logo-for-printing

06. september 2021

Ný rannsóknarritgerð um aðferðir til að spá um verðbólgu og þátt launa- og gengisbreytinga í verðbólguferlinu

Working Paper. Wages and prices of foreign goods in the inflationary process in Iceland

Seðlabanki Íslands hefur gefið út rannsóknarritgerðina „Wages and prices of foreign goods in the inflationary process in Iceland“ eftir Ásgeir Daníelsson, sem starfar á hagfræði- og peningastefnusviði SÍ.

Í ritgerðinni er fjallað um tölfræðilegar aðferðir við að meta jöfnur til að spá verðbólgu á Íslandi. Bent er á ástæður fyrir því að áhrif launabreytinga á verðbólgu á þessari öld eru oft ómarktæk og sýnt að í slíkum tilfellum getur verið skynsamlegt að notfæra sér að vísitala neysluverðs, laun á framleidda einingu og verð á innfluttum vörum í krónum eru samþættar stærðir og nota samband á milli þeirra til að spá fyrir um verðbólgu. Sýnt er hvernig mikill breytileiki í launabreytingum og einkum mikill breytileiki í breytingum í verði á innfluttum vörum, miðað við breytileika í verðbólgu, veldur því að stuðlar við breytingu í launum og breytingu í verði innfluttra vara í jöfnum fyrir verðbólgu verða lægri en ella.

Metin er spájafna fyrir verðbólgu þar sem samband vísitölu neysluverðs, launa og verðs á innfluttum vörum er skýristærð og prófað hvernig hún reynist í spám fyrir tímabilið 2018-2020. Þessi jafna spáir aðeins betur en jafnan sem nú er notuð í þjóðhagslíkani bankans, QMM, en spárnar eru síðri en þegar einfaldar spáformúlur eru notaðar.

Hægt er að nálgast rannsóknarritgerðina hér: Working paper nr. 87. Wages and prices of foreign goods in the inflationary process in Iceland.


Til baka