
Fjármálastöðugleikanefnd
Ákvarðanir um beitingu stjórntækja Seðlabanka Íslands varðandi fjármálastöðugleika, eru teknar af fjármálastöðugleikanefnd samkvæmt lögum nr. 92/2019, um Seðlabanka Íslands, sem samþykkt voru í júlí 2019. Ákvarðanir fjármálastöðugleikanefndar skulu byggjast á vönduðu mati á ástandi og horfum í fjármálakerfinu.
Í fjármálastöðugleikanefnd sitja Ásgeir Jónsson formaður, Gunnar Jakobsson staðgengill formanns, Rannveig Sigurðardóttir, Björk Sigurgísladóttir, Axel Hall, Bryndís Ásbjarnardóttir og Guðmundur Kristján Tómasson. Ráðuneytisstjóri, eða tilnefndur embættismaður ráðuneytis sem fer með málefni fjármálastöðugleika, skal eiga sæti á fundum nefndarinnar með málfrelsi og tillögurétt en án atkvæðisréttar. Samsetning fjármálastöðugleikanefndar skal vera þannig að nefndin búi sameiginlega yfir fullnægjandi þekkingu, hæfni og reynslu til að vinna þau verkefni sem nefndinni eru falin. Ráðherra getur aðeins skipað sama mann í fjármálastöðugleikanefnd tvisvar sinnum. Seðlabankastjóri er formaður fjármálastöðugleikanefndar og er varaseðlabankastjóri fjármálastöðugleika staðgengill hans.
Verkefni fjármálastöðugleikanefndar
Verkefni fjármálastöðugleikanefndar eru að:
- leggja mat á ástand og horfur í fjármálakerfinu, kerfisáhættu og fjármálastöðugleika,
- fjalla um og skilgreina þær aðgerðir sem taldar eru nauðsynlegar á hverjum tíma til að hafa áhrif á fjármálakerfið, í þeim tilgangi að efla og varðveita fjármálastöðugleika, og beina í því skyni ábendingum til viðeigandi stjórnvalda þegar tilefni er til,
- samþykkja stjórnvaldsfyrirmæli og taka þær ákvarðanir sem nefndinni er falið að taka með lögum,
- ákveða hvaða eftirlitsskyldir aðilar, innviðir og markaðir skuli teljast kerfislega mikilvægir og þess eðlis að starfsemi þeirra geti haft áhrif á fjármálastöðugleika.
Fundir fjármálastöðugleikanefndar
Fjármálastöðugleikanefnd er ályktunarhæf ef fimm af sjö nefndarmönnum sitja fund nefndarinnar. Ákvarðanir fjármálastöðugleikanefndar skulu teknar með einföldum meiri hluta, en falli atkvæði jöfn ræður atkvæði formanns.
Fjármálastöðugleikanefnd skal halda fundi að minnsta kosti fjórum sinnum á ári. Auk þess getur fjármálastöðugleikanefnd haldið fund ef formaður ákveður eða þrír nefndarmenn krefjast þess. Fjármálastöðugleikanefnd setur sér starfsreglur, m.a. um undirbúning, rökstuðning og kynningu ákvarðana sinna. Fjármálastöðugleikanefnd skal halda fundargerðir. Opinberlega skal birta ákvarðanir fjármálastöðugleikanefndar um beitingu stjórntækja á sviði fjármálastöðugleika og gera grein fyrir forsendum þeirra og mati á ástandi, svo og birta fundargerðir þess efnis, nema ef ætla má að opinber birting geti haft neikvæð áhrif á fjármálastöðugleika. Fundargerðir og gögn sem eru unnin fyrir fjármálastöðugleikanefnd eða eru þar til meðferðar eru undanþegin upplýsingarétti samkvæmt upplýsingalögum og stjórnsýslulögum.
Fjármálastöðugleikanefnd skal skila Alþingi skýrslu um störf sín einu sinni á ári. Skýrsluna skal ræða í þeirri þingnefnd sem þingforseti ákveður.
Starfsreglur fjármálastöðugleikanefndar
Fundargerðir og yfirlýsingar fjármálastöðugleikanefndar
Dagsetning funda fjármálastöðugleikanefndar |
Yfirlýsingar | Dagsetning birtingar fundargerða nefndarinnar |
---|---|---|
10. mars 2020 | 1.júlí 2020 | |
16. mars 2020 | 18. mars | 1. júlí 2020 |
31. mars 2020 | 8. apríl | 1. júlí 2020 |
22. - 23. júní 2020 | 1. júlí | 21. júlí 2020 |
21. - 22. september 2020 | 23. september | 27. október 2020 |
14. - 15. desember 2020 | 16. desember | 29. mars 2021 |
12. - 13. apríl 2021 | 14. apríl | 31. maí 2021 |
28. - 29. júní 2021 | 30. júní | 27. júlí 2021 |
27. - 28. september 2021 | 29. september | 29. október 2021 |
5. nóvember 2021 | 29. nóvember 2021 | |
6. - 7. desember 2021 | 8. desember | 14. janúar 2022 |
14. - 15. mars 2022 | 16. mars | 8. apríl 2022 |
13. - 14. júní 2022 | 15. júní | 1. júlí 2022 |
26. - 27. september 2022 | 28. september | 26. október 2022 |
5. - 6. desember 2022 | 7. desember | 4. janúar 2023 |
13. - 14. mars 2023 | 15. mars | 12. apríl 2023 |