logo-for-printing

02. febrúar 2022

Könnun á væntingum markaðsaðila

Bygging Seðlabanka Íslands

Seðlabanki Íslands kannaði væntingar markaðsaðila dagana 24. til 26. janúar sl. Leitað var til 29 markaðsaðila á skuldabréfamarkaði, þ.e. banka, lífeyrissjóða, verðbréfa- og fjárfestingarsjóða, verðbréfamiðlana og fyrirtækja með starfsleyfi til eignastýringar. Svör fengust frá 25 aðilum og var svarhlutfallið því 86%.

Helstu niðurstöður
Niðurstöður könnunarinnar gefa til kynna að markaðsaðilar vænti þess að verðbólga verði að meðaltali 5% á yfirstandandi ársfjórðungi en hjaðni á næstu mánuðum og verði 4,7% á öðrum fjórðungi. Þá vænta þeir þess að verðbólga minnki áfram í kjölfarið og verði 3,8% að ári liðnu. Þetta er meiri verðbólga en markaðsaðilar væntu í nóvemberkönnuninni en þá gerðu þeir ráð fyrir að hún yrði að meðaltali 4,4% á yfirstandandi fjórðungi. Verðbólguvæntingar til tveggja og fimm ára hafa hækkað frá síðustu könnun og mælast 3%. Verðbólguvæntingar til tíu ára hafa einnig hækkað og mælast 2,75%. Könnunin gefur til kynna að markaðsaðilar vænti þess að gengi krónunnar hækki á næstu misserum og að gengi evru gagnvart krónu verði 140 krónur eftir eitt ár.

Miðað við miðgildi svara í könnuninni búast markaðsaðilar við því að meginvextir bankans hækki í 2,5% á yfirstandandi fjórðungi og að þeir hækki um 0,25 prósentur í hverjum fjórðungi það sem eftir er árs og verði þá um 3,5% eftir ár. Þeir vænta þess að í kjölfarið haldist vextir óbreyttir ári síðar. Þetta eru hærri vextir en markaðsaðilar bjuggust við í könnun bankans í nóvember sl. en þá væntu þeir þess að meginvextir yrðu 2,5% eftir eitt ár og 3% að tveimur árum liðnum.

Nokkur breyting var á afstöðu svarenda til taumhalds peningastefnunnar og telja nú langflestir þeirra eða 76% að taumhaldið sé of laust um þessar mundir en hlutfallið var 56% í nóvember. Á móti fækkar þeim sem telja taumhaldið hæfilegt og er hlutfall þeirra nú 20% samanborið við 44% í síðustu könnun. Aðeins um 4% svarenda í könnuninni eru þeirrar skoðunar að taumhaldið sé of þétt.

Dreifing svara markaðsaðila um væntingar til verðbólgu var nánast sú sama og í síðustu könnun þegar horft var til næstu þriggja ársfjórðunga og tíu ára en meiri þegar horft var til eins, tveggja og fimm ára. Dreifing svara markaðsaðila um væntingar til vaxta var minni en í síðustu könnun þegar horft var til næstu fjórðunga.

Markaðsaðilar voru að þessu sinni spurðir um launaþróun. Þeir vænta þess að launahækkanir í komandi kjarasamningalotu verði minni en í yfirstandandi lotu. Miðað við miðgildi svara gera þeir ráð fyrir að launavísitalan hækki að meðaltali um 5% á ári í næstu samningalotu en meðaltal svara var heldur hærra eða 5,5%. Svörin spönnuðu nokkuð breitt bil, allt frá 3% upp í 10% sem endurspeglar töluverða óvissu um niðurstöðu næstu kjarasamninga.

Sjá hér niðurstöðurnar í Excel-skjali: Könnun á væntingum markaðsaðila - fyrsti ársfjórðungur 2022 (uppfært skjal)


Til baka