logo-for-printing

12. október 2021

Lífeyrissjóðir - Nokkur orð um kostnað og ávöxtun

Íslenska lífeyrissjóðakerfið er stórt með tilliti til flestra efnahagslegra þátta. Lífeyrissparnaður hérlendis um þessar mundir er 6.300 ma.kr. og árleg fjárfestingarþörf [1] sjóðanna um 400 ma.kr. Fjármagn lífeyrissjóðanna leitar því víða innanlands og erlendis. Sjóðirnir eru helsta uppspretta ellilífeyris og mikilvægi þeirra mun aukast enn frekar á næstu árum samhliða vaxandi lífeyrissparnaði.

Lífeyrissjóðakerfið er að mestu leyti þannig uppbyggt að það hefur skilgreint markmið (e. defined ambition) um greiðslu lífeyris. Lífeyrisgreiðslur eru því á endanum háðar frammistöðu sjóðanna á fjármálamörkuðum og kostnaðaraðhaldi í starfsemi þeirra. Í raun fylgir engin skuldbinding eða ábyrgð lífeyrisgreiðslunum, fyrir utan B-deildir lífeyrissjóða ríkis og sveitarfélaga. Þær deildir eru með skilgreind réttindi (e. defined benefit) með fulla ábyrgð vinnuveitanda. Ábyrgð stjórnenda sjóða með skilgreind markmið er því mikil í efnahagslegu tilliti hvort sem litið er til fjármálamarkaðarins eða afkomu framtíðar lífeyrisþega. Gagnsæi og aukin upplýsingagjöf um kostnað, ávöxtun og væntanlegan lífeyri verður því æ mikilvægari eftir því sem hlutdeild lífeyristekna frá lífeyrissjóðum eykst og hlutur almannatrygginga dregst saman.

 

Kostnaður

Samhliða hratt vaxandi lífeyrissparnaði hefur heildarkostnaður við lífeyrissparnað landsmanna farið vaxandi og fengið af þeim sökum meiri athygli. Einnig hefur flóknari og fjölbreyttari fjármálamarkaður ásamt auknum eftirlitskröfum varðandi gagnsæi beint kastljósinu að kostnaðinum. Einn stærsti útgjaldaliður lífeyrissjóða er bein og óbein fjárfestingargjöld. Með reglum um ársreikninga lífeyrissjóða nr. 335/2015 var stigið stórt skref í átt að auknu gagnsæi um kostnað lífeyrissjóða. Þar er komið á samræmdum aðferðum við framsetningu og útreikning á kostnaðarliðum, beinum og óbeinum.

Upplýsingagjöf hefur stórbatnað eftir því sem lífeyrissjóðir og vörsluaðilar hafa náð að aðlagast auknum kröfum reglnanna. Ekki er óeðlilegt að kostnaður sem hlutfall af eignum hafi aukist í fyrstu með tilkomu reglnanna en til lengri tíma má vænta þess að hann minnki eftir því sem gagnagæði batna og samanburður milli sjóða verður auðveldari. Það hefur verið reynslan erlendis frá, þar sem settar hafa verið ítarlegar reglur um birtingu kostnaðar, meðal annars í Hollandi og Danmörku. Samanburður við önnur lönd er á hinn bóginn enn sem komið er erfiður, þar sem ekki hafa komið fram nægjanlega samræmdar reglur um kostnaðarbirtingu lífeyrissjóða, hvorki hjá OECD löndum né meðal ríkja ESB. Kostnaðartölur sem OECD birtir, sem oft eru notaðar við samanburð milli landa, ná ekki að fullu yfir óbein fjárfestingargjöld lífeyrissjóða. [2] Þar eru birtar tölur um rekstrar- og fjárfestingarkostnað lífeyrissjóða (e. private pension) sem hlutfall af heildareignum. Einnig birti OECD nýlega gögn um gjaldtöku vegna lífeyrissparnaðar sem útvistaður er til þjónustuaðila. [3]

 

Samkvæmt innsendum gögnum til Fjármálaeftirlits Seðlabanka Íslands (Fjármálaeftirlitsins) nemur heildarkostnaður samtryggingasjóða, beinn og óbeinn, tæplega 24 ma.kr. eða sem samsvarar um 0,46% af heildareignum sjóðanna þegar litið er á kerfið í heild. [4] Auðvitað er kostnaður misjafn milli sjóða eða allt frá 0,17% til 0,93% af eignum og hafa stærð og eignasamsetning þar áhrif. Víðtæk útvistun á starfsemi lífeyrissjóða getur og haft áhrif á birtingarmynd kostnaðar. Gögnin gefa sterka vísbendingu um stærðarhagkvæmni í starfsemi lífeyrissjóða. Þó eru dæmi um að litlir sjóðir séu með hlutfallslega lágan kostnað, ef eignasafnið er fábreytt og einfalt í stýringu.

