logo-for-printing

07.11.2019

Seðlabankastjóri fjallar um ótroðnar lágvaxtaslóðir á peningamálafundi Viðskiptaráðs

Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri fór yfir stöðu og horfur í efnahagsmálum á Peningamálafundi Viðskiptaráðs á Hilton hóteli í morgun fimmtudaginn 7. nóvember. Fundurinn bar yfirskriftina „ótroðnar lágvaxtaslóðir“ en seðlabankastjóri fjallaði meðal annars um vaxtaumhverfið á Íslandi og þær langtímabreytingar sem hafa orðið til þess að lækka vaxtastig hér á landi.

„Þetta er fyrsta niðursveiflan frá seinna stríði þar sem við sjáum ekki samdrátt í einkaneyslu,“ sagði seðlabankastjóri og benti á að niðursveifla án gengisfalls og kreppuverðbólgu geri peningastefnunni kleift að styðja við eftirspurn án þess að ógna verðstöðugleika og skerða kjör almennings.

Í vikunni lækkuðu meginvextir bankans niður í 3% og hafa þeir aldrei verið lægri. „Bankinn gat lækkað vexti og samt gert ráð fyrir að verðbólga myndi hjaðna,“ sagði Ásgeir. Eitthvað sem hann hefur ekki getað gert áður og má rekja til aukinnar kjölfestu verðbólguvæntinga sem er m.a. afleiðing aukins trúverðugleika Seðlabankans. „Verðbólga er ekki komin í markmið, við erum samt að lækka vexti. Við erum að verða eins og venjuleg þjóð í því hvernig við beitum peningastefnu.“ Þessar breytingar má rekja til þess að Seðlabankanum hefur tekist vel til að viðhalda verðstöðugleika sem hefur leitt til lægri verðbólguvæntinga og þess að vaxtastigið sem þarf til að viðhalda verðstöðugleika er lægra en ella. Ennfremur benti seðlabankastjóri á að vaxtalækkun Seðlabankans hefur skilað sér út í hagkerfið. Skuldabréfavextir, húsnæðislán og lán til fyrirtækja hafa í meginatriðum fylgt meginvöxtum bankans.

Efni sem fylgdi ávarpi Ásgeirs má finna hér: Peningamálafundur Viðskiptaráðs 2019. Ótroðnar lágvaxtaslóðir. 7. nóvember 2019. Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri.

Til baka