Meginvextir SÍ

Seðlabankinn framkvæmir peningastefnuna einkum með því að hafa áhrif á vexti á peningamarkaði, fyrst og fremst í gegnum ákvörðun vaxta í viðskiptum sínum við lánastofnanir, sem síðan hafa áhrif á aðra markaðsvexti. Meginvextir ( stundum kallaðir stýrivextir) Seðlabankans eru þeir vextir í þessum viðskiptum við lánastofnanir sem ráða mestu um framvindu skammtímavaxta á markaði og þar með aðhaldsstigi peningastefnunnar. Þessir vextir eru nú vextir á sjö daga bundnum innlánum lánastofnana í Seðlabankanum.

 

Vextir Seðlabankans

Breyttar aðstæður í kjölfar fjármálaáfallsins

Það getur verið breytilegt frá einum tíma til annars hvaða vextir Seðlabankans hafa mest áhrif á aðra skammtímavexti og teljast þar með meginvextir hans. Fyrir fjármálakreppuna haustið 2008 voru meginvextir bankans vextir á lánum Seðlabankans gegn veði til lánastofnana, þ.e. svokölluð veðlán. Eftir fjármálakreppuna hefur eftirspurn lánastofnana eftir fyrirgreiðslu frá Seðlabankanum hins vegar verið takmörkuð og lánastofnanir lagt þeim mun meira inn á reikninga í bankanum. Því hafa vextir á innlánsformum bankans verið áhrifameiri um vaxtaþróun á peningamarkaði frá árinu 2009. 

 

Yfirlit yfir meginvexti Seðlabanka Íslands

Tímabil:

Meginvextir:

Fram til apríl 2009

Vextir á lánum gegn veði

Apríl 2009 til september 2009

Vextir á viðskiptareikningum

Október 2009 til 21. maí 2014

Einfalt meðaltal vaxta á viðskiptareikningum og hámarksvaxta á innstæðubréfum með 28 daga binditíma

Frá 21. maí 2014

Vextir á 7 daga bundnum innlánum

 

Ennfremur má nálgast skýringar á fleiri hugtökum hér.