rannsóknardeild. Meginverkefni undanþágudeildar voru afgreiðsla undanþága frá lögum nr. 87/1992, um gjaldeyrismál, og fyrirspurna sem bárust í tölvupósti á netfangið gjaldeyrismal@sedlabanki.is eða í gegnum síma 569-9600. Í ljósi fækkunar innsendra beiðna um undanþágu í kjölfar losunar fjármagnshafta að mestu leyti á árinu 2017 var undanþágudeild gjaldeyriseftirlitsins lögð niður í ágúst 2018.

Frá árinu 2010 til ársins 2016 bárust Seðlabankanum yfirleitt um 800 til 1000 beiðnir um undanþágu frá lögum nr. 87/1992, um gjaldeyrismál, á ári og skiptist hlutfallið nokkuð jafnt á milli einstaklinga og lögaðila. Þá var afgreiðsluhlutfallið um 75% til 100% á ári miðað við innsend erindi og voru yfirleitt rúmlega 300 mál í vinnslu hverju sinni á þeim árum. Eins og að framan greinir fækkaði innsendum erindum verulega með þeirri losun fjármagnshafta sem átti sér stað með breytingum á lögum um gjaldeyrismál sem tóku gildi annars vegar 21. október 2016 og 1. janúar 2017 hins vegar og nú síðast með gildistöku reglna nr. 200/2017, um gjaldeyrismál, hinn 14. mars 2017. 

 

Sýna allt

  • Umsóknareyðublað og leiðbeiningar

  • Tölfræði undanþága

  • Afgreiðsluferill undanþágubeiðna