logo-for-printing

03.02.2014

Þorvarður Tjörvi Ólafsson: Erindi hjá Seðlabanka Kýpur um lærdóma af endurskipulagningu skulda á Íslandi

Þorvarður Tjörvi Ólafsson, hagfræðingur hjá Seðlabanka Íslands, flutti nýverið erindi á ráðstefnu hjá Seðlabanka Kýpur um meðhöndlun vanskilalána og endurskipulagningu skulda heimila og fyrirtækja. Vanskil hafa aukist ört á Kýpur í kjölfar fjármálakreppunnar á síðasta ári og eru nú um 46% allra lána í vanskilum og vinna við endurskipulagningu skulda er rétt að hefjast. 

Seðlabanki Kýpur efndi af þessu tilefni til alþjóðlegrar ráðstefnu og bauð fulltrúum frá Íslandi og Írlandi til eyjarinnar til að miðla af reynslu þessara landa, en einnig fluttu erindi fulltrúar frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum, framkvæmdastjórn Evrópusambandsins og Seðlabanka Evrópu, auk innlendra aðila. Ráðstefnan fór fram í Níkósíu, höfuðborg Kýpur, dagana 27.-28. janúar sl. 

Í erindi sínu fjallaði Þorvarður Tjörvi um hvernig hefði verið lagt mat á umfang vandans hér á landi, þá stofnanaumgjörð sem var sett upp í kringum endurskipulagningu skulda heimila og fyrirtækja og þær aðgerðir sem kynntar voru til sögunnar. Loks fjallaði hann um þá lærdóma sem mætti draga af reynslu Íslendinga í glímunni við vanskil og endurskipulagningu lána. 

Meðfylgjandi skjal sýnir myndir og texta sem Þorvarður Tjörvi studdist við í erindinu: Þorvarður Tjörvi Ólafsson: Quantification of troubled debt and policy responses. Lessons from Iceland. Erindi á ráðstefnu Seðlabanka Kýpur 27. til 28. janúar 2014.pdf

Í nýlegri skýrslu um Kýpur frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum má finna rammagrein um lærdóma fyrir Kýpur frá endurskipulagningu skulda á Íslandi og Írlandi (sjá rammagrein 3, bls. 26-27): http://www.imf.org/external/pubs/ft/scr/2013/cr13374.pdf

 

 

Til baka