logo-for-printing

18. ágúst 2021

Könnun á væntingum markaðsaðila

Bygging Seðlabanka Íslands

Seðlabanki Íslands kannaði væntingar markaðsaðila dagana 9. til 11. ágúst. Leitað var til 29 markaðsaðila á skuldabréfamarkaði, þ.e. banka, lífeyrissjóða, verðbréfa- og fjárfestingarsjóða, verðbréfamiðlana og fyrirtækja með starfsleyfi til eignastýringar. Svör fengust frá 24 aðilum og var svarhlutfallið því 83%.

Helstu niðurstöður
Niðurstöður könnunarinnar gefa til kynna að markaðsaðilar vænti þess að verðbólga verði að meðaltali 4,2% á yfirstandandi ársfjórðungi en hjaðni í kjölfarið og verði að meðaltali 4% á fjórða fjórðungi og 3,7% á fyrsta fjórðungi næsta árs. Þá vænta þeir þess að verðbólga hjaðni áfram á næsta ári og verði 3% að ári liðnu. Í maíkönnuninni gerðu markaðsaðilar ráð fyrir að verðbólga myndi hjaðna hraðar og væri komin í 3,4% á fjórða fjórðungi þessa árs. Verðbólguvæntingar til tveggja og tíu ára eru áfram í samræmi við verðbólgumarkmið og óbreyttar frá síðustu könnun en verðbólguvæntingar til fimm ára hækka lítillega. Könnunin gefur til kynna að markaðsaðilar vænti þess að gengi krónunnar hækki á næstu misserum og að gengi evru gagnvart krónu verði 145 krónur eftir eitt ár.

Miðað við miðgildi svara í könnuninni búast markaðsaðilar við því að meginvextir bankans hækki í 1,25% á þriðja ársfjórðungi og um 0,25 prósentur til viðbótar á síðasta fjórðungi ársins. Þá vænta þeir þess að meginvextir verði komnir í 2% eftir eitt ár og 2,25% að tveimur árum liðnum. Þetta eru hærri vextir en markaðsaðilar bjuggust við í könnun bankans í maí sl. en þá væntu þeir þess að meginvextir yrðu 1,25% við lok þessa árs og 1,5% að tveimur árum liðnum.

Flestir svarenda eða 67% þeirra telja taumhald peningastefnunnar hæfilegt um þessar mundir en hlutfallið var 54% í síðustu könnun. Á móti lækkar hlutfall þeirra sem telja taumhaldið of laust og er það nú 33% samanborið við 46% í maí. Áfram telur enginn svarenda í könnuninni að taumhaldið sé of þétt.

Dreifing svara markaðsaðila um væntingar til verðbólgu var minni en í síðustu könnun þegar horft var til næstu tveggja ársfjórðunga og þegar horft var til tveggja, fimm og tíu ára. Dreifing svara markaðsaðila um væntingar til vaxta var einnig á heildina litið minni en í síðustu könnun. Jafnframt minnkaði dreifing svara um gengishorfur milli kannana, bæði þegar spurt var um gengi eftir eitt ár og eftir tvö ár.

Sjá nánar hér: Könnun á væntingum markaðsaðila.

Til baka