logo-for-printing

03. nóvember 2021

Seðlabankar hafa hlutverki að gegna í loftslagsmálum

Network for Greening the Financial System (NGFS) er samtök seðlabanka og fjármálaeftirlita víða um heim sem hafa lýst vilja sínum til að stuðla að bestu framkvæmd áhættustýringar í fjármálageiranum á sviði loftslagsmála og að stuðla að sjálfbærri og umhverfisvænni fjárfestingu. Samtökin birtu í dag yfirlýsingu, NGFS Glasgow Declaration, í tengslum við loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna. Seðlabanki Íslands á aðild að NGFS og birti í dag ásamt öðrum meðlimum samtakanna yfirlýsingu til stuðnings markmiðum NGFS og setti einnig fram sín eigin markmið í tilefni af ráðstefnunni.

Á loftslagsráðstefnunni, COP26, sem nú fer fram í Glasgow í Skotlandi ræða þjóðir heims hvernig samræma og efla megi alþjóðlegar aðgerðir til að ná markmiðum um samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda og þar með draga úr hlýnun jarðar. Nýleg skýrsla vinnuhóps sérfræðinga milliríkjanefndar Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar (IPCC) varpar ljósi á að töluvert vantar upp á til að halda hlýnun jarðar innan við 1,5 gráður – og jafnvel 2 gráður – á þessari öld eins og stefnt var að með Parísarsamkomulaginu. Þetta undirstrikar nauðsyn þess að draga enn frekar og með skilvirkari hætti úr losun gróðurhúsalofttegunda. Dagurinn í dag, 3. nóvember, er tileinkaður fjármálum á loftslagsráðstefnunni. Þar verður meðal annars fjallað um með hvaða hætti aðilar á fjármálamarkaði geta lagt sitt af mörkum til að ná markmiðum um kolefnishlutleysi árið 2050.

Loftslagsáhætta og hlutverk seðlabanka

Seðlabankar stuðla að verð- og fjármálastöðugleika og styðja þannig við sjálfbæran hagvöxt og almenna velferð. Það er hluti af starfsemi seðlabanka að taka tillit til og bregðast við áhættu í hagkerfinu sem ógnað gæti þessum markmiðum og þar er loftslagsáhætta ekki undanskilin. Loftslagsbreytingar eru aðeins ein tegund kerfisbreytinga sem geta hafa áhrif á fjármálageirann. Yfirleitt er loftslagsáhættu skipt í raunáhættu og umbreytingaráhættu og að einhverju marki er samspil þessarar áhættu þannig að raunáhrifin minnka eftir því sem umbreytingaráhrifin eru meiri. Mikilvægt er að gagnsæi einkenni stefnumótun til að umbreytingin til kolefnishlutleysis verði með skipulegum hætti og þannig dregið úr áhættunni.

Loftslagsáhætta byggist upp á löngum tíma og um nokkra hríð hefur staðan verið sú að mestur skaði hefur verið fyrirsjáanlegur utan við hefðbundinn sjóndeildarhring seðlabanka. Sjóndeildarhringur peningastefnu er gjarnan tvö til þrjú ár en allt að tíu ár fyrir fjármálastöðugleika. Afleiðingar loftslagsbreytinga eru þó farnar að birtast með áþreifanlegum hætti innan þessara tímaramma. Verði hraðinn í viðbrögðum við loftlagsbreytingum sá sem þarf til að ná settum markmiðum munu umtalsverðar kerfislegar breytingar verða sem óhjákvæmilega munu hafa töluverða áhættu í för með sér. Taka þarf tillit til þessarar áhættu og bregðast við með viðeigandi hætti og þar hafa Seðlabankar hlutverki að gegna.

