logo-for-printing

28.01.2014

Þorgeir Eyjólfsson: Af gjaldeyrisútboðum Seðlabankans

Þorgeir Eyjólfsson, verkefnisstjóri í Seðlabanka Íslands:

Grein þessi birtist í Morgunblaðinu 27. janúar 2014:

Ísland stendur frammi fyrir þeim vanda að erlendir aðilar eiga umtalsvert magn lausafjár í íslenskum krónum sem líkur eru á að þeir myndu breyta í erlendan gjaldeyri við fyrsta tækifæri ef ekki væru fjármagnshöft. Nauðsynlegt er að leysa þann vanda áður en höftin eru leyst. Árið 2011 mótaði Seðlabankinn áætlun, sem hlaut samþykki stjórnvalda, um að vinna markvisst að því að koma þessari lausafjáreign í hendur langtímafjárfesta og búa þannig í haginn fyrir losun fjármagnshafta. Stefnan er framkvæmd með gjaldeyrisútboðum sem hafa að aðalmarkmiði að lækka stöðustærð kvikra krónueigna sem námu 605 milljörðum kr. eftir fall bankanna í árslok 2008 en eru taldar hafa numið 327 milljörðum kr. um síðustu áramót.

Gjaldeyrisútboð ríkisskuldabréfa hófust sumarið 2011, en fyrsta útboðið samkvæmt fjárfestingaleiðinni var haldið í febrúar 2012. Alls hafa verið haldin sautján útboð ríkisskuldabréfa og fimmtán útboð hafa verið haldin í tengslum við fjárfestingarleiðina. Á grundvelli útboðsverðsins í hverju tilfelli og skráðs meðalgengis Seðlabankans á sama degi hafa fjárfestar fært alls um 51,3 milljarða kr. inn í landið með útboðum samkvæmt ríkisskuldabréfaleiðinni og 147,4 milljarða samkvæmt fjárfestingarleiðinni. Tæplega þriðjungur af þessu hefur farið gegnum innlendan gjaldeyrismarkað, þar sem 50% af þeirri fjárhæð sem fjárfest er fyrir samkvæmt fjárfestingarleiðinni verður að breyta í íslenskar krónur á innlendum gjaldeyrismarkaði. Í byrjun desember 2013 höfðu gjaldeyrisútboðin veitt til Íslands erlendar fjárfestingar sem jafngiltu um það bil 11,6% af vergri landsframleiðslu ársins 2012.
Um 45,5% af fjármagnsinnstreyminu af völdum fjárfestingarleiðarinnar hafa verið fest í skuldabréfum, um 41,5% í hlutabréfum, 12% í fasteignum og um 1% í verðbréfasjóðum. Fjármunir sem koma til landsins samkvæmt fjárfestingarleið eru að öllu leyti bundnir kvöðum um fimm ára ráðstöfunarbann. Þegar greint er á milli innlendra og erlendra aðila sem tóku þátt í útboðunum kemur í ljós að 37% heildarfjárhæðarinnar koma frá innlendum og 63% frá erlendum fjárfestum. Við þessa greiningu eru erlend fyrirtæki í eigu íslenskra aðila flokkuð sem innlendir fjárfestar.

Erlendum gjaldeyri, sem Seðlabankinn aflar í fyrrgreindum útboðum samkvæmt ríkisverðbréfaleið og fjárfestingarleið, er varið til að kaupa krónur (stundum kallaðar aflandskrónur) í útboðum af fjárfestum sem vilja losa um krónufjárfestingu sína á Íslandi með þeim hætti. Haldin hafa verið sextán útboð þar sem leitað er tilboða frá aðilum sem vilja selja krónueignir sínar í skiptum fyrir erlendan gjaldeyri sem er undanþeginn skilaskyldu. Árið 2011 voru haldin tvö slík útboð á genginu 210 krónur á evru. Verðið hélst nokkuð stöðugt árið 2012, eða 240 krónur á evru, en það hefur lækkað á árinu 2013. Í síðasta útboðinu, sem var haldið í desember 2013, var útboðsverðið 216 krónur á evru. Í útboðunum sextán hafa alls 342,8 milljarðar kr. verið boðnir til sölu, en þar af hefur Seðlabankinn keypt 117,8 milljarða kr.

Útboðsverð er ákveðið að afloknum útboðunum þremur á útboðsdegi. Magn þeirra króna sem Seðlabankinn kaupir fyrir erlendan gjaldeyri ræðst af magni þess erlenda gjaldeyris sem boðinn er til sölu til kaupa á löngum ríkisskuldabréfum og til fjárfestinga í gegnum fjárfestingaleiðina. Þannig er áhrifum útboðanna á gjaldeyrisforðann haldið í lágmarki. Útboðsdagsetningar eru tilkynntar með fyrirvara og verða næstu útboð 4. febrúar og 18. mars 2014.

Þess misskilnings gætir á stundum að Seðlabankinn hafi heimildir til að takmarka hverjir taki þátt í fjárfestingarleiðinni á þeim forsendum að viðkomandi eða aðilar nákomnir þeim sæti rannsókn hjá sérstökum saksóknara. Seðlabankinn hefur ekki tök á því að vita hverjir sæta rannsókn hjá sérstökum saksóknara, frekar en aðrir utan þess embættis. Hins vegar er þátttaka fjárfesta í útboðum fjárfestingarleiðar háð því skilyrði að þeir liggi ekki undir rökstuddum grun hjá gjaldeyriseftirliti Seðlabankans um meint brot, hafi ekki verið ákærðir af handhafa ákæruvalds eða kærðir til lögreglu af Seðlabankanum vegna meintra brota á lögum um gjaldeyrismál, nr. 87/1992, og reglum settum á grundvelli þeirra.

(Birt í Morgunblaðinu 27. janúar 2014).

Til baka