logo-for-printing

04. apríl 2024

Yfirlýsing peningastefnunefndar um breytingu á bindiskyldu lánastofnana 4. apríl 2024

Peningastefnunefnd
Peningastefnunefnd

Peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands ákvað á aukafundi sínum 2. apríl sl. að hækka fasta bindiskyldu lánastofnana úr 2% í 3% af bindigrunni. Breytingin tekur gildi við byrjun næsta bindiskyldutímabils, 21. apríl nk.

Ein grunnforsenda þess að unnt sé að reka sjálfstæða og trúverðuga peningastefnu er að Seðlabanki Íslands búi yfir öflugum gjaldeyrisforða. Hlutverk forðans er að draga úr áhrifum sveiflna í greiðslujöfnuði með hliðsjón af stefnu bankans í peninga- og gengismálum. Þá dregur öflugur gjaldeyrisforði úr líkum á því að fjármagnshreyfingar til og frá landinu raski fjármálastöðugleika. Hann er auk þess öryggissjóður sem hægt er að grípa til þegar stór og óvænt áföll eiga sér stað sem raska gjaldeyrisöflun þjóðarbúsins. Slíkri tryggingu fylgir hins vegar kostnaður sem eykst eftir því sem vaxtamunur gagnvart útlöndum er meiri. Þessi kostnaður er að mestu leyti borinn af Seðlabankanum en aðrir innlendir haghafar njóta ábatans í formi hagstæðari vaxtakjara á alþjóðlegum fjármálamörkuðum.

Ákvörðunin um hækkun bindiskyldunnar er hluti af heildarendurskoðun Seðlabankans á vaxtakjörum sem helstu mótaðilar njóta í bankanum og hefur það að markmiði að dreifa betur kostnaði sem fylgir því að reka sjálfstæða peningastefnu og treysta sjálfbæra fjármögnun gjaldeyrisforða þjóðarinnar.

Hækkun bindiskyldu getur haft áhrif á aðhaldsstig peningastefnunnar en í ljósi rúmrar lausafjárstöðu innlánsstofnana hjá Seðlabankanum ættu skammtímaáhrif breytingarinnar að vera takmörkuð. Til lengri tíma mun hún hins vegar skjóta traustari fótum undir rekstur peningastefnunnar og þannig auka trúverðugleika Seðlabankans og stuðla að bættri skilvirkni peningastefnunnar.

 

Frétt nr. 8/2024
4. apríl 2024


Til baka