logo-for-printing

14.10.2016

Fundir seðlabankastjóra í Brussel 27. og 28. september síðastliðinn

Dagana 27. og 28. september hélt Már Guðmundsson seðlabankastjóri tvö erindi í Brussel auk þess sem hann átti fundi með stjórn Eftirlitsstofnunar EFTA (EFTA Surveillance Authority - ESA) og háttsettum embættismönnum framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins á sviðum efnahagsmála og fjármálamarkaðar. Þar var einkum rætt um fjármagnshöft og þjóðhagsvarúðartæki.

Seðlabankastjóri flutti aðalerindi á málstofu Fríverslunarsamtaka Evrópu (EFTA) hinn 27. september. Málstofan fjallaði um þann vanda fyrir bankakerfi og fjármálastöðugleika sem felst í aðild að innri markaðnum án aðildar að bankasambandi. Dagskrá og frásögn af ráðstefnunni má nálgast á heimasíðu EFTA (sjá Policy Seminar: Half in – half out of the Banking Union). Erindi seðlabankastjóra bar yfirskriftina „Half in – half out: What are the risks for small open and financially integrated economies?“

Hinn 28. september var seðlabankastjóri framsögumaður á lokaðri málstofu hjá ESA þar sem hann ræddi um losun fjármagnshafta og kerfisáhættu á Íslandi (sjá: Lifting capital controls in Iceland). Í tengslum við málstofuna átti hann sérstakan fund með stjórn ESA. Daginn áður hafði hann átt tvo fundi með háttsettum embættismönnum framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, þeim Olivier Guersent framkvæmdastjóra fjármálamarkaða (DG-FISMA; Financial Stability, Financial Services and Capital Markets Union) og Servaas Deroose aðstoðarframkvæmdastjóra efnahagsmála (DG-ECFIN; Economic and Financial Affairs). Á fundunum var einkum rætt um framkvæmd og losun fjármagnshafta og þær varúðarreglur sem innleiddar hafa verið eða eru fyrirhugaðar og hafa það að markmiði að stuðla að fjármálastöðugleika við skilyrði óheftra fjármagnshreyfinga.

Frétt nr. 25/2016
14. október 2016

Til baka