30.04.2018

Málstofa um erfiðleika og endurskipulagningu banka í Evrópu

Málstofa um þetta efni verður haldin í Sölvhóli, fundarherbergi í Seðlabankanum, mánudaginn 30. apríl kl. 15:00.

Frummælandi: Prófessor Małgorzata Iwanicz-Drozdowska, sem kennir við Warsaw School of Economics

Ágrip: Á málstofunni verður fjallað um ástæður fyrir erfiðleikum í rekstri banka í Evrópu, sérstaklega á tímum fjármálakreppunnar árið 2008 og um þau tæki til endurskipulagningar sem notuð voru í Evrópu til að fást við vanda bankanna. Fyrst var rannsakað hvernig bönkunum gekk í 1-4 ár áður en áfall reið yfir til að sýna hversu ólíkir bankarnir voru.

Þessi aðferð gerði það kleift að útbúa almennar leiðbeiningar fyrir eftirlitsaðila um hvernig eigi að greina þá banka sem eru í hættu nokkrum árum áður en áfallið dynur yfir. Einnig var rannsakað hvaða atriði skiptu máli varðandi kostnað við endurskipulagningu banka og tækjum raðað upp eftir því hversu dýr þau reyndust.

Rannsókn á kostnaði við endurskipulagningu banka bendir til þess að – a.m.k. hingað til – hafi yfirvöld í ESB valið tækin rétt. Gjaldþrotaleiðin var notuð þegar litlir eða miðlungs stórir bankar áttu í hlut (nema á Kýpur) en það er dýrasta leiðin og var notuð þegar ekki var hægt að bjarga banka með fjárframlögum. Í þremur tilfellum var bönkum bjargað með fjárframlögum frá eigendum/fjárfestum (e. bail-in). Það tæki til endurskipulagningar sem er ódýrast og oftast notað er hrein endurfjármögnun með framlagi frá hinu opinbera (e. bail-out).

Niðurstaða rannsóknarinnar er sú að endurfjármögnun með framlagi frá hinu opinbera eigi að vera áfram í forðabúri stjórnvalda en að það eigi einungis við þegar ströng skilyrði eru uppfyllt.


Málstofan verður á ensku.

Til baka