logo-for-printing

03. janúar 2023

Form fyrir lykilupplýsingaskjöl vegna tiltekinna fjárfestingarafurða fyrir almenna fjárfesta - PRIIPs

Bygging Seðlabanka Íslands

Með lögum nr. 55/2021, um lykilupplýsingaskjöl vegna tiltekinna fjárfestingarafurða fyrir almenna fjárfesta, var reglugerð (ESB) nr. 1286/2014 (PRIIPs) innleidd í íslenskan rétt, þ.m.t. skyldan í 5. gr. PRIIPs um að aðilar gefi út lykilupplýsingaskjöl vegna tiltekinna fjárfestingarafurða fyrir almenna fjárfesta svo þeim sé unnt að skilja og bera saman lykilþætti og áhættu pakkaðra og vátryggingatengdra fjárfestingarafurða.

Samkvæmt 2. mgr. 18. gr. laga nr. 55/2021 hafa rekstrarfélög verðbréfasjóða, rekstraraðilar sérhæfðra sjóða fyrir almenna fjárfesta skv. X. kafla laga nr. 45/2020 og aðilar sem veita ráðgjöf um eða selja hluti og/eða hlutdeildarskírteini verðbréfasjóðs eða sérhæfðs sjóðs fyrir almenna fjárfesta skv. sama kafla, hingað til verið undanþegnir gildissviði laganna, þ.m.t. skyldunni til að gefa út lykilupplýsingaskjöl þegar afurðir hafa verið boðnar almennum fjárfestum. Undanþágan var veitt á þeim grundvelli að verið væri að vinna að sérstöku formi fyrir lykilupplýsingaskjöl fyrir rekstrarfélög verðbréfasjóða og rekstraraðila sérhæfðra sjóða innan Evrópusambandsins. Rekstrarfélög verðbréfasjóða hafa því hingað til gefið út lykilupplýsingaskjöl skv. tilskipun (ESB) 2009/65 (UCITS) sem innleidd var í íslenskan rétt með lögum nr. 116/2021, um verðbréfasjóði og hefur sambærileg skylda jafnframt verið á rekstraraðilum sérhæfðra sjóða á grundvelli laga nr. 45/2020, um rekstraraðila sérhæfðra sjóða. Fyrrgreind undanþáguheimild til framangreindra aðila rann út 31. desember 2022 og eru aðilar því nú skyldugir til að útbúa lykilupplýsingaskjöl samkvæmt lögum nr. 55/2021 en ekki samkvæmt lögum 116/2021 og 45/2020 eins og að framan hefur verið lýst.

Af framangreindu tilefni vekur fjármálaeftirlit Seðlabanka Íslands athygli á reglugerð framkvæmdastjórnar (ESB) 2021/2268 sem varðar lykilupplýsingaskjöl fyrir framangreinda aðila, þ.m.t. framsetningu á efni lykilupplýsingaskjals, sbr. 5. mgr. 8. gr. PRIIPs, endurskoðun upplýsinga í lykilupplýsingaskjali, sbr. 2. mgr. 10. gr. PRIIPs og miðlun lykilupplýsingaskjals, sbr. 5. mgr. 13. gr. PRIIPs, og beinir því til viðtakenda dreifibréfsins að kynna sér hana og taka framvegis mið af henni við samningu og miðlun lykilupplýsingaskjala fyrir almenna fjárfesta á grundvelli laga nr. 55/2021.

Seðlabankinn mun í framhaldinu, þegar endanleg þýðing þýðingarmiðstöðvar utanríkisráðuneytisins liggur fyrir, gefa út reglur á grundvelli 2. mgr. 17. gr. laga nr. 55/2021 sem koma til með að innleiða fyrrgreinda reglugerð (ESB) 2021/2268 í íslenskan rétt.

Fjármálaeftirlitið hefur jafnframt sent dreifibréf til rekstraraðila verðbréfasjóða, starfsleyfisskyldra rekstraraðila sérhæfðra sjóða sem markaðssetja afurðir til almennra fjárfesta og Samtaka fjármálafyrirtækja þar sem athygli þeirra er vakin á framangreindu. Dreifibréfið er aðgengilegt hér.

Reglugerð framkvæmdastjórnar (ESB) 2021/2268 er aðgengileg í Stjórnartíðindum Evrópusambandsins hér.

 
Til baka