logo-for-printing

09. maí 2023

Árlegum viðræðum sendinefndar Alþjóðagjaldeyrissjóðsins við íslensk stjórnvöld og aðra hagaðila lokið

Bygging Seðlabanka Íslands
Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn birti í dag álit sendinefndar sinnar (e. Concluding Statement) eftir fundi hennar með íslenskum stjórnvöldum og öðrum hagaðilum síðustu tvær vikur. Fundirnir eru hluti af árlegri úttekt Alþjóðagjaldeyrissjóðsins á stöðu og horfum í íslensku atvinnulífi (e. Article IV Consultation). Hliðstæðar úttektir eru gerðar í öllum aðildarlöndum sjóðsins. Yfirmaður sendinefndar sjóðsins vegna reglulegra efnahagsúttekta er Magnus Saxegaard.

Önnur sendinefnd hefur einnig verið að störfum hérlendis í vetur vegna heildstæðrar úttektar Alþjóðagjaldeyrissjóðsins á fjármálakerfinu (e. Financial Sector Assessment Program). Yfirmaður sendinefndar sjóðsins vegna úttektar á fjármálakerfinu er Etienne Yehoue.

Í álitinu sem birt er í dag kemur fram að Ísland hefur sýnt mikinn viðnámsþrótt gegn röð ytri áfalla síðan 2019. Þá er bent á að framleiðsluspenna og verðbólga vel yfir markmiði kalli á aðhaldssama stjórn efnahagsmála. Áhætta er einkum falin í þrálátari verðbólgu, spennu í tengslum við næstu kjaraviðræður og þrengri alþjóðlegum fjármálaskilyrðum. Komandi kjaraviðræður veiti tækifæri til þess að tengja betur saman raunlaun og framleiðnivöxt.

Úttekt á fjármálakerfinu leiddi í ljós að kerfið býr yfir nægilegum viðnámsþrótti þó að einnig mætti finna einhverja veikleika. Eiginfjárstaða bankanna er sterk og ætti að gera þá vel í stakk búna til að mæta áföllum. Lausafjárstaða bankanna var einnig metin fullnægjandi en gaf til kynna að erlend fjármögnun bankanna gæti verið mögulegur veikleiki. Regluverk á fjármálamarkaði og fjármálaeftirlit voru á heildina litið talin fullnægjandi, en bent var á að styrkja mætti regluverk um starfsemi lífeyrissjóða.

Skýrslurnar sem unnar eru í tengslum við heimsóknirnar verða teknar til umræðu í stjórn sjóðsins um miðjan júní nk. og verða birtar í framhaldinu.

Sjá nánar í lauslegri þýðingu álit sendinefndar Alþjóðagjaldeyrissjóðsins hér: Ísland: Álit sendinefndar Alþjóðagjaldeyrissjóðsins í kjölfar úttektar á íslensku atvinnulífi árið 2023 (e. Article IV Mission).

Álit sendinefndarinnar (á ensku) er hér: Iceland: Staff Concluding Statement of the 2023 Article IV Mission

Tengill á efni um Ísland á vef Alþjóðagjaldeyrissjóðsins.
 
Til baka