logo-for-printing

04. maí 2022

Yfirlýsing peningastefnunefndar 4. maí 2022

Peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands.
Peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands.

Peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands hefur ákveðið að hækka vexti bankans um 1 prósentu. Meginvextir bankans, vextir á sjö daga bundnum innlánum, verða því 3,75%.

Efnahagshorfur hafa heldur versnað frá febrúarspá Seðlabankans vegna neikvæðra áhrifa innrásar Rússlands í Úkraínu. Á hinn bóginn eru vísbendingar um talsverðan þrótt innlendra umsvifa. Slakinn í þjóðarbúinu virðist horfinn og spenna tekin að myndast á vinnumarkaði. Gert er ráð fyrir 4,6% hagvexti í ár en að hann verði tæplega 3% á næstu tveimur árum.

Verðbólga mældist 7,2% í apríl og horfur hafa versnað verulega. Enn sem fyrr vegur hækkun húsnæðisverðs og annarra innlendra kostnaðarliða þungt auk þess sem alþjóðlegt olíu- og hrávöruverð hefur hækkað mikið. Verðhækkanir eru því á breiðum grunni sem endurspeglast í hraðri aukningu undirliggjandi verðbólgu sem mælist nú ríflega 5%. Þá hafa verðbólguvæntingar hækkað á alla mælikvarða. Samkvæmt spá Seðlabankans eru horfur á að verðbólga aukist í rúmlega 8% á þriðja fjórðungi ársins sem er 2,8 prósentum meiri verðbólga en spáð var í febrúar. Gert er ráð fyrir að samspil vaxtahækkana og hertra lánþegaskilyrða muni hægja á verðhækkun húsnæðis og innlendri eftirspurn.

Peningastefnunefnd telur líklegt að herða þurfi taumhald peningastefnunnar enn frekar á næstu mánuðum til að tryggja að verðbólga hjaðni í markmið innan ásættanlegs tíma. Ákvarðanir í atvinnulífi, á vinnumarkaði og í ríkisfjármálum munu skipta miklu um hversu hátt vextir þurfa að fara.

Frétt nr. 11/2022
4. maí 2022

Vextir verða því sem hér segir:

1. Daglán 5,50%
2. Lán gegn veði til 7 daga 4,50%
3. Innlán bundin í 7 daga 3,75%
4. Viðskiptareikningar 3,5%

Sjá hér: Vextir og bindiskylda við Seðlabanka Íslands, 4. maí 2022

 

Til baka