logo-for-printing

31. mars 2021

Regluleg gjaldeyrissala Seðlabanka Íslands

Bygging Seðlabanka Íslands

Frá og með miðvikudeginum 7. apríl nk. og til mánaðarloka mun Seðlabanki Íslands selja viðskiptavökum á gjaldeyrismarkaði 3 m. evra þrisvar í viku hverri, samtals 33 m. evra. Viðskiptin munu fara fram á mánudögum, miðvikudögum og föstudögum og verða framkvæmd fljótlega eftir opnun markaðarins en eigi síðar en kl. 10 árdegis. Viðskiptin eru í samræmi við tilkynningu bankans frá 9. september 2020, sbr. frétt bankans nr. 30/2020.

Með ákvörðun þessari dregur Seðlabankinn úr tíðni og umfangi reglubundinnar gjaldeyrissölu sem framkvæmd hefur verið með óbreyttu sniði síðan 14. september 2020. Með hliðsjón af gengisþróun íslensku krónunnar undanfarnar vikur og vísbendingum um betra jafnvægi á gjaldeyrismarkaði telur Seðlabankinn tímabært að draga úr umfangi viðskiptanna. Markmið gjaldeyrissölunnar er eftir sem áður að auka dýpt gjaldeyrismarkaðarins og bæta verðmyndun.

Bankinn mun áfram tilkynna í lok hvers mánaðar um fjárhæð og ætlaða viðskiptadaga fyrir sölu gjaldeyris í mánuðinum sem í hönd fer og mun fjárhæðin taka mið af aðstæðum á markaði. Miðað verður að því að umfang gjaldeyrissölunnar sé í samræmi við eðlilega virkni markaðarins. Seðlabankinn áskilur sér því fullan sveigjanleika til að aðlaga fjárhæð, tíðni og framkvæmd sölunnar til að tryggja skilvirkni aðgerðarinnar.

Samtals seldi Seðlabankinn 69 m. evra (10,4 ma.kr.) með reglubundnum hætti í mars. Frá 14. september hefur bankinn selt samtals 420 m. evra (66,2 ma.kr.) í reglulegum viðskiptum.

Reglubundin gjaldeyrissala hefur ekki áhrif á yfirlýsta stefnu Seðlabankans um að grípa inn í á gjaldeyrismarkaði til að draga úr sveiflum eftir því sem hann telur tilefni til.

Nánari upplýsingar veitir Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri í síma 569-9600.

Sjá hér nánar frétt bankans um efnið frá 9. september 2020.

Frétt nr. 10/2021
31. mars 2021


Til baka