logo-for-printing

24.08.2016

Orð seðlabankastjóra í kjölfar kynningar á yfirlýsingu peningastefnunefndar

 

24. ágúst 2016

 Orð seðlabankastjóra sem flutt voru í kjölfar yfirlýsingar peningastefnunefndar á kynningarfundi um vaxtaákvörðun 24. ágúst 2016.

 

1. Verðbólga hefur haldið áfram að minnka og verið minni en í maíspá Seðlabankans sem byggði eins og spár bankans að undanförnu á tæknilegri forsendu um óbreytt gengi krónunnar á spátímanum. Gengi krónunnar hefur hins vegar hækkað um 6½% síðan þá.

2. Verðbólguvæntingar hafa á undanförnum misserum hnigið í átt að verðbólgumarkmiði og frekari lækkun síðustu mánuði hefur leitt til þess að þær eru á flesta mælikvarða við eða mjög nálægt markmiðinu, bæði til skamms og langs tíma. Það ásamt lítilli verðbólgu nú og gengisstyrkingu krónunnar undanfarið bendir til þess að hægt sé að ná verðbólgumarkmiðinu með lægra vaxtastigi en áður var talið. Hér er auðvitað um mjög ánægjuleg tíðindi að ræða og mikinn árangur og er til vitnis um að trúverðugleiki peningastefnunnar hefur aukist. Hún getur því verið sveigjanlegri en ella.

3. Verðbólga hefur verið undir markmiði í hátt á þriðja ár. Það er orðið of langt tímabil til að það sé hægt að skýra án tilvísunar til peningastefnunnar. Á svo löngum tíma hefði aðhaldsminni peningastefna efalítið skilað meiri verðbólgu. Greining á áhrifaþáttum verðbólgunnar á undanförnum misserum styður þessa niðurstöðu. Peningastefnan á því hlut í þessum árangri og líklega mun stærri en margir telja. Hærri vextir hafa m.a. stuðlað að minni innlendri eftirspurn en ella og örvað sparnað. Viðskiptaafgangur og gjaldeyrisinnstreymi verður af þeim sökum meira en ella sem ýtir undir styrkingu krónunnar. Þá geta tiltölulega háir vextir og trúverðugar yfirlýsingar peningastefnunefndar, um að allt verði gert sem þarf til að halda verðbólgu við markmið, hafa leitt til þess að fyrirtæki eru ragari við að velta kostnaðarauka vegna launahækkana út í verðlag.

4. Þegar metið er hvort eða í hve ríkum mæli verðbólga undir markmiði bendi til þess að peningastefna hafi verið of aðhaldssöm þarf að hafa tvennt í huga varðandi nýliðna tíð. Í fyrsta lagi eru vísbendingar um að peningastefnuna hafi þar til nýlega skort trúverðugleika þar sem langtímavæntingar um verðbólgu hafa verið fyrir ofan markmið. Í öðru lagi hefði verið óvarlegt að ganga fyrirfram að því sem vísu að hin hagstæða þróun að undanförnu, sem birtist í miklum viðskiptakjarabata, gjaldeyrisinnstreymi og hækkun krónunnar, myndi eiga sér stað. Hún hefur verið umfram fyrri spár.

5. Núverandi ákvörðun byggist á þeim árangri sem náðst hefur við að ná verðbólguvæntingum í markmið. Minnkun verðbólgu og hjöðnun væntinga hefur leitt til þess að raunstýrivextir hafa hækkað umtalsvert og umfram það sem óhætt var að reikna með á fyrri hluta ársins. Ef litið er til meðaltals margvíslegra mælikvarða á verðbólgu og verðbólguvæntinga sem Seðlabankinn lítur til við mat á taumhaldi peningastefnunnar og aðeins litið til nýlegra mælinga má ætla að raunvextir bankans hafi hækkað um allt að einni prósentu frá því vextir voru síðast hækkaðir. Nú er helmingur þeirrar hækkunar tekinn í burtu. Raunvextir eru eftir sem áður hærri en þeir voru á fyrri hluta ársins sem verður að teljast eðlilegt í ljósi kraftsins í raunhagkerfinu og varfærið í ljósi stórra skrefa sem framundan eru í losun hafta. Í því sambandi er mikilvægt að þrátt fyrir vaxtalækkunina mun vaxtamunur gagnvart útlöndum áfram verða mjög verulegur og nægilegur til að styðja við losunina.

6. Að lokum nokkur orð um gjaldeyrisinngrip bankans: Nefndin mun ræða þau á næsta fundi sínum eða á sérstökum fundi ef á þarf að halda. Þá verður m.a. litið til þeirra skrefa við losun hafta sem vænta má að hafi þá verið nýstigin. Að þessu sinni verður ekki gerð breyting á þeirri stefnu sem fylgt hefur verið síðustu vikur og markast af því að gjaldeyrisforði er nálægt þeirri stöðu sem æskileg er í aðdraganda skrefanna sem framundan eru í losun hafta. Tímabundið ofris krónunnar í aðdraganda stórra skrefa í losun hafta er ekki æskilegt né heldur er það æskilegt að verðmyndun krónu á markaði sé tekin algjörlega úr sambandi. Í þessu samhengi er rétt að upplýsa að í framhaldi af endurskoðun og mótun inngripastefnu sem gæti tekið við eftir að fjármagnshöft eru orðin óheftari mun Seðlabankinn skoða kosti og galla þess að miða við breytilegt gengi í spám sínum.

Til baka