Aukið gagnsæi og upplýsingagjöf um loftslagsáhættu eru grunnforsenda þess að aðilar á fjármálamarkaði geti tekið upplýstar ákvarðanir. Skýr opinber stefnumótun styður við það markmið. Mikilvægur hluti af auknu gagnsæi og upplýsingagjöf er að skilgreina, mæla og flokka loftslagsáhættu og miðla upplýsingum um hana. Það auðveldar aðilum á fjármálamarkaði að taka upplýstar ákvarðanir um ráðstöfun fjármagns til verkefna sem styðja við minnkun útblásturs gróðurhúsalofttegunda, umbreytingu yfir í lágkolefnishagkerfi og draga úr hlýnun jarðar.

 

 

Fjölþættar aðgerðir seðlabanka

NGFS samtökin voru stofnuð af átta seðlabönkum og fjármálaeftirlitum í París árið 2017 á tveggja ára afmæli Parísarráðstefnunnar (COP21). Í dag eru meðlimirnir 100 seðlabankar og fjármálaeftirlit auk 16 áheyrnarfulltrúa. Í yfirlýsingu samtakanna í dag kemur fram að þau muni efla enn frekar viðleitni sína til að styðja við markmið Parísarsamkomulagsins með því að auka viðnámsþrótt fjármálageirans gagnvart loftslags- og umhverfistengdri áhættu, stuðla að grænni fjármálageira og auknu flæði fjármagns í átt að sjálfbæru efnahagslífi. NGFS stefnir meðal annars að því að halda áfram vinnu við að bæta loftslagssviðsmyndir, auka greiningu og skilning á samspili peningastefnu og loftslagsáhættu, efla söfnun, greiningu og miðlun gagna um áhættuna, útbúa leiðbeiningar um upplýsingagjöf seðlabanka eigin starfsemi, stuðla að aukinni getu eftirlitsaðila á þessu sviði og alþjóðlegri samræmingu og styðja við getu meðlima NGFS til að takast á við loftslagsáhættu og nýta sér ráðgjöf NGFS.

Í yfirlýsingu Seðlabanka Íslands koma fram fyrstu opinberu markmið bankans í loftslagsmálum. Fyrst ber að nefna að Seðlabankinn styður alþjóðlegar skuldbindingar og markmið íslenskra stjórnvalda með því að setja eigin markmið um samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda og grípa til aðgerða til að ná þeim. Þá hefur bankinn ákveðið að útbúa leiðbeiningar fyrir fyrirtæki og stofnanir sem lúta eftirliti bankans í því augnamiði að greina, mæla og fylgjast með hættu sem steðjað gæti að rekstri þeirra af völdum loftslagsbreytinga. Seðlabankinn mun vinna með fjármálafyrirtækjum að því að auka skilning á þeim hættum sem loftslagsbreytingar kunna að fela í sér fyrir fyrirtækin og efnahagslífið almennt, hvort tveggja raun- og umbreytingaráhættu. Bankinn mun einnig taka tillit til loftslagsáhættu í álagsprófum á fjármálageiranum og byggja þau meðal annars á sviðsmyndum NGFS. Bankinn mun nýta niðurstöðurnar til að auka vitund aðila á fjármálamarkaði um möguleg áhrif loftslagsáhættu á fjármálastöðugleika. Seðlabankinn mun einnig þróa lágmarksviðmið fyrir eigin fjárfestingar tengdar varðveislu gjaldeyrisforðans auk þess sem hann skuldbindur sig til þess að miðla reynslu og þekkingu á viðeigandi málefnum tengdum loftslagsbreytingum til fjármálafyrirtækja og stjórnvalda.

Loftslagsbreytingar eru stærsta áskorun okkar tíma enda ógna þær hagsæld, velferð og mögulega tilvist mannkyns. Loftslagsáhætta, þar með talin sú hætta er stafar af umbreytingu í kolefnishlutlaust hagkerfi, felur í sér áraun fyrir fjármálakerfið og hagkerfið í heild. Enginn ábyrgur þátttakandi í efnahagslífi þjóðarinnar má sitja hjá aðgerðarlaus.

Höfundar: Gunnar Jakobsson, varaseðlabankastjóri fjármálastöðugleika, Ragnheiður Jónsdóttir og Sigrún María Einarsdóttir, sérfræðingar á skrifstofu bankastjóra. 

Til baka