logo-for-printing

Fjármagnshöft

Innleiðing fjármagnshafta

Fjármagnshöft voru innleidd í nóvember 2008 í kjölfar þess að Ísland varð fyrir barðinu á óvenju umfangsmikilli bankakreppu í október 2008. Minnkandi tiltrú á íslenskum fjáreignum sem fylgdi í kjölfarið skapaði hættu á stórfelldu útstreymi fjármagns með afar háskalegum afleiðingum fyrir gengi krónunnar sem þegar hafði lækkað. Mikið útstreymi fjármagns (strax og í kjölfarið) hefði getað valdið enn stórfelldari gengislækkun krónunnar og meiri verðbólgu en raun varð á. Þar sem efnahagsreikningar heimila og fyrirtækja einkenndust bæði af mikilli skuldsetningu og háu hlutfalli lána í erlendum gjaldmiðlum og verðtryggðum lánum hefði þetta getað hrundið af stað mikilli hrinu vanskila með óhagstæðum afleiðingum fyrir þjóðarbúskapinn. Vegna þessa greip Seðlabanki Íslands til aðgerða hinn 10. október 2008 sem miðuðu að því að hefta tímabundið útflæði gjaldeyris. Í ljósi hinnar miklu áhættu fyrir þjóðarbúskapinn var talið að þrátt fyrir að fjármagnshöft væru óheppileg væru þau óhjákvæmilegur þáttur aðgerða er miðuðu að því að stuðla að stöðugleika krónunnar þegar millibankamarkaður með erlendan gjaldmiðil var opnaður á ný í byrjun desember 2008.

 

Grundvöllur fjármagnshafta

Kveðið er á um meginregluna um frjálst fjármagnsflæði í 40. og 41. gr. EES-samningsins. Takmarkanir á fjármagnsflutningum sem gripið var til hér á landi hafa verið studdar með vísan til ákvæðis 43. gr. EES-samningsins sem veitir samningsaðilum heimild til slíks reynist það nauðsynlegt til að bregðast við ýmiss konar erfiðleikum eða röskun á fjármagnsmarkaði viðkomandi aðildarríkis.

Í 43. gr. EES-samningsins er að finna heimildir til undanþágu frá frjálsum flutningum fjármagns eins og þeim er lýst í 40. gr. EES-samningsins. Í 2. mgr. 43. gr. EES-samningsins er kveðið á um að í tilvikum þar sem fjármagnsflutningar leiði til röskunar á starfsemi fjármagnsmarkaðar í EFTA-ríki geti hlutaðeigandi ríki gripið til verndarráðstafana á viðkomandi sviði. Enn fremur segir í 4. mgr. sömu greinar að ef EFTA-ríki eigi í örðugleikum með greiðslujöfnuð eða alvarleg hætta sé á að örðugleikar skapist, hvort sem það stafar af heildarójafnvægi í greiðslujöfnuði eða því hvaða gjaldmiðli það hefur yfir að ráða, geti hlutaðeigandi ríki gripið til verndarráðstafana, einkum ef örðugleikarnir eru til þess fallnir að stofna framkvæmd EES-samningsins í hættu.

Með dómi EFTA-dómstólsins í máli E-3/11, sem kveðinn var upp hinn 14. desember 2011, veitti EFTA-dómstóllinn ráðgefandi álit um spurningar sem honum bárust frá Héraðsdómi Reykjavíkur um túlkun 43. gr. EES-samningsins, þar sem heimild er veitt til að víkja frá reglum um frjálst flæði fjármagns. Var niðurstaðan sú að efnisleg skilyrði fyrir því að grípa til verndarráðstafana samkvæmt 2. og 4. mgr. 43. gr. EES-samningsins væru uppfyllt og þær íslenskar reglur um takmörkun fjármagnsflutninga sem áttu undir í því máli væru í samræmi við EES-samninginn.