Seðlabanki Íslands

Seðlabanki Íslands er sjálfstæð stofnun í eigu ríkisins. Lög um bankann, nr. 92/2019, kveða svo á að hann skuli stuðla að stöðugu verðlagi, fjármálastöðugleika og traustri og öruggri fjármálastarfsemi. Seðlabankinn heyrir undir forsætisráðherra, en fjármála- og efnahagsráðuneyti fer jafnframt með málefni fjármálastöðugleika og fjármálamarkaða. Auk þess sem að ofan greinir skal bankinn sinna viðfangsefnum sem samrýmast hlutverki hans sem seðlabanka, svo sem að varðveita gjaldeyrisforða og stuðla að virku og öruggu fjármálakerfi, þ.m.t. greiðslumiðlun í landinu og við útlönd.

Í lögunum um Seðlabankann segir jafnframt að hann skuli stuðla að framgangi stefnu ríkisstjórnarinnar í efnahagsmálum, enda telji hann það ekki ganga gegn markmiðum bankans.

Stöðugt verðlag

Í yfirlýsingu ríkisstjórnar Íslands og Seðlabankans frá 27. mars 2001 segir að Seðlabankinn muni stefna að því að árleg verðbólga, reiknuð sem hækkun vísitölu neysluverðs á tólf mánuðum, verði að jafnaði sem næst 2½%. Lögin um Seðlabankann veita honum fullt sjálfstæði til að beita stjórntækjum bankans í peningamálum til þess að ná markmiðinu um stöðugt verðlag.
Stjórntækin eru vextir bankans, viðskipti við lánastofnanir önnur en þrautavaralán, bindiskylda, viðskipti á gjaldeyrismarkaði og viðskipti með verðbréf. Fimm manna peningastefnunefnd tekur stefnumarkandi ákvarðanir um beitingu stjórntækja bankans í peningamálum.

Nánar

Fjármálastöðugleiki

Í fjármálastöðugleika felst að fjármálakerfið geti staðist áföll í efnahagslífi og á fjármálamörkuðum, miðlað lánsfé og greiðslum og dreift áhættu með viðhlítandi hætti. Fjármálastöðugleikanefnd Seðlabanka Íslands tekur ákvarðanir um beitingu stjórntækja bankans varðandi fjármálastöðugleika. Nefndinni er falið að leggja mat á ástand og horfur í fjármálakerfinu, kerfisáhættu og fjármálastöðugleika, skilgreina nauðsynlegar aðgerðir til að tryggja fjármálastöðugleika og að ákveða hvaða aðilar, innviðir eða markaðir teljist kerfislega mikilvægir. Fjármálastöðugleikanefnd getur beint ábendingum til viðeigandi stjórnvalda þegar tilefni er til um nauðsynlegar aðgerðir til að efla og varðveita fjármálastöðugleika.

Nánar

Traust og örugg fjármálastarfsemi

Seðlabankinn fer með þau verkefni sem fjármálaeftirlitinu eru falin í lögum og stjórnvaldsfyrirmælum og er fjármálaeftirlitið hluti af Seðlabankanum. Bankinn skal fylgjast með að starfsemi eftirlitsskyldra aðila sé í samræmi við lög og stjórnvaldsfyrirmæli og að hún sé að öðru leyti í samræmi við heilbrigða og eðlilega viðskiptahætti, sbr. lög um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi, sbr. 4. mgr. 2. gr. laga nr. 92/2019 um Seðlabanka Íslands.
Ákvarðanir sem faldar eru fjármálaeftirlitinu í lögum eða stjórnvaldsfyrirmælum eru teknar af Seðlabanka Íslands eða fjármálaeftirlitsnefnd, skv. 2. mgr. 3. gr. laga nr. 92/2019.

Nánar

Markaðsviðskipti

Seðlabanki Íslands hefur umsjón með innlendum peninga- og gjaldeyrismarkaði og annast viðskipti við innlendar fjármálastofnanir. Bankinn sér um vörslu og ávöxtun gjaldeyrisforða ásamt umsjón með lánamálum ríkissjóðs, Ríkisábyrgðasjóði og endurlánum ríkissjóðs. Bankinn sér einnig um þau samskipti við erlendar fjármálastofnanir sem snúa að viðskiptum Seðlabankans og ríkissjóðs. Þá annast bankinn rekstur millibankagreiðslukerfis og hefur umsjón með innlendum og erlendum greiðslum ríkissjóðs og ríkisfyrirtækja.

Nánar