logo-for-printing

25. janúar 2024

Endurskoðuð viðmið og aðferðafræði vegna könnunar- og matsferlis hjá fjármálafyrirtækjum

Bygging Seðlabanka Íslands
Fjármálaeftirlit Seðlabanka Íslands hefur gefið út endurskoðuð Almenn viðmið og aðferðafræði vegna könnunar- og matsferlis hjá fjármálafyrirtækjum. Drög að hinum endurskoðuðu viðmiðum voru send fjármálafyrirtækjum og Samtökum fjármálafyrirtækja til umsagnar 15. desember sl. með umræðuskjali nr. 18/2023.Tvær umsagnir bárust.

Markmið almennu viðmiðanna er að skilgreina og kynna með almennum hætti aðferðafræði og framkvæmd könnunar- og matsferlis fjármálaeftirlitsins. Aðferðafræðin er í samræmi við viðmiðunarreglur Evrópsku bankaeftirlitsstofnunarinnar (EBA) um könnunar- og matsferli og álagspróf (EBA/GL/2022/03). Viðmiðunarreglur EBA fela í sér ítarlegri lýsingu á aðferðafræði við könnunar- og matsferli sem fjármálaeftirlitið starfar eftir við eftirlitsframkvæmd sína og vísast því almennt til þeirra til nánari skýringa.

Við endurskoðun almennu viðmiðanna nú voru lagatilvísanir uppfærðar og ýmsar minni háttar efnislegar breytingar og leiðréttingar gerðar. Við endurskoðun á viðauka 1, sem fjallar um útlána- og samþjöppunaráhættu, hefur meðal annars viðmiði um útlánavöxt verið breytt með þeim hætti að viðbótareiginfjárþörf vegna útlánavaxtar geti við sérstök skilyrði ekki orðið lægri en sem nemur 50% af kröfu um viðbótareiginfjárþörf samkvæmt næstliðnu könnunar- og matsferli. Í ljósi þess að til skoðunar er að fella niður svonefnda lánasafnsskýrslu (e. loan portfolio analysis, LPA), sem hefur hingað til verið nýtt við mat á viðbótareiginfjárþörf vegna vanefnda og ívilnunar, verður samhliða stuðst við nýtt viðmið sem byggir á öllum lánum skuldara sem eru með eitt eða fleiri lán sem flokkuð eru í skilum en með ívilnun (e. performing with forbearance). Jafnframt hefur stuðull í viðmiði vegna lántakasamþjöppunar verið lækkaður, eða úr 1,96 í 1,6, ásamt því að tiltekið lágmark hefur verið sett á viðbótareiginfjárkröfu vegna lántakasamþjöppunar þegar flóknari aðferðafræði er beitt við mat á henni. Viðauki 2, sem fjallar um markaðsáhættu, hefur meðal annars verið uppfærður í tengslum við mat á verðtryggingaráhættu. Nánar tiltekið hefur eldra viðmið verið uppfært með tilliti til nýrra gagna og skýringa á því hvernig umfang áhættulauss verðtryggingarjafnaðar er reiknað út. Á viðauka 3, sem fjallar um eiginfjárauka, voru aðeins minni háttar orðalagsbreytingar og leiðréttingar gerðar.

Endurskoðuðu viðmiðin má nálgast hér: Almenn viðmið og aðferðafræði vegna könnunar- og matsferlis hjá fjármálafyrirtækju m.
Til baka