logo-for-printing

08. desember 2021

Seðlabanki Íslands birtir stefnu vegna MREL

Bygging Seðlabanka Íslands

Seðlabanki Íslands hefur birt MREL-stefnu sem er leiðbeinandi fyrir íslenskan fjármálamarkað um hvernig skilavald Seðlabanka Íslands ákvarðar lágmarkskröfu um eiginfjárgrunn og hæfar skuldbindingar (MREL, Minimum Requirement for Own Funds and Eligible Liabilities), sbr. 17. gr. laga um skilameðferð lánastofnana og verðbréfafyrirtækja, nr. 70/2020. MREL-stefnan byggir á fyrirmyndum erlendis frá. Líkt og fram kemur í stefnunni var meðal annars stuðst við skjöl útgefin af Evrópsku skilavaldastofnuninni (SRB) og Riksgälden sem fer með skilavald í Svíþjóð.

MREL-kröfur fela í sér að eigið fé og hæfar skuldbindingar fjármálafyrirtækis nægi til að tryggja að það geti mætt ófyrirséðu tapi og að hægt verði að endurfjármagna það án opinbers fjárstuðnings ef það telst vera á fallanda fæti. MREL samanstendur af fjárhæð tapþols (Loss Absorption Amount, LAA) og fjárhæð endurfjármögnunar (Recapitalisation Amount, RCA). Fjárhæð tapþols er jöfn lágmarkskröfu um eiginfjárgrunn, þ.e. samtala stoðar I og stoðar II-R (Pillar 1/Pillar 2). Fjárhæð endurfjármögnunar er að lágmarki jöfn lágmarkskröfu um eiginfjárgrunn en til að viðhalda markaðstrausti er hægt að bæta við þá fjárhæð álagi sem byggist á mati skilastjórnvalds.

Stefnt er að því að taka ákvarðanir um MREL-kröfur fjármálafyrirtækja í ársbyrjun 2022. Fyrirtæki sem ekki uppfylla að fullu MREL-kröfur munu fá tilhlýðilegan aðlögunartíma. Fyrirhugaðar breytingar á lögum um skilameðferð á komandi misserum, vegna annarrar tilskipunar ESB um skilameðferð lánastofnana og verðbréfafyrirtækja (BRRD II), munu hafa áhrif á MREL-stefnu skilavalds Seðlabanka Íslands. Stefnan verður því uppfærð í kjölfar þessara breytinga.


Til baka