logo-for-printing

01. júlí 2020

Yfirlýsing fjármálastöðugleikanefndar 1. júlí 2020

Fjármálastöðugleikanefnd. Efri röð frá vinstri: Tómas Brynjólfsson, Bryndís Ásbjarnardóttir, Guðmundur Kristján Tómasson og Axel Hall. Neðri röð frá vinstri: Rannveig Sigurðardóttir, Ásgeir Jónsson, Gunnar Jakobsson og Unnur Gunnarsdóttir.

Miðað við nýjustu hagvaxtarspár er gert ráð fyrir 8% samdrætti landsframleiðslu í ár. Aðgerðir Seðlabanka Íslands og stjórnvalda vegna COVID-19-farsóttarinnar hafa aukið svigrúm fjármálafyrirtækja til að styðja við heimili og fyrirtæki á þessum krefjandi tímum.

Eiginfjár- og lausafjárstaða stóru bankanna þriggja er sterk. Þó að óvissa ríki um raunvirði útlánasafns fjármálafyrirtækja við núverandi aðstæður bendir sviðsmyndagreining Seðlabankans til þess að eiginfjárstaða þeirra standist álagið vel. Mikilvægt er að hraða endurskipulagningu útlána eins og kostur er. Greiðsluhlé ein og sér munu þó ekki leysa vanda þeirra lántakenda sem verst eru staddir.

Fjármálastöðugleikanefnd skal ársfjórðungslega ákveða gildi á sveiflujöfnunarauka á fjármálafyrirtæki. Í samræmi við yfirlýsingu nefndarinnar frá 18. mars sl. hefur nefndin ákveðið að halda aukanum óbreyttum næstu 9 mánuði.

Hætta er á að slakara aðhald stjórntækja Seðlabankans geti hækkað eignaverð og aukið líkur á að kerfisáhætta myndist í efnahagslífinu í heild eða í afmörkuðum geirum. Nefndin ítrekar að hún er reiðubúin að beita þeim tækjum sem hún hefur yfir að ráða til að varðveita fjármálastöðugleika í kjölfar COVID-19-faraldursins.

 

Frétt nr. 25/2020
1. júlí 2020

 

Meðfylgjandi mynd er af fjármálastöðugleikanefnd:
Í neðri röð frá vinstri eru Rannveig Sigurðardóttir varaseðlabankastjóri, Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri, formaður nefndarinnar, Gunnar Jakobsson varaseðlabankastjóri, varaformaður nefndarinnar, og Unnur Gunnarsdóttir varaseðlabankastjóri. Í efri röð frá vinstri er Tómas Brynjólfsson tilnefndur embættismaður fjármála- og efnahagsráðuneytis með málfrelsi og tillögurétt en án atkvæðisréttar, Bryndís Ásbjarnardóttir, Guðmundur Kr. Tómasson og Axel Hall. Sjá nánar hér

Til baka