logo-for-printing

26. janúar 2022

Seðlabanki Slóvakíu tekur á ný ákvörðun um brot NOVIS og takmarkar tímabundið frjálsa ráðstöfun eigna félagsins

Bygging Seðlabanka Íslands

Fjármálaeftirlit Seðlabanka Íslands (Fjármálaeftirlitið) vísar til fyrri frétta sem birst hafa um ákvarðanir Seðlabanka Slóvakíu (Národná banka Slovenska, NBS) varðandi NOVIS Versicherungsgesellschaft, NOVIS Compagnia di Assicurazioni, NOVIS Poisťovňa a.s. (NOVIS), nú síðast 28. apríl 2021.

Hinn 17. janúar síðastliðinn birti NBS ákvörðun sína ásamt hluta úrbótakrafna vegna brota vátryggingafélagsins NOVIS. Seðlabankinn hefur tekið saman upplýsingar til íslenskra neytenda vegna stöðu NOVIS í ljósi ákvörðunar NBS.

Í ákvörðun NBS kemur fram að starfsemi NOVIS á tímabilinu 30. júní 2021 til 17. ágúst 2021 hafi hvorki verið stunduð með varfærnissjónarmið að leiðarljósi, þ.e. að ekki hafi verið gerðar ráðstafanir til að milda áhættu vegna áhættuþátta sem gætu haft skaðleg áhrif á fjárhag félagsins, né hafi NOVIS haft nægt gjaldþol (e. own funds) til að mæta gjaldþolskröfu Solvency II tilskipunarinnar (e. Solvency Capital Requirement). Framangreind háttsemi NOVIS fól að mati NBS í sér brot á ákvæðum þarlendra laga.

Í forsendum ákvörðunar NBS er sérstaklega vísað til þess að við útreikning á vátryggingaskuld hafi félagið ekki byggt á raunhæfum forsendum, sérstaklega hvað varðar líkur á uppsögnum samninga af hálfu vátryggingartaka á Íslandi og Ítalíu auk vanmetins kostnaðar við uppgjör skuldbindinga. Þá hafi forsendur við útreikninga á gjaldþoli félagsins verið ákvarðaðar með ósamkvæmum og staðlausum hætti, sem hafi leitt til rangrar ályktunar um að félagið hafi mætt gjaldþolskröfu með nægu gjaldþoli.

Í ákvörðuninni gerir NBS úrbótakröfur í þremur liðum en birtir eingöngu úrbótakröfur sem felast í þriðja liðnum, sem NOVIS þarf að uppfylla nú þegar. NOVIS eru strax settar tímabundnar takmarkanir varðandi frjálsa ráðstöfun á eignum félagsins sem og allar ráðstafanir sem geta rýrt verðgildi eigna. Þá eru útgreiðslur krafna til aðila í sérstöku sambandi við NOVIS óheimilar ásamt frekari skuldsetningu nema það sem reglulegur rekstur félagsins kallar á. Nánari upplýsingar um framangreinda úrbótakröfu er að finna í ákvörðun NBS.

Nánari upplýsingar og fyrri fréttir

Hvað er gjaldþol?
Það fjármagn sem vátryggingafélag þarf að hafa til að mæta tapi sem leiðir af atburðum sem leiða til óhagstæðrar afkomu af rekstri vátrygginga, fjárfestinga eða annarra þátta í rekstri vátryggingafélags.

Hvað er gjaldþolskrafa?
Gjaldþolskrafa er mælikvarði yfir alla áhættu vátryggingafélags til þess að áætla mögulegt tap þess til næstu 12 mánaða m.v. 99,5% öryggisstig. Gjaldþolskrafa er reiknuð eftir staðalreglu eða eigin líkani og tekur tillit til þess hvort rekstur vátryggingafélags sé áhættusamur m.t.t. þeirrar starfsemi sem félagið stundar, fjárfestinga og fleiri þátta.

Hvað er vátryggingaskuld?
Vátryggingaskuld er skuldbinding vátryggingafélaga vegna gerðra vátryggingarsamninga. Hún er mat á væntanlegum kostnaði vátryggingafélags við greiðslu bóta sem það hefur lofað að greiða tjónþolum eða vátryggingartökum.

Fjármálaeftirlitið hefur unnið náið með NBS, EIOPA og öðrum lögbærum yfirvöldum á sérstökum samstarfsvettvangi þar sem fjallað hefur verið um málefni sem tengjast varfærnis- og viðskiptaháttaeftirliti með starfsemi NOVIS.

Seðlabanki Slóvakíu hefur ítrekað haft afskipti af starfsemi vátryggingafélagsins NOVIS á liðnum misserum. Ákvarðanir NBS á tímabilinu september 2020 til dagsins í dag hafa falið í sér eftirfarandi ráðstafanir:

  • Í september 2020 tók NBS ákvörðun um að banna NOVIS tímabundið nýsölu vátryggingarsamninga með fjárfestingarþætti og gerði kröfu um að NOVIS fjárfesti öllum iðgjöldum vátryggingarsamninga í þágu vátryggingartaka í samræmi við skilmála samninganna.
  • NBS tók ákvörðun um að takmarka NOVIS tímabundið frjálsa ráðstöfun eigna sinna 5. nóvember 2020.
  • Bankastjórn NBS felldi bann við nýsölu úr gildi 12. febrúar 2021 en sá hluti ákvörðunarinnar sem tók á skyldu NOVIS til að fjárfesta öllum iðgjöldum vátryggingarsamninga í þágu vátryggingartaka í samræmi við skilmála samninganna hélt hins vegar áfram gildi sínu.
  • Aftur birti NBS ákvörðun á vefsíðu sinni þann 27. apríl 2021 en sú ákvörðun laut að broti vátryggingafélagsins á fjárfestingu iðgjalda í samræmi við skilmála vátryggingarsamninga. NBS gerði meðal annars aftur þá úrbótakröfu að NOVIS fjárfesti öllum iðgjöldum í samræmi við vátryggingarsamninga.
  • Með nýjustu ákvörðun NBS frá 14. janúar 2022 er NOVIS aftur talið brotlegt. NBS leggur fram úrbótakröfur í þremur liðum en einungis einn þeirra er birtur nú þegar. En þar er frjáls ráðstöfun eigna félagsins enn og aftur takmörkuð, nú allt til 15. mars árið 2022.

Fyrri fréttir Fjármálaeftirlitsins um málefni NOVIS

Fyrri fréttatilkynningar sem NBS hefur birt vegna mála NOVIS

Til baka