logo-for-printing

01. mars 2023

Breytingar á lögum og reglum um sértryggð skuldabréf

Bygging Seðlabanka Íslands

Í dag tóku gildi lög nr. 7/2023 um breytingu á lögum um sértryggð skuldabréf, nr. 11/2008 og lögum um fjármálafyrirtæki, nr. 161/2002. Með lögunum er innleidd tilskipun (ESB) 2019/2162, um útgáfu sértryggðra skuldabréfa og opinbert eftirlit með sértryggðum skuldabréfum, og reglugerð (ESB) 2019/2160, um breytingu á reglugerð (ESB) nr. 575/2013 (CRR) að því er varðar áhættuskuldbindingar í formi sértryggðra skuldabréfa. Gerðunum er ætlað að skapa sameiginlegan og einsleitan markað með sértryggð skuldabréf innan ríkja Evrópu.

Meðal helstu breytinga sem gerðar eru á lögum um sértryggð skuldabréf eru þær að leyfi til útgáfu sértryggðra skuldabréfa er háð því að útgefandi hafi fullnægjandi stefnu, kerfi og ferla varðandi samþykki, breytingar, endurnýjun og endurfjármögnun lána í tryggingasafni. Einnig verða þeir sem annast útgáfu að hafa fullnægjandi hæfni og þekkingu á sértryggðum skuldabréfum. Útgefendur verða ávallt að hafa nægt laust fé í tryggingasöfnum til að standa undir hámarksútflæði lauss fjár vegna sértryggðra skuldabréfa næstu 180 daga, mælt er fyrir um ítarlegri upplýsingagjöf útgefanda til fjárfesta og fjármálaeftirlits Seðlabanka Íslands og heimilt er að fresta gjalddögum sértryggðra skuldabréfa. Fleiri brot en áður varða nú stjórnvaldssektum og hefur hámark sekta verið hækkað. Þá er útgefendum heimilt að markaðssetja skuldabréf sem uppfylla skilyrði laganna sem „evrópsk sértryggð skuldabréf (e. European Covered Bond)“ eða „evrópsk sértryggð skuldabréf (úrvals) (e. European Covered Bond (Premium)“.

Samhliða þessum breytingum hefur Seðlabankinn sett nýjar reglur um sértryggð skuldabréf, nr. 190/2023, sem jafnframt tóku gildi í dag. Með reglunum falla úr gildi reglur nr. 528/2008 um sama efni. Nýju reglurnar taka aðallega mið af þeim breytingum sem gerðar hafa verið á lögum um sértryggð skuldabréf. Þannig bætist við reglurnar nýtt ákvæði þar sem afmarkað er hvaða eignir megi telja til lauss fjár skv. nýrri 6. gr. a laganna. Einnig bætist við nýtt ákvæði sem fjallar um upplýsingagjöf útgefanda til fjármálaeftirlitsins skv. nýrri 24. gr. a laganna. Þá eru gerðar breytingar á ákvæði reglnanna sem fjallar um afleiðusamninga sem tengjast sértryggðum skuldabréfum og aðrar breytingar sem ekki eru meiri háttar.

Á vef Stjórnartíðinda má finna lög nr. 7/2023 um breytingu á lögum um sértryggð skuldabréf.

A vef Stjórnartíðinda má finna reglur nr. 190/2023 um sértryggð skuldabréf.

Frétt nr. 5/2023
1. mars 2023

 

Til baka