Seðlabanki Íslands

Seðlabanki Íslands er sjálfstæð stofnun í eigu ríkisins sem heyrir undir forsætisráðherra. Markmið bankans er að stuðla að stöðugu verðlagi, fjármálastöðugleika og traustri og öruggri fjármálastarfsemi. Þá skal bankinn sinna viðfangsefnum sem samrýmast hlutverki hans sem seðlabanka, svo sem að varðveita gjaldeyrisforða og stuðla að virku og öruggu fjármálakerfi, þ.m.t. greiðslumiðlun í landinu og við útlönd.

Seðlabankinn fer frá og með 1. janúar 2020 með þau verkefni sem Fjármálaeftirlitinu eru falin í lögum og stjórnvaldsfyrirmælum og er fjármálaeftirlitið hluti af Seðlabankanum. Bankinn skal fylgjast með að starfsemi eftirlitsskyldra aðila sé í samræmi við lög og stjórnvaldsfyrirmæli og að öðru leyti í samræmi við heilbrigða og eðlilega viðskiptahætti.

Seðlabankanum er heimilt með samþykki ráðherra að lýsa yfir tölulegu markmiði um verðbólgu og er yfirlýst markmið frá árinu 2001 2½% verðbólga yfir tólf mánaða tímabil. Bankanum er heimilt með samþykki ráðherra að lýsa yfir markmiði um gengi íslensku krónunnar gagnvart erlendum gjaldmiðlum. Seðlabankinn skal stuðla að framgangi stefnu ríkisstjórnarinnar í efnahagsmálum, enda telji hann það ekki ganga gegn markmiðum bankans.


Peningastefnunefnd

Ákvarðanir um beitingu stjórntækja bankans í peningamálum eru teknar af pen­inga­stefnu­nefnd. Ákvarðanir peningastefnunefndar skulu grundvallast á markmiði um stöðugt verð­lag og byggjast á vönduðu mati á ástandi og horfum í efnahagsmálum.

Nánar

Fjármálastöðugleikanefnd

Ákvarðanir um beitingu stjórntækja Seðlabanka Íslands varðandi fjármálastöðugleika eru teknar af fjármálastöðugleikanefnd. Ákvarðanir fjármálastöðugleikanefndar skulu grund­vallast á lögum og byggjast á vönduðu mati á ástandi og horfum í fjármálakerfinu.

Nánar

Fjármálaeftirlitsnefnd

Fjármálaeftirlitsnefnd skal taka ákvarðanir sem faldar eru Fjármálaeftirlitinu samkvæmt lögum og stjórnvaldsfyrirmælum. Nefndin getur framselt til varaseðlabankastjóra fjármálaeftirlits vald sitt til töku ákvarðana sem ekki teljast meiri háttar.

Nánar

Alþjóðlegt samstarf

Seðlabankinn á margvíslegt samstarf við erlendar fjármálastofnanir, svo sem aðra seðlabanka, Efnahags- og framfarastofnunina (OECD) og enn fremur er Seðlabankinn hluthafi í Alþjóðagreiðslubankanum. Seðlabankinn fer með fjárhagsleg og fagleg tengsl við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn (AGS) fyrir hönd íslenska ríkisins.

Nánar