Að sjálfsögðu fylgir starfsemi lífeyrissjóða umtalsverður kostnaður og álitsgjafa kann að greina á um hvað telst ásættanlegt í þeim efnum. Með einföldu reiknilíkani má leiða að því líkum að til dæmis hækkun kostnaðar sem hlutfall af eignum úr 0,25% í 1% gæti lækkað réttindi (lífeyri) um 12% miðað við 40 ára sparnað. [5]

Ekki hafa verið sett fram opinber viðmið eða takmarkanir varðandi kostnað á lífeyrismarkaði hér á landi. Slíkt hefur verið reynt víða erlendis en með misjöfnum árangri. [6] Virk samkeppni milli lífeyrissjóða ætti að geta stuðlað að nauðsynlegu kostnaðaraðhaldi. Miðað við óbreytt skipulag lífeyrissparnaðar er þó erfitt að sjá fyrir sér virka samkeppni þeirra í milli. Það væri helst á sviði séreignarsparnaðar að jarðvegur fyrir virkari samkeppni gæti skapast.

Aðhald frá hagsmunaaðilum eins og sjóðfélögum ásamt kröfum um gagnsæi kostnaðar munu áfram skipta miklu varðandi kostnaðaraðhald. Haghafar verða einnig að hafa í huga við samanburð á kostnaði, að í mörgum tilfellum getur hærri kostnaður leitt til betri ávöxtunar. Hár kostnaður getur einfaldlega gefið til kynna meiri þjónustu og fagmennsku og leitt til betri árangurs varðandi ávöxtun til lengri tíma litið og þar af leiðandi aukinna lífeyrisréttinda sjóðfélaga. Kostnað og ávöxtun þarf því að skoða í samhengi.

Ávöxtun og áhætta

Eftir fjármálakreppuna 2008 hefur að jafnaði gengið vel að ávaxta lífeyriseignir landsmanna í vörslu lífeyrissjóða og annarra og hefur árleg hrein raunávöxtun verið 5,7% að meðaltali síðastliðin 10 ár. Ef horft er lengra aftur hefur árleg ávöxtun samtryggingardeilda lífeyrissjóðanna síðastliðin 30 ár verið að jafnaði 4,7%. Það er vel yfir svokölluðu 3,5% ávöxtunarviðmiði sem notað er við núvirðingu eigna og skuldbindinga í tryggingafræðilegum úttektum lífeyrissjóðanna sem tekur mið af væntri ávöxtun til lengri tíma.

Þetta viðmið hefur verið mikið til umræðu síðustu misserin og talið, af mörgum sérfræðingum á fjármálamarkaði, halda uppi vaxtastigi á skuldabréfamarkaði. Það sé því ein helsta ástæða, við núverandi lágvaxtaumhverfi, fyrir dræmum áhuga lífeyrissjóða á skuldabréfum útgefnum af ríkissjóði.

Það verður að teljast mikil einföldun að 3,5% viðmiðið eitt og sér haldi uppi vaxtastiginu og alls óvíst að áhugi lífeyrissjóðanna á skuldabréfum ríkisins ykist ef það yrði fellt niður eða lækkað. Sjóðirnir munu eftir sem áður setja sér metnaðarfull markmið um ávöxtun, að teknu tilliti til áhættu, til lengri tíma og þannig móta sér viðmið sem leiðandi aðilar á fjármálamarkaði. Eins og áður hefur komið fram er í raun engin skuldbinding eða loforð lífeyrissjóða á almennum vinnumarkaði og A-deildir sjóða ríkis og sveitarfélaga um framtíða lífeyrisgreiðslur sem hlutfall af ævitekjum, heldur aðeins skilgreint markmið. Því væri það meira upplýsandi fyrir sjóðfélaga að fá greinargott yfirlit yfir væntan lífeyri byggðan á sviðsmyndum um ávöxtunarmarkmið sjóðsins og útkomuna ef ávöxtun, til lengri tíma litið, og hvort heldur hún verður undir eða yfir settum markmiðum.

Höfundur: Björn Z. Ásgrímsson, sérfræðingur á sviði lífeyris og vátrygginga

[1] Fjárfestingarþörf = Iðgjöld - lífeyrir + afborganir verðbréfa + arður
[2] OECD.stat
[3] OECD Pension Markets in Focus 2020
[4] Sjá nánar Samantekt ú ársreikningum lífeyrissjóða
[5] Vefrit Fjármálaeftirlitsins, Fjármál
[6] OECD working paper, Lessons from developing funded retirement saving arrangements DAF/AS/PEN/WD(2020)10

Til baka