logo-for-printing

16. júní 2021

Nýsköpunarmiðstöð Alþjóðagreiðslubankans opnar norræna starfsstöð (BIS Innovation Hub Nordic Centre)

Í dag var opnuð norræn starfsstöð Nýsköpunarmiðstöðvar Alþjóðagreiðslubankans í Stokkhólmi. Miðstöðin verður rekin í samstarfi við seðlabanka Danmerkur, Íslands, Noregs og Svíþjóðar. Þetta er fimmta starfsstöð Nýsköpunarmiðstöðvarinnar sem opnuð er á tveimur árum en starfsstöðvar eru einnig í Hong Kong, Singapúr, Sviss og London.

Nýsköpunarmiðstöð Alþjóðagreiðslubankans var stofnuð af bankanum árið 2019 til að greina og þróa skilning á helstu straumum og stefnum í fjártækni sem tengjast starfi seðlabanka, leita tækifæra til að þróa tæknilausnir til að efla virkni fjármálakerfisins í almannaþágu og til að þjóna sem miðstöð fyrir skoðanaskipti og samstarf sérfræðinga innan seðlabanka á sviði nýsköpunar.

Viðfangsefni Nýsköpunarmiðstöðvar Alþjóðagreiðslubankans beinist fyrst í stað að sex sviðum: notkun tækni í eftirliti og reglusetningu (e. subtech og regtech), þróun innviða á fjármálamarkaði, rafrænu seðlabankafé, opnu fjármálaaðgengi, tölvuöryggi og grænum fjármálamarkaði. Vinna í tengslum við þessa málaflokka dreifist á milli starfstöðva Nýsköpunarmiðstöðvarinnar. Ekki er enn búið að afmarka sérstök verkefni fyrir norrænu starfsstöðina.

Opnunin í dag er liður í að gera starfsemina enn alþjóðlegri. Þáttur í þeirri áætlun er einnig opnun starfsstöðva með Seðlabanka Kanada í Toronto og Seðlabanka Evrópu í Frankfurt og París. Alþjóðagreiðslubankinn undirritaði jafnframt í janúar á þessu ári viljayfirlýsingu um stefnumarkandi samstarf við Seðlabanka Bandaríkjanna í New York.

Þeir sem tóku þátt í opnun norrænu starfsstöðvarinnar í dag voru: Agustín Carstens, framkvæmdastjóri Alþjóðagreiðslubankans, Benoît Cœuré, stjórnandi BIS Innovation Hub, Åsa Lindhagen, ráðherra fjármálamarkaða í Svíþjóð, Lars Rohde, bankastjóri Seðlabanka Danmerkur, Gunnar Jakobsson, varabankastjóri fjármálastöðugleika Seðlabanka Íslands, Øystein Olsen, bankastjóri Seðlabanka Noregs, Stefan Ingves, bankastjóri Seðlabanka Svíþjóðar og Cecilia Skingsley, fyrsti varabankastjóri Seðlabanka Svíþjóðar.

Hægt er að horfa á upptöku af opnunarathöfninni á vef Sænska Seðlabankans: Opnun norrænu starfsstöðvar Nýsköpunarmiðstöðvar Alþjóðagreiðslubankans


Til baka