logo-for-printing

09. maí 2023

Endurskoðuð Almenn viðmið og aðferðafræði vegna könnunar- og matsferlis hjá fjármálafyrirtækjum

Bygging Seðlabanka Íslands

Fjármálaeftirlit Seðlabanka Íslands hefur gefið út endurskoðuð Almenn viðmið og aðferðafræði vegna könnunar- og matsferlis hjá fjármálafyrirtækjum. Drög að hinum uppfærðu viðmiðum voru send fjármálafyrirtækjum og Samtökum fjármálafyrirtækja til umsagnar 8. mars sl. með umræðuskjali nr. 2/2023 og bárust fjórar umsagnir.

Markmið almennu viðmiðanna er að skilgreina og kynna með almennum hætti aðferðafræði og framkvæmd könnunar- og matsferlis fjármálaeftirlitsins. Aðferðafræðin er í samræmi við viðmiðunarreglur Evrópsku bankaeftirlitsstofnunarinnar (EBA) um könnunar- og matsferli og álagspróf (EBA/GL/2022/03). Viðmiðunarreglur EBA fela í sér ítarlegri lýsingu á aðferðafræði við könnunar- og matsferli sem fjármálaeftirlitið starfar eftir við eftirlitsframkvæmd sína og vísast því almennt til þeirra til nánari skýringa.

Endurskoðun viðmiðanna var orðin tímabær, einkum vegna breytinga á lögum um fjármálafyrirtæki, nr. 161/2002, síðastliðið sumar þegar CRD-regluverkið, þ.e. tilskipun 2013/36/ESB (CRD IV) og reglugerð (ESB) nr. 575/2013 (CRR) með breytingum samkvæmt tilskipun (ESB) 2019/878 (CRD V) og reglugerð (ESB) 2019/876 (CRR 2), var að fullu innleitt í íslenskan rétt með lögum nr. 38/2022 og vegna útgáfu fyrrnefndra viðmiðunarreglna EBA sem tóku gildi 1. janúar sl. innan Evrópusambandsins.

Við endurskoðun almennu viðmiðanna voru lagatilvísanir uppfærðar og ýmsar efnislegar breytingar gerðar með hliðsjón af framangreindum lagabreytingum og viðmiðunarreglum EBA. Í viðauka 1, sem fjallar um útlána- og samþjöppunaráhættu, var meðal annars viðmið vegna vanmats staðalaðferðar fellt brott og bætt var við viðmiði vegna einstaklingslána, þ.m.t. bílalána og var skerpt á því að mat á eiginfjárþörf vegna samþjöppunaráhættu getur verið háð sérfræðimati hverju sinni. Viðauki 2, sem fjallar um markaðsáhættu, hefur meðal annars verið uppfærður í tengslum við mat á verðtryggingaráhættu, þ.e. með tilliti til stöðu verðtryggingarjafnaðar, auk þess sem bætt var við umfjöllun um að mat á eiginfjárþörf vegna fastvaxtaáhættu geti að uppfylltum ákveðnum skilyrðum, verið metin með aðferðum sem byggt er á í nýjum viðmiðunarreglum EBA, sem taka gildi í júní og desember 2023. Í viðauka 3, sem fjallar um eiginfjárauka, voru lagatilvísanir uppfærðar og efnislegar breytingar einungis óverulegar.


Til baka