logo-for-printing

26. apríl 2022

Vorfundur Alþjóðagjaldeyrissjóðsins 2022

Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri tók þátt í vorfundi Alþjóðagjaldeyrissjóðsins dagana 18. til 23. apríl sl. í Washington DC ásamt öðrum fulltrúum Seðlabankans og fjármála- og efnahagsráðuneytisins.

Á vorfundum Alþjóðagjaldeyrissjóðsins koma saman fulltrúar seðlabanka, fjármálaráðuneyta, einkafyrirtækja, félagasamtaka og fræðasamfélagsins til að ræða m.a. um efnahagslegar horfur og þróun í heiminum og skilvirkni efnahags- og þróunaraðgerða. Vegna kórónuveirufaraldurs sátu að þessu sinni aðeins fjórir fulltrúar frá hverju landi fundina í Washington, aðrir tóku þátt á rafrænan máta.

Málefni tengd stríðinu í Úkraínu voru ofarlega á baugi en í yfirlýsingu kjördæmis Norðurlanda og Eystrasaltslanda kemur meðal annars fram að stríðið ógni efnahagslegum stöðugleika og hagvexti í heiminum til lengri tíma. Ennfremur fagna ríkin því að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hafi brugðist hratt við og veitt úkraínskum stjórnvöldum nauðsynlega neyðaraðstoð. Hægt er að lesa yfirlýsinguna hér: Yfirlýsing kjördæmis Norðurlanda og Eystrasaltslanda í fjárhagsnefnd Alþjóðagjaldeyrissjóðsins

Vegna stríðsins í Úkraínu tókst fjárhagsnefnd Alþjóðagjaldeyrissjóðsins (International Monetary and Financial Committee, IMFC) ekki að sammælast um yfirlýsingu á fundinum. Í staðinn gaf formaður nefndarinnar út yfirlýsingu sem studd var af flestum ríkjum. Hægt er að lesa yfirlýsinguna hér: Yfirlýsing formanns fjárhagsnefndar Alþjóðagjaldeyrissjóðsins (IMFC)

Helstu stefnumál sjóðsins voru kynnt í stefnuyfirlýsingu Kristalinu Georgievu, framkvæmdastjóra Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Þar var áhersla lögð á mikilvægi alþjóðasamvinnu og alþjóðaviðskipta fyrir velferð alþjóðasamfélagsins, áframhaldandi krísustjórnun og stuðning við þau lönd sem á þurfa að halda, baráttu gegn vaxandi verðbólgu og skulda auk áherslu á loftlagsmálin svo eitthvað sé nefnt. Hægt er að lesa stefnuyfirlýsinguna hér: Stefnuyfirlýsing framkvæmdastjóra Alþjóðagjaldeyrissjóðsins

Hér fyrir neðan má finna aðra tengla á efni tengt vorfundinum:

Ýmist efni frá vorfundinum
Safn yfirlýsinga Alþjóðagjaldeyrissjóðsins
Til baka