logo-for-printing

25. janúar 2022

Áhersluverkefni nýsköpunarmiðstöðva Alþjóðagreiðslubankans 2022

Bygging Seðlabanka Íslands

Alþjóðagreiðslubankinn (BIS) kynnti í dag áherslur í starfsemi nýsköpunarmiðstöðva sinna á þessu ári. Í samstarfi við BIS stendur Seðlabanki Íslands, ásamt fleiri norrænum seðlabönkum, að baki slíkrar miðstöðvar í Stokkhólmi, sjá frétt frá 30. júní 2020, sem vígð var í júní sl., sjá frétt frá 16. júní 2021.

Aðrar nýsköpunarmiðstöðvar starfa í Hong Kong, Sviss, Lundúnum og Singapúr og fleiri munu innan skamms taka til starfa, m.a. í Frankfurt, París og Toronto.

Meðal sérstakra áhersluverkefna nýsköpunarmiðstöðvanna í ár verður skoðun á seðlabankarafeyri, næstu kynslóð greiðslukerfa og dreifstýrðum fjármálum. Þá verður einnig unnið að því sem kalla má græn fjármál og að ýmsum verkefnum sem varða reglusetningu, eftirlitstækni og netöryggi.

Í fréttatilkynningu frá BIS er nánar greint frá nokkrum helstu verkefnum sem nýsköpunarmiðstöðvarnar hafa unnið að og munu áfram vinna að í ár. Þar kemur m.a. fram að í Sviss er unnið að uppbyggingu á nýju kerfi sem safnar og vinnur úr miklu magni upplýsinga um gengi gjaldmiðla í rauntíma, í Singapore er unnið að hugbúnaði fyrir eftirlitsaðila til að safna og greina mikið magn upplýsinga úr ólíkum áttum með aðstoð gervigreindar, í Hong Kong að verkefnum er snúa að dreifstýrðu fjármálakerfi og í Lundúnum að nýjum greiðslulausnum í tengslum við seðlabankafé. Loks er áformað að í norrænu nýsköpunarmiðstöðinni í Stokkhólmi verði unnið að verkefni sem snýr að því að fá heildstæða sýn á flæði greiðsluupplýsinga í því skyni að koma auga á ólöglega starfsemi, t.d. hugsanleg skattsvik, peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka. Einnig er þar áformað verkefni sem lýtur að því finna lausn á því hvernig megi gera það kleift að nota seðlabankarafeyri án nettengingar, t.d. þegar netsamband liggur niðri, og að rannsaka hvaða kröfur þurfi að gera til öryggis og viðnámsþróttar í því sambandi.

Sjá hér nánari upplýsingar um efnið:

Frétt frá Alþjóðagreiðslubankanum í dag, 25. janúar 2022: BIS Innovation Hub to focus on CBDC, payments, DeFi and green finance in 2022 work programme

Upplýsingar um nýsköpunarmiðstöðvar á vef Alþjóðagreiðslubankans

Upplýsingar á vef Alþjóðagreiðslubankans um norrænu nýsköpunarmiðstöðina í Stokkhólmi

Frétt Seðlabanka Íslands 16. júní 2021: 
Nýsköpunarmiðstöð Alþjóðagreiðslubankans opnar norræna starfsstöð (BIS Innovation Hub Nordic Centre)

Frétt Seðlabanka Íslands 30. júní 2020:
BIS stofnar nýsköpunarmiðstöð í samstarfi við Seðlabankann og fleiri norræna seðlabanka


Til baka