logo-for-printing

28. mars 2023

Sérrit nr. 17: Seðlabankarafeyrir

Seðlabanki Íslands hefur birt umræðuskýrslu um seðlabankarafeyri (e. central bank digital currency). Seðlabankarafeyrir er rafræn útgáfa seðlabanka á gjaldmiðli viðkomandi ríkis en á undanförnum árum hefur áhugi á útgáfu seðlabankarafeyris aukist mikið um allan heim. Seðlabankarafeyrir sem gefinn yrði út af Seðlabanka Íslands hefur fengið vinnuheitið rafkróna.

Vinna innan Seðlabanka Íslands í tengslum við hugsanlega útgáfu seðlabankarafeyris hefur hingað til einkum beinst að því að afla þekkingar á viðfangsefninu, fylgjast með og kortleggja tilraunir annarra seðlabanka og alþjóðastofnana. Er sú vinna mikilvægur þáttur í því að undirbúa ákvörðun um útgáfu seðlabankarafeyris hér á landi og hvernig skuli standa að henni ef af yrði. Undirbúningurinn felst jafnframt í því að eiga samtal um kosti og galla útgáfu við stjórnvöld, hagaðila og almenning.

Seðlabankinn hefur enn ekki tekið formlega afstöðu til útgáfu seðlabankarafeyris og ekki eru heldur gerðar tillögur um útgáfu í umræðuskýrslunni. Í skýrslunni eru ýmis álitamál sem tengjast mögulegri útgáfu hins vegar reifuð og fjallað um alþjóðlega þróun.

Umræðuskýrslunni er ætlað að miðla þekkingu á málinu, undirbúa samtal bankans við hagsmunaaðila og almenning og stuðla að almennri umræðu um kosti þess og galla að gefa út rafkrónu hér á landi. Í umræðukafla skýrslunnar eru settar fram spurningar sem beint er til þeirra sem vilja láta sig málið varða, t.d. um hver markmið útgáfunnar skuli helst vera, hvort rafkróna skuli bera vexti og um ýmsa aðra tæknilega og hagræna eiginleika rafkrónu sem taka þarf til greina. Svörin sem berast verða notuð til að byggja undir stefnumörkun Seðlabankans.

Sérritið má nálgast hér: Seðlabankarafeyrir.
Til baka