logo-for-printing

30. júní 2021

Ný lög um gjaldeyrismál og nýjar reglur um afleiðuviðskipti

Skjaldarmerki

Alþingi samþykkti nýverið ný lög um gjaldeyrismál nr. 70/2021 en frumvarp þess efnis var lagt fram í febrúar síðastliðnum. Frumvarpið var samið af starfshópi sem fjármála- og efnahagsráðherra skipaði í september 2019 og var ætlað að taka til heildarendurskoðunar umgjörð gjaldeyrismála hér á landi, einkum lög um gjaldeyrismál, lög um krónueignir sem háðar eru sérstökum takmörkunum (aflandskrónulögin) og reglur settar á grundvelli laganna. Lögin tóku gildi í gær.

Ný lög um gjaldeyrismál marka kaflaskil en með þeim eru fjármagnshöft sem sett voru á í nóvember 2008 að öllu leyti úr sögunni. Enn fremur eru nýju lögin einfaldari, skýrari og aðgengilegri, auk þess sem létt hefur verið á tilkynningarskyldu almennings, fyrirtækja og erlendra fjárfesta gagnvart Seðlabankanum.

Eftir sem áður er tryggt að Seðlabankinn hafi tiltæk nauðsynleg úrræði til að verja efnahagslegan stöðugleika eða fjármálastöðugleika gerist þess þörf. Þau úrræði sem Seðlabankinn getur gripið til í þágu þjóðhagsvarúðar á grundvelli laganna eru:

  • Heimild til að leggja á sérstaka bindiskyldu vegna innstreymis erlends gjaldeyris, áþekka þeirri sem beitt var á árunum 2016-2019 og heimild hefur verið fyrir í lögum.
  • Heimild til að setja lánastofnunum reglur um útlán sem tengjast erlendum gjaldmiðlum til aðila sem ekki eru varðir fyrir gjaldeyrisáhættu. Þessi heimild er óbreytt frá þeirri sem verið hefur í lögum.
  • Heimild til að setja reglur sem takmarka afleiðuviðskipti þar sem íslensk króna er tilgreind í samningi gagnvart erlendum gjaldmiðli. Í greinargerð með frumvarpinu kom fram að fyrirséð væri að afleiðuviðskiptum yrðu settar einhverjar skorður á grundvelli þessarar heimildar. Nýjar reglur Seðlabankans um afleiðuviðskipti nr. 765/2021, voru samþykktar á fundi fjármálastöðugleikanefndar 28. júní sl, og fela í sér verulega rýmkun á fyrri heimildum til slíkra viðskipta. Nánar tiltekið hafa þær í för með sér að öll afleiðuviðskipti verði heimil, óháð tilgangi þeirra, en að heildarumfangi afleiðuviðskipta fjármálafyrirtækja verði þess í stað settar skorður. Reglurnar taka gildi í dag.

Í lögunum er jafnframt að finna heimild fyrir Seðlabankann, að undangenginni staðfestingu ráðherra, til að setja reglur sem m.a. geta takmarkað eða stöðvað í allt að 60 daga tiltekna flokka fjármagnshreyfinga eða greiðslna milli landa, auk þess að leggja á skilaskyldu erlends gjaldeyris. Þessi heimild gildir aðeins í neyðaraðstæðum sem hafa í för með sér verulega hættu á að fjármálastöðugleika verði raskað af völdum óheftra fjármagnshreyfinga og ekki er unnt að bregðast við með öðrum úrræðum.

Til viðbótar við framangreint eru með lögunum aflandskrónulögin felld brott í heild sinni. Í því felst að ekki munu lengur gilda sérreglur um svokallaðar aflandskrónueignir og munu þær lúta sömu reglum og aðrar krónueignir. Þar með verður skylt að snúa við þeim sérstöku takmörkunum sem lögin kváðu á um og fólust m.a. í afmörkun og flutningi aflandskrónueigna á reikninga sem háðir eru sérstökum takmörkunum skv. 4. gr. og flutningi á umsýslureikninga Seðlabankans skv. 5. gr. þeirra laga. Auk þess falla kvaðir sem áritaðar voru skv. 6. gr. þeirra laga úr gildi. Í kjölfar gildistöku laganna mun Seðlabankinn innkalla innstæðubréf sem gefin voru út vegna framkvæmdar aflandskrónulaganna (CBI2016) og afhenda vörsluaðilum aftur þau rafrænt skráðu verðbréf sem hann veitti viðtöku á umsýslureikninga. Seðlabankinn mun tilkynna þeim sem sjá um framkvæmd þessa nánar um hvernig því verður háttað á næstu dögum.

Til baka