logo-for-printing

18. september 2020

Bann við nýsölu vátryggingaafurða NOVIS sem nær til Íslands

Bygging Seðlabanka Íslands

Seðlabanki Slóvakíu (Národná banka Slovenska, NBS), sem hefur eftirlit með fjármálastarfsemi í Slóvakíu, hefur lagt tímabundið bann við nýsölu vátryggingaafurða NOVIS Insurance Company, NOVIS Versicherungsgesellschaft, NOVIS Compagnia di Assicurazioni, NOVIS Poisťovňa a.s. (NOVIS) þar til tilgreind skilyrði hafa verið uppfyllt. Bannið nær til vátryggingaafurða félagsins sem eru í dreifingu á Íslandi, en NOVIS hóf sölu líftryggingaafurða á Íslandi í janúar 2018 og var fjöldi vátryggingartaka með virka samninga 5.201 við lok desember 2019.

NOVIS er líftryggingafélag, sem hóf starfsemi árið 2014 í Slóvakíu og lýtur eftirliti NBS. Auk starfsemi í heimaríkinu, veitir NOVIS þjónustu í greinum líftrygginga gegnum útibú í Austurríki, Tékkandi og Þýskalandi og þjónustu án starfsstöðvar í Finnlandi, Ítalíu, Íslandi, Litháen, Póllandi, Svíþjóð og Ungverjalandi.

Fjármálaeftirlit Seðlabanka Íslands hefur áður komið á framfæri ábendingum og tilkynningum er varða afurðir félagsins og markaðssetningu, s.s. ábendingum til neytenda um atriði er varða fjárfestingatengdar vátryggingaafurðir, tímabundna stöðvun á nýsölu vátryggingaafurða í Ungverjalandi og stöðvun sölu á vátryggingaafurðinni Wealth Insuring á Íslandi. Þá birti Fjármálaeftirlitið niðurstöður athugunar á viðskiptaháttum í tengslum við sölu á vátryggingarafurðum NOVIS.

Fjármálaeftirlit Seðlabanka Íslands hefur tekið þátt í samstarfsvettvangi eftirlitsstjórnvalda Evrópsku vátrygginga- og lífeyrissjóðaeftirlitsstofnunarinnar (EIOPA), NBS og annarra eftirlitsstjórnvalda á Evrópska efnahagssvæðinu gegnum samstarfsvettvang eftirlitsstjórnvalda vegna NOVIS.

Tilkynning EIOPA um tímabundið bann NBS.

Fjármálaeftirlit Seðlabanka Íslands hefur tekið hér saman upplýsingar til íslenskra neytenda í ljósi tímabundins banns NBS.

 

Frétt nr. 31/2020
18. september 2020

Til baka