Hugtök og skýringar

Hér má finna svör við algengum fyrirspurnum og auk þess skýringar á ýmsum hugtökum sem til umfjöllunar eru:

Ávöxtun

Ávöxtun sýnir hvað tiltekin vaxtakjör jafngilda miklum ársvöxtum ef greitt væri einu sinni á ári eftir á. Ávöxtun má setja upp í jöfnu, sé miðað við að lán sé endurgreitt að fullu í einu lagi:

Ávöxtun  

þar sem a er ávöxtun í %, L er lokagreiðsla, H er upphafleg greiðsla og d er dagafjöldi til gjalddaga.

 

Dráttarvextir

Dráttarvextir eru vextir sem reiknast á vanskil og eru hugsaðir til að bæta kröfueigenda upp frestun á greiðslu. Dráttarvextir koma því til þegar ekki er staðið í skilum ólíkt öðrum vöxtum sem miðast við að staðið sé í skilum.

 

Forvextir


Forvextir eru lánsvextir sem greiðast strax við lántöku. Þeir eru gjarnan notaðir við víxillán, styttri en til eins árs.

 

Framleiðsluspenna/-slaki


Framleiðslugeta hagkerfisins er skilgreind sem það framleiðslustig sem samræmist fullri nýtingu allra framleiðsluþátta hagkerfisins, þ.e. fjármagnsstofns, vinnuafls og fyrirliggjandi tækniþekkingar. Til skamms tíma getur heildareftirspurn hagkerfisins valdið því að framleiðslustig hagkerfisins verði frábrugðið framleiðslugetunni. Þegar landsframleiðslan er umfram framleiðslugetuna er talað um að framleiðsluspenna sé til staðar. Þá myndast spenna í þjóðarbúskapnum sem birtist í umframeftirspurn á vöru- og vinnumörkuðum sem veldur að lokum aukinni verðbólgu. Ef framleiðslan er hins vegar minni en sem nemur framleiðslugetu myndast framleiðsluslaki í hagkerfinu sem dregur úr verðbólguþrýstingi að öðru óbreyttu.

 

Gjaldeyrisstaða Seðlabankans

Gjaldeyrisstaða sýnir nettógjaldeyriseign Seðlabanka Íslands, þ.e.a.s. gjaldeyrisforða að frádregnum skammtímagjaldeyrisskuldum.

 

Grunnfé

Grunnfé Seðlabanka Íslands (e. monetary base, base money eða high powered money) samanstendur af seðlum og mynt í umferð og innstæðum innlánsstofnana í Seðlabankanum.

 

Hagstærðir


Hagstærðir eru hvers konar tölur eða stærðir sem lýsa hagkerfum og þróun efnahagsmála, t.d. þjóðarframleiðslu, hagvexti, verðbólgu, opinberum útgjöldum o.s.frv.

 

Kjörvextir


Kjörvextir eru lægstu útlánsvextir lánastofnana. Þeir eru notaðir þegar lánaáhætta er lítil eða engin að mati lánastofnunar.

 

Landsframleiðsla og hagvöxtur

Landsframleiðsla í tilteknu landi er heildarverðmæti allrar vöru og þjónustu sem framleidd er til endanlegra nota innan landamæra þess. Hagvöxtur er breyting landsframleiðslunnar að raunvirði (þ.e. á föstu verðlagi), yfirleitt á milli ára. Samdráttur á sér stað þegar landsframleiðsla dregst saman milli ára, þ.e. þegar hagvöxtur er neikvæður. Landsframleiðsla er þó ekki einhlítur mælikvarði á velmegun þjóðar m.a. þar sem ekki er tekið tillit til allrar framleiðslu, t.d. þeirrar sem á sér stað á heimilum landsmanna til einkanota. Einnig er t.d. ekki tekið tillit til þess hvort framleiðslan hafi neikvæð áhrif á umhverfið.

 

Meginvextir Seðlabankans

Seðlabankinn framkvæmir peningastefnuna einkum með því að stýra vöxtum á peningamarkaði, fyrst og fremst í gegnum ávöxtun í viðskiptum sínum við lánastofnanir, sem síðan hafa áhrif á aðra markaðsvexti og þar með á peningamagn í umferð, eftirspurn og verðbólgu. Meginvextir (stundum kallaðir stýrivextir) Seðlabankans eru þeir vextir í þessum viðskiptum við lánastofnanir sem ráða mestu um framvindu skammtímavaxta á markaði og þar með aðhaldsstigi peningastefnunnar. Tilgangur með hækkun slíkra vaxta getur verið að draga úr útlánum, ofþenslu og verðbólgu eða hækka gengi gjaldmiðils.

