logo-for-printing

20. september 2023

Ný rannsóknarritgerð um fjármálaskilyrðavísi fyrir Ísland

Seðlabanki Íslands hefur gefið út rannsóknarritgerðina „A Financial Conditions Index for Iceland“ sem Tómas Dan Halldórsson, hagfræðingur í Seðlabanka Íslands, og Stella Einarsdóttir, sérfræðingur í Seðlabanka Íslands, skrifuðu ásamt Eysteini Einarssyni hagfræðingi og Védísi Sigríði Ingvarsdóttur, meistaranema við DTU í Kaupmannahöfn. Hin tvö síðarnefndu eru fyrrum starfsmenn Seðlabankans.

Rannsóknin hefur það að leiðarljósi að búa til mælikvarða sem fangar þróun fjármálaskilyrða á Íslandi. Með fjármálalegum skilyrðum er vísað til aðgengis fyrirtækja og heimila að fjármagni til fjárfestingar og framleiðslu en einnig vísar hugtakið til þess hvort aðstæður til fjármálalegrar milligöngu í hagkerfinu séu hagfelldar eða krefjandi hverju sinni. Um árabil hefur Seðlabankinn fjallað um fjármálaleg skilyrði í ritum sínum með því að greina mismunandi upplýsingar og áhættuvísa með aðskildum hætti og draga svo greininguna saman í rituðu máli. Greiningin hefur þó ekki sameinað alla helstu mælikvarða varðandi fjármálaskilyrði í einn vísi með megindlegum aðferðum. Hinum nýja fjármálaskilyrðavísi er ætlað að bæta úr því.

Megintilgangur fjármálaskilyrðavísis er því að ná fram heildstæðri og rekjanlegri samantekt fjármálaskilyrða en niðurstöður rannsóknarinnar leiða einnig í ljós að vísirinn hefur fylgni við hagvöxt sem bendir til þess að hann geti gagnast við mat á efnahagsþróun. Þegar tekið er ársfjórðungslegt meðaltal af mánaðarlegum mælingum vísisins og þeim hliðrað fram um einn ársfjórðung í tíma hefur hann fylgnistuðulinn 0,61 við ársfjórðungslegan hagvöxt á milli ára. Sá eiginleiki, að vera efnilegur leiðandi hagvísir, vekur því vonir um að vísirinn geti gagnast við að greina tengsl milli fjármálalegra þátta og efnahagsþróunar í víðari skilningi. Upplýsingagildi hans getur gagnast við spágerð, einkum til að spá fyrir um efnahagsumsvif í mjög nálægri framtíð. Þannig getur hann stutt við greiningar á áhrifum peningastefnunnar á efnahagslífið í gegnum áhrif hennar á fjármálaskilyrði. Nýleg þróun vísisins bendir til þess að fjármálaleg skilyrði heimila og fyrirtækja séu þó nokkuð verri en á sama tíma í fyrra sem á fyrst og fremst rætur sínar að rekja til hærra vaxtastigs og hægari umsvifa á fasteignamarkaði.

Sjá ritið hér: A financial conditions index for Iceland


Til baka