logo-for-printing

05.01.2017

Grein seðlabankastjóra um velgengni og gengi krónunnar

Það gengur óvenju vel í þjóðarbúskap Íslendinga um þessar mundir. Það er full atvinna og kannski gott betur eins og sést á miklum aðflutningi erlends vinnuafls og þeirri staðreynd að um 40% fyrirtækja kvarta undan skorti á vinnuafli. Til viðbótar þessu er kaupmáttur launa í sögulegum hæðum og eignir heimila umfram skuldir hafa ekki í langan tíma verið meiri.Við höfum áður gengið í gegnum hátoppa atvinnu og kaupmáttar samfara vaxandi spennu í þjóðarbúskapnum. Það hefur oftar en ekki endað illa þar sem margvíslegt ójafnvægi í þjóðarbúskapnum magnaðist að því marki að snörp aðlögun varð ekki umflúin. Nú bregður hins vegar svo við að jafnvægið í þjóðarbúskapnum er þrátt fyrir allt mun betra en oft áður. Mæld verðbólga er undir verðbólgumarkmiði en væntingar fólks og fyrirtækja um verðbólgu framtíðarinnar eru við það. Sparnaður heimila og þjóðabús er mun meiri nú en oftast áður á þessu stigi hagsveiflunnar og meðal annars af þeim sökum er verulegur afgangur á viðskiptum okkar við útlönd.

Viðnámsþróttur þjóðarbúsins
Það getur líka mildað áhrif áfalla sem kunna að verða að viðnámsþróttur þjóðarbúsins er meiri en oft vegna þess að skuldsetning heimila, fyrirtækja og hins opinbera hefur minnkað umtalsvert síðustu árin og erlend staða þjóðarbúsins er góð. Gjaldeyrisforði hefur ekki verið hlutfallslega stærri síðan í lok seinni heimsstyrjaldar. Bankar eru með mikið eigið fé og hafa góða lausafjárstöðu. Það eru einkum þrír þættir sem eiga mestan þátt í tiltölulega góðri stöðu. Í fyrsta lagi mikill bati viðskiptakjara síðustu misseri. Í öðru lagi vöxtur ferðaþjónustu. Í þriðja lagi hagstjórn, þ.m.t. peningastefnan, og varúðarstefna varðandi fjármálakerfið sem hafa í sameiningu stuðlað að lítilli verðbólgu, skapað hvata til sparnaðar og eflt viðnámsþrótt þjóðarbúsins og fjármálakerfisins.

Á árinu sem er að líða og í fyrra jukust útflutningstekjur (kaupmáttur útflutnings vöru og þjónustu gagnvart innflutningi) um nærri þriðjung, aðallega vegna bættra viðskiptakjara og vaxtar ferðaþjónustu. Þessi mikla aukning er megin ástæða mikils hagvaxtar og á hún ásamt peningastefnunni mestan þátt í því að miklar launahækkanir hafa fyrst og fremst skilað sér í auknum kaupmætti en ekki í aukinni verðbólgu. Sömu þættir skýra mikinn viðskiptaafgang sem hefur stuðlað að styrkingu krónunnar.

Hver er áhættan?
Er þá engin möguleg vá? Jú, vissulega. Hættan á alvarlegri ofhitnun þjóðarbúsins er augljós. Viðskiptakjör gætu versnað á ný. Þá gæti komið bakslag í ferðaþjónustu. Mikilvægt er að viðeigandi aðilar séu vakandi fyrir þessari áhættu og reyni þar sem því verður við komið að draga úr líkum á því að áhættan raungerist. Þá þurfa stjórnvöld að leitast við að varðveita og efla viðnámsþrótt þjóðarbúsins. Þannig má milda áföllin og afleiðingar þeirra. Til skemmri tíma litið a.m.k. getum við lítil áhrif haft á viðskiptakjörin sem ákvarðast á erlendum mörkuðum. Hins vegar er hægt að draga úr of mikilli eftirspurn með aðhaldssamri hagstjórn og þar með úr líkum á snarpri aðlögun síðar meir. Veruleg slökun aðhalds peningastefnunnar sem miðar að snarpri lækkun raunvaxta stangast við núverandi aðstæður á við það markmið. Langtíma raunvextir geta þó haldið áfram að síga niður haldist sparnaðarstig áfram hátt og raskist jafnvægi í þjóðarbúinu ekki um of á næstunni.

Styrking krónunnar
En þá kann einhver að spyrja: Hvað með mikla styrkingu krónunnar? Felst ekki mesta áhættan í henni? Til að svara þeirri spurningu þarf að glöggva sig á ástæðum hærra gengis. Augljóst virðist að hún sé fyrst og fremst afleiðing þeirrar þróunar sem ég hef hér gert að umtalsefni, sérstaklega á seinni hluta ársins. Þannig varð á þriðja ársfjórðungi met viðskiptaafgangur sem á fyrst og fremst rætur að rekja til afgangs á þjónustuviðskiptum. Á sama tíma var fjármagnsinnstreymi sáralítið. Á heildina litið hafa aðgerðir Seðlabankans á árinu unnið á móti styrkingu gengisins. Sérstök bindiskylda á fjármagnsinnstreymi inn á skuldabréfamarkað og í innstæður hefur nánast stöðvað vaxtamunarviðskipti. Þá hafði bankinn síðastliðinn þriðjudag keypt gjaldeyri á árinu fyrir 385 ma.kr. sem er rúmlega 40% meira en á metárinu 2015. Krónan getur þó vissulega ofrisið og það styður þá varfærni sem felst í miklum gjaldeyriskaupum þrátt fyrir að ekki sé með óyggjandi hætti hægt að fullyrða að gengið sé komið mikið yfir jafnvægi miðað við ríkjandi aðstæður.

Þrátt fyrir ofangreint telja sumir að Seðlabankinn eigi einfaldlega að kaupa mun meira og lækka vextina verulega í þokkabót. En það er ekki útgjaldalaust þar sem innra jafnvægi þjóðarbúsins og verðstöðugleika er þá stefnt í hættu. Þegar öllu er á botninn hvolft felur hækkun gengisins að hluta til a.m.k. í sér aðlögun þjóðarbúsins að vexti ferðaþjónustunnar eftir að fullri atvinnu er náð. Því má líta á hana sem leið markaðarins til að beina þróuninni á sjálfbærari braut. Til að draga úr þeirri áhættu sem vissulega felst í þessari þróun er því áhrifaríkast að höggva að rótum vandans sem um þessar mundir felst í of mikilli samkeppni um vinnuafl, húsnæði og ýmsar aðrar bjargir þessa lands. Ferðaþjónustan er það mikilvæg að hún getur ekki verið þar undanskilin.

Grein birt í Fréttablaðinu 30. desember 2016.

Til baka