logo-for-printing

21. júní 2023

Lífeyrissparnaður við árslok 2022

Bygging Seðlabanka Íslands

Fjármálaeftirlit Seðlabanka Íslands hefur birt samantekt, sem byggist á innsendum gögnum, úr ársreikningum lífeyrissjóða og sambærilegum gögnum frá vörsluaðilum séreignarsparnaðar. Eins og undanfarin ár starfaði 21 lífeyrissjóður í 25 samtryggingardeildum og af þeim buðu 13 sjóðir upp á séreignarsparnað í 43 deildum. Fimm innlendir vörsluaðilar séreignarsparnaðar veittu sparnað í 31 séreignarleið. Tvö erlend tryggingafélög buðu séreignarsparnað í formi lífeyrisafurða. Þau lúta eftirliti heimaríkis síns og því er upplýsingagjöf þeirra hér á landi ekki með sambærilegum hætti og innlendra vörsluaðila.

Lífeyrissparnaður landsmanna í formi samtryggingar og séreignar lífeyrissjóða og annarra vörsluaðila nam 7.030 ma.kr. í árslok 2022 og minnkaði um 87 ma.kr. frá fyrra ári. Sem hlutfall af vergri landsframleiðslu (VLF) nam lífeyrissparnaðurinn 186%. Eignir í samtryggingu námu 5.920 ma.kr. og 1.110 ma.kr. í séreign.

Tryggingafræðileg staða samtryggingardeilda lífeyrissjóðanna versnaði milli ára vegna nettó réttindaaukningar, verðtryggingar lífeyrisréttinda og 11,5% neikvæðrar raunávöxtunar. Áfallnar skuldbindingar lífeyrissjóða jukust um 14,1% og námu 7.100 ma.kr. Framtíðarskuldbindingar hækka minna vegna lægri réttindaávinnslu. Heildarskuldbindingar lífeyrissjóða aukast um 10,9% í 10.922 ma.kr. Tryggingafræðileg staða lífeyrissjóða án ábyrgðar launagreiðenda er -5,6% og 536 ma.kr. vantar uppá svo að eignir og skuldbindingar standist á. Heildarstaða lífeyrissjóða með ábyrgð ríkis og sveitarfélaga er -73,0% og ófjármagnaðar skuldbindingar þeirra nema 992 ma.kr.

Í samantektinni er að finna nýjan hluta sem inniheldur sundurliðun á séreign.

Sjá nánar á sérstakri síðu fyrir talnaefni um lífeyrissjóði. Lífeyrissparnaður við árslok sést þar í skjalinu „Samantekt úr ársreikningum lífeyrissjóða 2022 - talnaefni.“


Til baka