Það getur verið breytilegt frá einum tíma til annars hvaða vextir Seðlabankans hafa mest áhrif á aðra skammtímavexti og teljast þar með meginvextir hans. Fyrir fjármálaáfallið haustið 2008 voru meginvextir bankans almennt taldir vera vextir á lánum Seðlabankans gegn veði til lánastofnana, þ.e. svokölluð veðlán, enda var eftirspurn eftir þeim talsverð. Eftir fjármálaáfallið hefur eftirspurn lánastofnana eftir útlánum í Seðlabankanum hins vegar verið takmörkuð og lánastofnanir lagt þeim mun meira inn á reikninga í bankanum. Því hafa vextir á innlánsformum bankans verið áhrifameiri um vaxtaþróun á peningamarkaði frá árinu 2009. Meginvextir bankans um þessar mundir eru vextir á sjö daga bundnum innlánum lánastofnana í Seðlabankanum.

 

Myntfræði

Myntfræði (numismatik, af gríska orðinu nomisma = mynt) er ein grein menningarsögu og mikilsverð stoðgrein annarra fræðigreina, svo sem almennrar sagnfræði og fornleifafræði, og er að ýmsu leyti skyld innsigla- og skjaldarmerkjafræði. Myntfræði fæst við hvers konar gjaldmiðil gefinn út af fyrirtækjum og stofnunum. Enn fremur heyra til viðfangsefna myntfræðinnar skyldir hlutir, svo sem minnispeningar, heiðurspeningar og orður. Myntfræðin fæst við sögu og greiningu þessara viðfangsefna.

 

Raunvextir

Raunvextir eru þeir vextir sem fást að teknu tilliti til verðlagsbreytinga, þ.e. kaupmáttarbreyting fjár sem ber ákveðna ávöxtun. Einföld nálgun á raunvöxtum er sú tala sem fæst þegar verðbólga er dregin frá nafnvöxtum, þ.e. nafnvextir mínus verðbólga. Réttara samband milli þessara stærða er gefið með jöfnu Fisher:

Raunvextir

þar sem r táknar raunvexti, nafnvexti og π stendur fyrir verðbólgu. Raunvextir eru að jafnaði lægri en nafnvextir, eða sem verðbólgunni nemur. Í ástandi verðhjöðnunar, þ.e. neikvæð ársverðbólga, eru raunvextir aftur á móti hærri en nafnvextir.


Reibor

Vextir á millibankamarkaði með krónur. Krónumarkaður gengur einnig undir nafninu REIBOR markaður og vextir sem skráðir eru á markaðnum kallaðir REIBOR vextir. REIBOR er stytting á Reykjavík interbank offered rate.

 

Verðbólga


Verðbólgu má skilgreina sem viðvarandi hækkun verðlags. Þegar talað er um verðlag er átt við meðalverð vöru og þjónustu á markaði, ekki verð á einstakri vöru eða tegund þjónustu. Með viðvarandi hækkun verðlags er átt við röð hækkana yfir nokkuð langt tímabil, t.d. ár, en ekki t.d. hækkun í einum mánuði. Verðbólga felur í sér að verðgildi peninga minnkar, þ.e.a.s. minna magn vöru og þjónustu fæst fyrir hverja krónu. Breytingar á verðlagi eru mældar með vísitölum. Algengasti mælikvarðinn á verðlagsbreytingar eru svokallaðar neysluverðsvísitölur. Gerðar eru reglulegar kannanir á neyslu heimilanna í landinu. Í hverjum mánuði er síðan gerð verðkönnun og eru niðurstöður neyslukönnunar notaðar til þess að vega saman verð á einstökum tegundum vöru og þjónustu í heildarvísitölu. Prósentubreyting vísitölunnar yfir ákveðið tímabil, t.d. 12 mánuði, er síðan notuð sem mælikvarði á verðbólgu.

 

Vísitala gengisskráningar

Vísitala gengisskráningar sýnir meðalgengi ákveðinna erlendra gjaldmiðla gagnvart íslensku krónunni. Hækkun vísitölunnar felur í sér að verð erlendra gjaldmiðla hefur hækkað í krónum talið. Þannig sýnir hækkun vísitölunnar lækkun á gengi íslensku krónunnar en lækkun vísitölunnar hækkun á gengi krónunnar. Vísitala gengisskráningar er miðuð við viðskiptavegið gengi helstu gjaldmiðla sem við notumst við. Vægi einstakra gjaldmiðla er byggt á hlutdeild viðkomandi landa í vöru- og þjónustuviðskiptum og er það endurskoðað árlega til þess að tryggja að gjaldmiðlavogin endurspegli ætíð eins vel og kostur er samsetningu utanríkisviðskipta þjóðarinnar.

 

Yfirdráttarvextir


Yfirdráttarvextir eru vextir af yfirdráttarlánum það er af þeirri fjárhæð sem samið er um að taka megi út af bankareikningi þótt innstæða sé ekki fyrir hendi.