Jafnlaunastefna
Tilgangur og markmið
Það er stefna Seðlabankans að allt starfsfólk njóti jafnra launa og sömu kjara og réttinda fyrir sömu eða jafnverðmæt störf þannig að enginn kynbundinn launamunur sé til staðar hjá bankanum. Stefnan tekur til alls starfsfólks Seðlabanka Íslands og kveður á um markmið og aðgerðir til að tryggja starfsfólki bankans þau réttindi sem kveðið er á um í lögum nr. 150/2020 um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna og laga nr. 151/2020 um stjórnsýslu jafnréttismála.
Laun starfsfólks Seðlabankans skulu vera í samræmi við lög og kjarasamninga og skal launasetning taka mið af eðli, ábyrgð og umfangi þess starfs sem starfsmaðurinn gegnir auk þess sem tekið er mið af þeirri þekkingu, færni og reynslu sem starfsmaðurinn býr yfir.
Markmið bankans er að vera eftirsóttur vinnustaður þar sem konur, karlar og fólk með hlutlausa skráningu kyns hafi jöfn tækifæri í starfi.
Megináherslur
Seðlabankinn leggur áherslu á:
- Að bjóða starfsmönnum sínum samkeppnishæf laun og starfskjör.
- Að launasetning og launabreytingar sé unnar í samræmi við kröfur íslenska jafnlaunastaðalsins.
- Að allar ákvarðanir um laun og önnur starfskjör byggi á málefnalegum sjónarmiðum og fylgi þeirri meginreglu um að konum, körlum og fólki með hlutlausa skráningu kyns skuli greidd sömu laun fyrir sömu eða jafnverðmæt störf.
- Stöðugar umbætur, eftirlit við framkvæmd launaákvarðana og rýni jafnlaunamarkmiða til samræmis við kröfur jafnlaunastaðalsins.
Framkvæmd
Til að ná markmiðum sínum starfar bankinn samkvæmt skjalfestu og vottuðu jafnlaunakerfi sem byggist á jafnlaunastaðlinum ÍST 85. Til að tryggja stöðugar umbætur á jafnlaunakerfinu og auka áreiðanleika launaákvarðana skal;
- kynna jafnlaunastefnuna, jafnlaunamarkmið og niðurstöður launagreiningar fyrir starfsfólki
- fá óháðan aðila til að framkvæma ytri úttekt á jafnlaunakerfinu
- framkvæma árlega innri úttekt á launakerfinu og framkvæma rýni stjórnenda
- fá óháðan aðila til að framkvæma árlega launagreiningu
- að vinna úrbótaáætlun á grundvelli úttekta með það að marki að eyða kynbundnum launamun sé hann til staðar
- að fylgja reglum og kjarasamningum sem í gildi eru á hverjum tíma og staðfesta hlítni við lög
- að jafnlaunastefnan sé aðgengileg á innri og ytri vef bankans
Mannauðsstjóri ber ábyrgð á innleiðingu stefnunnar, framkvæmd hennar ásamt því að sjá til þess að stefnunni sé viðhaldið og að hún sé endurskoðuð með reglubundnum hætti.