logo-for-printing

Ný rannsóknarritgerð um þátttöku í viðbótarlífeyrissparnaði

Seðlabanki Íslands hefur gefið út rannsóknarritgerðina „Participation in supplementary pension savings in Iceland“. Höfundar eru Ásgeir Daníelsson, fyrrum forstöðumaður rannsóknar- og spádeildar á sviði hagfræði og peningastefnu, Rannveig Sigurðardóttir, varaseðlabankastjóri peningastefnu og Svava J. Haraldsdóttir, hagfræðingur á sviði hagfræði og peningastefnu.

Viðbótarlífeyrissparnaður hófst árið 1999. Frá byrjun hafa hvatar til að auka þátttökuna verið til staðar; viðbótarlífeyrissparnaður er undanþeginn fjármagnstekjuskatti eins og annar lífeyrissparnaður. Mótframlag atvinnurekanda og úrræði stjórnvalda frá 2014 sem heimilaði að viðbótarlífeyrissparnaður væri nýttur til að greiða skattfrjálst inn á húsnæðislán hefur í för með sér að ávöxtun á framlag launafólks í viðbótarlífeyrissparnað er mjög góð. Í ritgerðinni eru notuð gögn úr skattskýrslum allra landsmanna árin 1999-2017 til þess að rannsaka hvernig þátttaka í viðbótarlífeyrissparnaði hefur þróast yfir tíma og er litið sérstaklega til þróunar í kjölfar fjármálaáfallsins og úrræðisins sem kynnt var 2014. Einnig er skoðað hvaða þættir ákvarða það hverjir eru líklegir til þess að taka þátt í viðbótarlífeyrissparnaði, m.a. út frá aldri, menntun, tekjum og kyni. Þó að ávöxtun þessa sparnaðar fari vaxandi með aldri eykst þátttakan ekki með aldri. Menntun og tekjur hafa jákvæð áhrif á þátttöku og þátttaka kvenna er meiri en karla.

Þrátt fyrir mikla hvata til þátttöku í viðbótarlífeyrissparnaði kom á óvart hve stór hluti þeirra sem geta tekið þátt gerðu það ekki. Einnig var áhugavert að þátttaka minnkaði við sextugt þegar leyfilegt er að hefja úttekt viðbótarlífeyrissparnaðar þrátt fyrir að fólk væri enn á vinnumarkaði og var marktæk fylgni á milli ákvörðunar um að hefja úttekt og ákvörðunar um að hætta þátttöku. Úrræðið að greiða skattfrjálst inn á húsnæðislán sem kom til sögunnar 2014 gagnaðist fyrst og fremst þeim sem voru með húsnæðislán. Rannsóknin sýnir hins vegar að af þeim sem skulduðu húsnæðislán var svipaður fjöldi sem nýtti sér úrræðið og sem gerði það ekki.

Sjá ritið hér: Participation in supplementary pension savings in Iceland

Til baka