logo-for-printing

14.03.2016

Ný rannsókn um íslenskan vinnumarkað

Ein meginforsenda þess að peningastefna geti haft áhrif á efnahagsumsvif er sú að laun og verð séu tregbreytanleg. Grundvallarspurning sem þjóðhagfræðingar glíma við er því að hvaða marki laun eru tregbreytanleg og hvað ræður því hve hratt laun í hagkerfinu breytast. Í nýjasta tölublaði hins virta tímarits, Journal of Monetary Economics, nr. 78, 2016  er birt grein sem varpar nýju ljósi á þessa mikilvægu spurningu. Í rannsókninni sem greinin byggir á er notast við íslensk örgögn, en auk þess að búa yfir nær einstökum gögnum hefur Ísland gengið í gegnum gríðarlegar sveiflur á undangengnum árum sem gerir íslenskan vinnumarkað að ákjósanlegu viðfangsefni til að greina á milli ólíkra drifkrafta launabreytinga. Niðurstöðurnar sýna að launabreytingar eru ekki aðeins háðar tíma (e. time-dependent), líkt og jafnan er gert ráð fyrir, heldur einnig háðar stöðu hagkerfisins (e. state-dependent), þ.e. launabreytingar eru bæði samstilltar í tíma og eiga sér stað með föstu millibili, en eru einnig háðar verðbólgu og atvinnuleysi.

Niðurstöðurnar veita mikilvægar upplýsingar um áhrifamátt peningastefnunnar: þegar launabreytingar eru stöðu-háðar mun peningastefna hafa, að öðru jöfnu, veikari áhrif á efnahagsumsvif en þegar breytingar eru aðeins háðar tíma.

Höfundar eru Rannveig Sigurðardóttir, staðgengill aðalhagfræðings og aðstoðarframkvæmdastjóri hagfræði og peningastefnu í Seðlabanka Íslands og Jósef Sigurðsson doktorsnemi við Institute for International Economic Studies við Stokkhólmsháskóla og áður sérfræðingur hjá Seðlabanka Íslands.

Til baka