logo-for-printing

06. september 2022

Nýr framkvæmdastjóri bankasviðs Seðlabanka Íslands

Gísli Óttarsson hefur tekið við stöðu framkvæmdastjóra bankasviðs Seðlabanka Íslands, tímabundið í stað Elmars Ásbjörnssonar sem hefur sagt starfi sínu lausu.

Gísli hóf störf í Seðlabankanum í árslok 2020 sem áhættustjóri bankans á sviði skrifstofu bankastjóra. Hann var framkvæmdastjóri áhættustýringar Arion banka frá 2009 til 2020, en áður var Gísli forstöðumaður í áhættustýringu Kaupþings banka frá 2006 til 2008 og stjórnandi í hugbúnaðarþróun Mechanical Dynamics Inc frá 1994 til 2006. Gísli er með BS-gráðu í byggingarverkfræði frá HÍ, MS-gráðu í hagnýtri aflfræði og PhD-gráðu í vélaverkfræði frá University of Michigan, auk þess að vera með próf í verðbréfaviðskiptum.

Elmar Ásbjörnsson, fráfarandi framkvæmdastjóri, hóf störf í Fjármálaeftirlitinu árið 2011 og starfaði meðal annars sem forstöðumaður á sviði áhættugreiningar frá 2014 og frá árinu 2021 sem framkvæmdastjóri bankasviðs Seðlabanka Íslands. Í tengslum við þessar mannabreytingar tekur Höskuldur Hlynsson tímabundið við starfi Gísla sem áhættustjóri Seðlabankans samhliða því að starfa sem öryggisstjóri bankans.


Til baka